Lífeyriskerfi Grikkja veikast – Ástrala sterkast

17. nóv. 2011

Lífeyriskerfi Grikkja er neðst á lista 44 ríkja yfir sjálfbærni lífeyriskerfa, Ástralía er í efsta sæti listans. Almennt koma Asíuríki lakast út og Austurevrópuríki hafa fallið mikið í kjölfar þjóðnýtingar lífeyrissjóða. Fjármálakreppan í heiminum og skuldsetning ríkja vegna hennar skýra hnignandi stöðu flestra og vaxandi áhyggjur eru af því hvort lífeyriskerfi jarðarbúa geti tryggt þeim nægilega góða afkomu á efri árum. Lífeyriskerfi Íslendinga svipar helst til þeirra, sem koma best út í samanburðinum, en Ísland var ekki með í þessari úttekt.

Lífeyriskerfi á Íslandi er svonefnt þriggja stoða kerfi. Fyrsta stoð eru almannatryggingar, gegnumstreymiskerfi fjármagnað með skatttekjum ríkisins, önnur stoð eru söfnunarsjóðir í samtryggingu þar sem hver kynslóð byggir upp eigin lífeyrisréttindi og loks er þriðja stoð séreignarsparnaður, þar sem hver einstaklingur safnar í eigin sjóð. Í umræddri úttekt Allianz GI koma þau ríki best út, þar sem lífeyriskerfin eru byggð upp á svipaðan hátt og það íslenska.

Sjálfbærni

Einföld skilgreining á sjálfbæru lífeyriskerfi er að það sé kerfi sem geti tryggt tiltekinn ásættanlegan lífeyri þessarar kynslóðar og þeirrar næstu o.s.frv. Lífeyrisþegar sem búa við ósjálfbært lífeyriskerfi geta búist við því að lífeyrir þeirra skerðist eða jafnvel hverfi alveg, eins og allmörg dæmi eru um á liðnum misserum, ekki síst frá Bandaríkjunum.

Allianz Global Investors, alþjóðlegt eignastýringarfyrirtæki, tekur árlega saman lista yfir sjálfbærni lífeyriskerfa nokkurra ríkja. Þar er lífeyriskerfunum gefin einkunn frá 1 upp í 10. Athugaðir eru nokkrir þættir sem skipta máli um sjálfbærni og gæði lífeyriskerfa eins og mannfjöldaþróun og aldurssamsetning, opinber fjármál og gerð lífeyriskerfis. Við mat á gerð lífeyriskerfis er litið til þess hvort um gegnumstreymiskerfi er  að ræða, sjóðsöfnunarkerfi í samtryggingu, séreignarsparnað eða blöndu af þessum þremur þáttum. Þannig er þess freistað að finna í einni tölu niðurstöðu sem lýsir þörfinni fyrir úrbætur á lífeyriskerfinu.

Best að fá 1 en 10 er falleinkunn

 Einkunnin 1 þýðir að lífeyriskerfi viðkomandi ríkis er vel sjálfbært og þarfnast lítilla eða engra endurbóta, en einkunnin 10 þýðir að lífeyriskerfið er afar ósjálfbært, jafnvel einfaldlega ekki fyrir hendi lífeyriskerfi í viðkomandi ríki. Þannig má segja að úttektin að baki þessum lista gefi til kynna hve mikil þörf sé á endurbótum á lífeyriskerfi hvers ríkis. Ísland er ekki á þessum lista Allianz GI. Sé litið til þeirra þátta sem einkenna þau ríki sem skipa fimm efstu sæti listans má gera ráð fyrir að Ísland væri metið í þeirra hópi þar sem grunngerð lífeyriskerfa þessara ríkja eru nokkuð svipuð okkar.

Grikkland neðst þrátt fyrir úrbætur

Mest þörf fyrir úrbætur er talin vera í Grikklandi, Indlandi, Kína og Taíland, en af ólíkum ástæðum. Aftur á móti fær Ástralía hæstu einkunnina fyrir sjálfbært kerfi og þar á eftir koma Svíþjóð, Danmörk, Nýja Sjáland og Holland.

Grikkir standa lakast þrátt fyrir að úrbætur hafi verið gerðar á lífeyriskerfi þeirra fyrir þrýsting frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það var hluti af endurreisnaráætlun AGS og Evrópska seðlabankans. Eftirlaunaaldur í Grikklandi er enn afar lágur og lífeyrir opinberra starfsmanna er bundinn of háu hlutfalli hlutfalli af launum, segir í skýrslu Allianz GI. Þó eru þessi atriði ekki þau sem valda mestu um fyrirsjáanlegum erfiðleikum í gríska lífeyriskerfinu, heldur hár og hækkandi aldur þjóðarinnar. Fjöldi Grikkja á lífeyrisaldri í hlutfalli við fjölda vinnandi fólks er mun meiri og hefur vaxið örar en að meðaltali í Evrópu.

Vandi Asíuríkja annars eðlis

Brigitte Miksa, yfirmaður alþjóðalífeyrisdeildar Allianz GI, segir í tilkynningu um niðurstöðuna að gríðarlegar skuldir gríska ríkisins auki síðan enn á vandann. Hún bendir síðan á að næstu ríki, neðst á listanum, eigi við gjörólíkan vanda að glíma. Á Indlandi og í Kína sé lífeyrir lágur og nái til fárra, en ekki hafi verið gripið til fullnægjandi aðgerða til að lagfæra ástandið. Thailand er í fjórða neðsta sætinu vegna þess hve gloppótt kerfið er, stórir hlutar þjóðarinnar njóta einskis lífeyris, og lífeyrisaldur er sérstaklega lágur, við 55 ára aldur.

„Á hinum enda listans er Ástralía sem hefur tveggja stoða kerfi,“ segir Brigitte Miksa. „Þar er lítið opinbert lífeyriskerfi [fyrsta stoð: almannatryggingar, gegnumstreymi, innsk.] og háþróaðir söfnunarsjóðir [önnur stoð] sem þýðir að þar er kerfið í heild best búið undir hugsanlegt álag á fjárhag hins opinbera og er þörfin þar fyrir úrbætur því minnst. Önnur ríki í sterkri stöðu eru Svíþjóð, Danmörk, Nýja Sjáland og Holland. Eins og Ástralía eru þessi ríki með yfirgripsmikið lífeyriskerfi sem byggir lífeyrisréttindi á traustri sjóðsöfnun.“

Skuldsetning ríkissjóða afdrifarík

Undanfarinn áratug hafa nærri öll vesturevrópsku ríkin dregið saman hin opinberu lífeyriskerfi sín [gegnumstreymiskerfi, innsk.] í þeim tilgangi að gera þau sjálfbærari, segir í frétt Allianz GI. Engu að síður er mesta áhrifaaflið á röðun ríkja á lista þessa árs hin mikla skuldsetning ríkissjóða vegna efnahagskreppunnar með alvarlegustum áhrifum á Grikkland og Írland.

Í fréttinni segir að undanfarin þrjú ár hafi skuldir írska ríkisins margfaldast vegna efnahagskreppunnar og björgunar banka. Annað dæmi sé Frakkland þar sem allur árangur tilrauna (sem voru afar umdeildar og mikil átök um þær) til að gera lífeyriskerfi sjálfbærari hafi gufað upp vegna aukinnar skuldsetningar ríkisins. Sama á við Spán. Allt annað var þó uppi á teningunum í Noregi og Finnlandi, sem bættu sig á sjálfbærnilistanum vegna traustrar og góðrar fjárhagsstöðu hins opinbera.

Lífeyrissjóðir þjóðnýttir

Renate Finke, yfirhagfræðingur hjá Allianz GI, segir hin neikvæðu áhrif kreppunnar á söfnunarsjóði og á ríkisfjármál hafi reynt mjög á staðfestu margra ríkisstjórna. „Í Mið- og Austur Evrópu til dæmis ákváðu nokkur ríki að seilast í „kökukrús“ lífeyrissjóðanna til að bregðast við gríðarlegri hækkun ríkisskulda í hlutfalli við landsframleiðslu. Eistland, Ungverjaland, Lettland, Litháen, Pólland og Rúmenía höfðu endaskipti á fjármögnun lífeyriskerfa sinna, sneru frá sjóðsöfnun einstaklinga aftur til hins opinbera gegnumstreymiskerfis til þess að styrkja fjárhagsstöðu ríkissjóðanna. Þótt þessar aðgerðir hafi gert efnahagsvandann þolanlegri til skamms tíma, hafa þær eytt sjóðunum og þar með haft áhrif á langtíma sjálfbærni. Þar af leiðandi ná ríki í Mið- og Austur Evrópu ekki jafn hátt á sjálfbærnilistanum þetta ár eins og þau gerðu áður.“

Þessi ríki, sem safnað höfðu í sjóði með áþekkum hætti og gert hefur verið hér á landi,hafa samkvæmt þessu þjóðnýtt sjóðina. Með því er staða ríkisfjármála fegruð í núinu en vandanum velt yfir á framtíðina, á kostnað lífeyrisþega og vinnandi manna framtíðarinnar (komandi kynslóða).

Áhyggjur af framtíðinni

Fyrrnefnd Brigitte Miksa segir í lokin að úttektin snúi fyrst og fremst að fyrstu stoðar lífeyriskerfum [almannatryggingakerfi]. Niðurstöðurnar veki áhyggjur af fjárhag lífeyrisþega í framtíðinni. Umbætur á lífeyriskerfum undanfarin 10-15 ár hafi gjörbreytt landslaginu í lífeyrismálum jarðarbúa. Gegnumstreymiskerfi séu að þróast í átt að sjóðsöfnun, áunnin lífeyrisréttindi að taka við af tekjuhlutfalli [sem er gjarnan tiltekið hlutfall launa við starfslok] og umönnun eldra fólks er að færast af höndum kjarnafjölskyldunnar yfir á herðar formlegs opinbers félagslegs kerfis. Þetta veki upp þá mikilsverðu spurningu hvort vinnandi fólk nútímans geti lagt nægilega mikið af mörkum í lífeyrisiðgjöldum eða sköttum til að halda lífskjörum á eftirlaunum eins og fyrir eftirlaun eða hvort við þeim blasi skert afkoma, jafnvel hrein fátækt í ellinni.

Byggt á frétt Allianz GI.