Eignir lífeyrissjóðanna: Nýjar tölur frá Seðlabankanum

13. okt. 2011

Hrein eign lífeyrissjóðanna var 2.019 milljarðar króna í lok ágústmánaðar. Það er um 110 milljörðum meira en um áramót. Heildareign sjóðanna lækkaði hins vegar í ágústmánuði vegna gengislækkunar erlendra eigna, sem rekja má til sviptinga á erlendum fjármálamörkuðum.

Hrein eign lífeyrissjóðanna var 2.019 milljarðar króna í lok ágústmánaðar. Það er um 110 milljörðum meira en um áramót. Heildareign sjóðanna lækkaði hins vegar í ágústmánuði vegna gengislækkunar erlendra eigna, sem rekja má til sviptinga á erlendum fjármálamörkuðum.

Í frétt á vef Seðlabanka Íslands segir, að hrein eign lífeyrissjóða hafi verið 2.019 milljarðar króna í lok ágúst síðastliðins. Eign lífeyrissjóðanna hafi lækkað um 24 milljarða frá júlí en lækkunina megi að mestu leyti rekja til lækkunar á erlendri verðbréfaeign sjóðanna í kjölfar umróts á erlendum fjármálamörkuðum.

Í frétt Seðlabankans segir ennfremur: „Erlend verðbréfaeign sjóðanna var 454 ma. kr. í lok ágúst en þá hafði hún lækkað um 35 ma. kr. eða 7% frá lok júlí. Erlendar eignir sjóðanna eru gerðar upp í íslenskum krónum og því hefur ekki verið tekið tillit til gengisáhrifa.”

Við teljum nauðsynlegt að bæta hér nokkrum atriðum við til frekari skýringar.

110 milljarða aukning fyrstu 8 mánuði ársins

Heildareignir lífeyrissjóðanna um áramót voru 1.909,5 milljarðar króna. Heildareignir hafa því aukist um nærri 110 milljarða fyrstu átta mánuði ársins, samkvæmt yfirliti Seðlabankans. Í ágústmánuði lækkaði erlend verðbréfaeign um 35 milljarða króna, en heildareign um 24 milljarða. Það þýðir að aðrar eignir en hinar erlendu jukust um 11 milljarða króna í mánuðinum.

Þótt skilja megi fréttina svo að lífeyrissjóðirnir hafi tapað 35 milljörðum króna, eða heilum sjö prósentum, af erlendri eign sinni, er reyndin engan veginn sú. Eins og segir í fréttinni lækkaði erlend eign í ágústmánuði. Þar fer mest fyrir lækkun heimsvísitölu Morgan Stanley, sem er einn helsti mælikvarði á breytingu hlutabréfaverðs í heiminum. Gengi hlutabréfa lækkaði víðast hvar í heiminum í ágústmánuði og skýrir það lækkunina sem Seðlabankinn greinir frá.

Skammtímasveiflur segja litla sögu

Lífeyrissjóðirnir eru langtímafjárfestar og þau verðbréf sem þeir eiga erlendis eru yfirleitt fjárfestingar til langs tíma. Skammtímasveiflur á mörkuðum, eins og nú í sumar og haust, segja því litla sögu um ávöxtun þessara fjárfestinga þegar upp verður staðið. Geta má þess, að gengi hinna erlendu verðbréfa hækkaði á fyrri hluta ársins, erlend eign lífeyrissjóðanna var um áramót, samkvæmt yfirliti Seðlabankans, 471 milljarður króna, á miðju ári hafði eignin vaxið í 495 milljarða, lækkaði svo aftur í júlí og ágúst í 454 milljarða. Fyrri hluta októbermánaðar hækkuðu helstu hlutabréfavísitölur heimsins, en hver niðurstaðan verður á árinu skýrist ekki fyrr en það er liðið.

Vel dreift alþjóðlegt verðbréfasafn

Reynslan hefur sýnt að hin erlenda eign lífeyrissjóðanna er afar traust. Þessi eign er afar vel dreift alþjóðlegt verðbréfasafn, sem stýrt er af öflugum og viðurkenndum alþjóðlegum fjárvörsluaðilum samkvæmt eignastýringarsamningum. Gengi bréfanna breytist daglega, en reynslan sýnir að langtímafjárfestingar af þessu tagi, þar sem áhættu er vel dreift og fagmennska viðhöfð við eignastýringu, skila góðri ávöxtun.

Mikil áhætta felst hins vegar í að bregðast við skammtímasveiflum á mörkuðunum með ótímabærri eignasölu. Enginn þrýstingur er á lífeyrissjóðina að selja þessar eignir, þeir geta því leyft sér að láta umrót á mörkuðum hjá sér fara án þess að taka óþarfa áhættu sem fylgir ótímabærri sölu.

30% heildareigna LV í erlendum verðbréfum

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur fjárfest erlendis, eins og flestir aðrir lífeyrissjóðir landsins. Þær eignir hafa á liðnum árum skilað góðri ávöxtun, en arðsemi þessa árs verður ekki ljós fyrr en í árslok. Um síðustu áramót átti sjóðurinn um 97 milljarða króna í erlendum eignum, eða nærri 30% heildareigna sinna.

Sjóðfélögum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna berast þessa dagana yfirlit um hag sjóðsins og stöðu sína í sjóðnum. Þar er meðal annars að finna ýmsar upplýsingar um stöðu sjóðsins á miðju ári. Fram kemur að heildareignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri) voru í júnílok 332 milljarðar króna og höfðu aukist um 22 milljarða frá áramótum. Innlend skuldabréf voru 54% eigna, erlend verðbréf 30%, innlend hlutabréf 6% og bankainnstæður 10%.

Heimildir:

Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Ársskýrsla 2010
Seðlabanki Íslands: Nýjar tölur um lífeyrissjóði  

Seðlabanki Íslands: Tafla: Efnahagur-mánaðartölur