1.400m.kr. „sérstakt gjald“ á lífeyrissjóði?

5. des. 2011

Fjármálaráðherra hefur, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þau nýmæli eru í frumvarpinu að gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir greiði í ríkissjóð „sérstakt gjald“ sem nemur 1.400 milljónum króna á þessu ári og aftur á næsta ári. Í tilviki Lífeyrissjóðs verzlunarmanna yrði skatturinn um 260 milljónir króna á næsta ári, en greiddur að hluta í lok þessa árs.

Fjármálaráðherra hefur, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þau nýmæli eru í frumvarpinu að gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir greiði í ríkissjóð „sérstakt gjald“ sem nemur 1.400 milljónum króna á þessu ári og aftur á næsta ári. Í tilviki Lífeyrissjóðs verzlunarmanna yrði skatturinn um 260 milljónir króna á næsta ári, en greiddur að hluta í lok þessa árs.

Í athugasemdum með frumvarpinu er gerð grein fyrir breytingunum, sem það hefði í för með sér, verði það samþykkt. Þar segir meðal annars að lagt sé til að lífeyrissjóðir fjármagni 1.400 millj. kr. af umsaminni vaxtaniðurgreiðslu árið 2011 og samsvarandi fjárhæð á árinu 2012. Í greinargerð kemur jafnframt fram að það sé samið í fjármálaráðuneytinu að höfðu samráði við Landssamtök lífeyrissjóða, Fjármálaeftirlitið og velferðarráðuneytið. Í því sambandi er rétt að taka fram að Landssamtök lífeyrissjóða mótmæltu því eindregið í öllum samskiptum við fjármálaráðuneytið vegna þessa frumvarps, að umrætt gjald yrði lagt á lífeyrissjóðina.

Skattstofninn, samkvæmt frumvarpinu, er samtryggingarsjóðir lífeyrissjóðanna og miðað við hreina eign til greiðslu lífeyris. Af þeirri upphæð skal greiða 0,0814% í þennan skatt við álagningu opinberra gjalda 2012 og 2013. Gjalddagar eru 1. nóvember 2012 og 1. nóvember 2013, en greiða skal fyrirfram upp í álagt gjald hinn 31. desember 2011 og 1. nóvember 2012 „ ... og miðast sú greiðsla við hreina eign til greiðslu lífeyris eins og hún var í árslok 2010 og 2011 og það skatthlutfall sem kveðið er á um í ákvæði þessu,” segir í frumvarpstextanum. Þetta þýðir að meginhluti gjaldsins yrði greiddur fyrirfram í lok þessa árs og næsta haust.

Samkvæmt óendurskoðuðu hálfsársuppgjöri er hrein eign Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til greiðslu lífeyris um 330 milljarðar króna og má því ætla að sjóðurinn þurfi að greiða um 260.000.000 króna í skattinn um næstu áramót og aftur samsvarandi upphæð næsta haust.

Frumvarp um breytingar á lögum um lífeyrissjóði má sjá í heild hér