Aðsend grein: Lífeyrissjóðirnir í erfiðu umhverfi

24. okt. 2011

Björn Z. Ásgrímsson er sérfræðingur á Lífeyris- og verðbréfasjóðasviði Fjármálaeftirlitsins. Hann birti afar aðgengilega og fróðlega grein í Viðskiptablaðinu þann 13. október þar sem hann fjallar um lífeyrissjóðina og stöðu þeirra nú. Við birtum greinina hér, með góðfúslegu leyfi höfundar, og hvetjum sjóðfélaga til að kynna sér efni hennar.

Bjorn-Z.-Asgrimsson

Björn Z. Ásgrímsson er sérfræðingur á Lífeyris- og verðbréfasjóðasviði Fjármálaeftirlitsins. Hann birti afar aðgengilega og fróðlega grein í Viðskiptablaðinu þann 13. október þar sem hann fjallar um lífeyrissjóðina og stöðu þeirra nú. Við birtum greinina hér, með góðfúslegu leyfi höfundar, og hvetjum sjóðfélaga til að kynna sér efni hennar.


Fjármálaeftirlitið hefur unnið undanfarin misseri að leiðbeinandi tilmælum um áhættustýringu fyrir lífeyrissjóði. Við efnahagshrunið varð gríðarlegt tap í eignasafni lífeyrissjóðanna og í ljós kom að áhættustýring þeirra var með mjög misjöfnum hætti. Áfallið frá efnahagshruninu er enn að koma í ljós og því mikilvægt að standa vörð um lífeyriskerfið og meta af yfirvegun allar undirliggjandi áhættur og þá þróun sem átt hefur sér stað undanfarin misseri. Íslenska lífeyriskerfið hefur orðið mörgum þjóðum  fyrirmynd, þar sem aðalmarkmið þess er að byggja á svokallaðri sjóðasöfnun (e. fully funded), þar sem hver kynslóð leggur til hliðar fyrir sínum lífeyri og þarf því í framtíðinni, ekki að öllu leyti, að reiða sig á lífeyrisgreiðslur frá hinu opinbera. 

Þrátt fyrir áföll síðustu ára hafa eignir lífeyrissjóðanna (sjóðfélaga) aukist en hafa þó ekki enn náð raungildi ársins 2007. Sem hlutfall af landsframleiðslu nam eign sjóðanna 132% í árslok 2011  en hæst var þetta hlutfall 136% árið 2007. (mynd 1.) Með eignum er hér átt við hreina eign samtryggingadeilda lífeyrissjóða, ásamt séreignasparnaði lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila.

eignir-lifeyrissjod-og-VLF
Mynd 1

Að stærstum hluta eru þetta eignir í vörslu innlendra lífeyrissjóða sem eru virkir þátttakendur á íslenskum fjármálamarkaði. Tvö erlend fyrirtæki bjóða upp á séreignasparnað og er hlutdeild þeirra um 1% af heildareignum lífeyrissjóðanna. Sjá skiptingu eigna sjóðanna í töflu 1 miðað við bráðabirgðatölur fyrir 30. júní sl.

Tafla1

Tafla 1

Stærstur hluti eigna sjóðanna er í vörslu samtryggingadeilda lífeyrissjóða sem bjóða sjóðfélögum ævilangan lífeyri. Víst er það vel að eignir þessara sjóða eru miklar í þjóðhags- og alþjóðlegu samhengi, en enn mikilvægara er að þær eignir nægi fyrir skuldbindingum (loforðum) um ævilangan lífeyri sjóðfélögum til handa. Um langt skeið hafa þessar eignir ekki nægt fyrir skuldbindingum þegar litið er á samtryggingadeildirnar í heild sinni. Þetta kemur fram í skýrslum um tryggingafræðilegar athuganir sem  lífeyrissjóðirnir skila árlega til Fjármáleftirlitsins. Samkvæmt lögum eru ákveðnar takmarkanir á leyfilegum tryggingafræðilegum halla sjóða sem eru án ábyrgðar launagreiðenda. Hallinn miðast við heildar tryggingafræðilega stöðu, sem inniheldur áfallna stöðu að viðbættri framtíðarstöðu. Engin lagaákvæði gilda um tryggingafræðilegan halla þeirra sjóða sem eru með ábyrgð launagreiðenda eins og ríkis og sveitarfélaga. Þessir sjóðir eru stór hluti af lífeyriskerfinu, hvort sem litið er til eigna eða skuldbindinga þeirra. Gríðarlegur halli er á sumum lífeyrissjóðum sveitarfélaga. Lífeyrisbyrði margra þeirra er mjög há og er lífeyrisgreiðslum mætt að mestu með fjárframlögum viðkomandi sveitarfélags. Víða erlendis gilda strangar reglur um tryggingafræðilega stöðu lífeyrissjóða með ábyrgð launagreiðenda. Sú áleitna spurning vaknar hvort ekki sé orðið tímabært að setja mörk fyrir tryggingafræðilegan halla lífeyrissjóða ríkis og sveitarfélag og ekki síður að koma í veg fyrir að ábyrgðaraðilinn safni óviðráðanlegum skuldum gagnvart sjóðnum. Draga þarf úr þeirri pólitísku áhættu sem felst í því að kjörnir fulltrúar hafi ótakmarkaða heimild til að senda reikninginn fyrir hallanum, til skattgreiðenda í framtíðinni. Nokkrir sveitarfélagasjóðir hafa nýlegt gert ráðstafanir með viðbótariðgjöldum sem mun bæta tryggingafræðilega stöðu þeirra.

Einnig þarf að huga meira að áfallinni stöðu lífeyrissjóðanna, en í núverandi lögum er ekki að finna nein mörk um leyfilegan halla. Áfallin staða segir til um það, hvort núverandi eign til greiðslu lífeyris nægi fyrir þeim lífeyri sem þegar hefur verið lofað að greiða til sjóðfélaga á næstu áratugum. Þessi staða versnaði mjög við efnahagshrunið og hafa margir þeirra sjóða, sem eru án ábyrgðar launagreiðenda, þurft að skerða áunnin réttindi. Útlit er fyrir enn frekari skerðingar vegna lágrar ávöxtunar undanfarin misseri og ótryggs ástands á fjármálamörkuðum. Sjóðfélagar sem eiga réttindi í lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga hafa hinsvegar ekki orðið fyrir skerðingu, þar sem fjármögnun hallans mun verða sótt í vasa skattgreiðenda en ekki sjóðfélaga. Þetta er vaxandi misrétti í lífeyrissparnaði þjóðarinnar sem mönnum hefur verið tíðrætt um undanfarin misseri og krefst úrlausnar á pólitískum vettvangi og á vettvangi atvinnulífsins.

Eins og sést á töflu 2. er áfallin staða samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna mjög slæm, með halla sem nemur í heild 524 milljarða kr. miðað við sl. áramót. Mestur er hallinn, eins og undanfarin ár, hjá sjóðum ríkis og sveitarfélaga eða um 400 milljarðar kr. Hlutfallslega nemur þessi halli um 60%, sem þýðir að þessir sjóðir eiga að meðaltali aðeins fyrir um 40% af sínum skuldbindingum. Dæmi eru um sjóði með yfir 90% halla þar sem nánast engin sjóðasöfnun á sér stað, heldur er í raun um svokallaða gegnumstreymissjóði að ræða. Þessi mikli halli lífeyrissjóða á vegum opinberra aðila hefur verið mjög mikill um áraraðir. Það var mjög skynsamleg lausn á sínum tíma að stofna B-deild LSR og aðskilja þannig betur framtíðarvanda þeirrar deildar frá A deildinni. Með sama hætti var stofnun A og V- deilda hjá Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga mjög skynsamleg. Samt sem áður er orðið brýnt að pólitískt kjörnir fulltrúar geri raunhæfar áætlanir um það hvernig þessi halli verður fjármagnaður á næstu árum og áratugum.

Tafla2
Tafla 2

Það er brýnt fyrir almennu lífeyrissjóðina, þ.e. þá sjóði sem eru án ábyrgðar launagreiðenda, að draga úr núverandi halla á áfallinni stöðu. Hallinn er að vísu mjög misjafn meðal sjóðanna eða frá 1% til allt að 20% hjá sumum sjóðum. Mikill halli á áfallinni stöðu er ósanngjarn fyrir yngri sjóðfélaga sem eru að hefja iðgjaldagreiðslur til sjóðanna. Iðgjöld, sem greidd eru inn í sjóðina þegar halli er á áfallinni stöðu, fara að hluta til að jafna uppsafnað tap en nýtast ekki til að afla þeim réttinda sem iðgjöldin greiða.

Í kjölfar efnahagshrunsins hefur samsetning eigna samtryggingadeilda breyst umtalsvert. Veldur þar mestu algjört hrun á innlendum hlutabréfamarkaði, mikið verðfall á skráðum skuldabréfum fyrirtækja, gjaldeyrishöft ofl. Á sama tíma hækkuðu erlendar eignir í íslenskum krónum og verðbréf útgefin af íslenska ríkinu héldu verðgildi sínu. Erlendar eignir nema um 515 milljörðum kr miðað við 30. júní sl. eða nálægt 25% af heildareignum. 

Samsetning eigna sjóðanna hefur breyst umtalsvert frá efnahagshruninu 2008 þannig að hlutfall verðbréfa með breytilegar tekjur hefur minnkað umtalsvert. Aftur á móti hefur eign sjóðanna stóraukist í verðbréfum með ábyrgð og útgefnum af íslenska ríkinu og sveitarfélögum, hlutfall þessara eigna er nú  46% en þetta hlutfall var 26% um mitt ár 2008. Sjá mynd 2.

Hlutfall-verdbrefa-med-abyrgd-rikis-og-sveitarfelaga

Mynd 2

Það er ljóst að fjárfestingatækifæri fyrir lífeyrissjóðina eru ekki mörg við núverandi markaðsaðstæður, með gjaldeyrishöft og laskaðan innlendan verðbréfamarkað. Árleg fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er nálægt 100 milljarðar. kr., annars vegar vegna afborgana af verðbréfum og hins vegar vegna mismunar milli inngreiddra iðgjalda og útgreidds lífeyris.

Það er brýnt að fjölga fjárfestingatækifærum svo hægt sé að stuðla að eðlilegri áhættudreifingu í eignasafni lífeyrissjóðanna. Núverandi eignasamsetning getur ekki talist eðlileg út frá skynsamlegri áhættudreifingu, með um helming eigna í verðbréfum með ábyrgð opinberra aðila. Slík áhættudreifing er heldur ekki í anda erlendra viðmiða og góðra venja í áhættustýringu. Nú er svo komið að verðbréf með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga nemur nærri 950 milljarða kr. Af þessari fjárhæð skulda ríki og sveitarfélög lífeyrissjóðunum um 350 milljarða kr., sem er nærri ¾ af árlegum tekjum ríkissjóðs. 600 milljarðar kr. eru vegna skulda Íbúðalánasjóðs en með ábyrgð ríkisins. Vaxandi skuldasöfnun ríkis og sveitarfélaga og ábyrgð á skuldbindingum til lífeyrissjóða getur leitt til þess að íslenskir lífeyrissjóðir þróist í gegnumstreymissjóði, þar sem framtíðarskuldbindingar sjóðanna verð í auknum mæli fjármagnaðar með skatttekjum ríkissjóðs á hverjum tíma. Þetta er þróun sem gengur þvert á upphafleg markmið íslenskra lífeyrissjóða um að hver kynslóð safni fyrir lífeyrisréttindum sínum í sjóði og að hún sé ekki að öllu leyti háð greiðslum frá hinu opinbera.

Öllum má vera ljóst að þróun síðastliðinna ára hefur aukið mjög pólitíska áhættu fyrir íslenska lífeyriskerfið í heild sinni og getur ekki talist æskileg. Munar þar mest að með íslenska ríkið sem langstærsta skuldara og ábyrgðaraðila lífeyrissjóðanna er sú hætta til staðar að hið opinbera knýi fram grundvallarbreytingar á lífeyrissjóðakerfinu eða biðji um sértæka aðlögun, ef því gengur erfiðlega að uppfylla fjárhagslegar skuldbindingar sínar gagnvart sjóðunum.