Viðreisn atvinnulífs með Framtakssjóðum

14. sep. 2011

Öðru hverju hefur þess gætt í opinberri umræðu hér á landi að mönnum sé ekki vel ljóst hver tilgangur Framtakssjóðs Íslands sé, hvaða hugmyndafræði standi að baki honum né heldur hvernig hann starfar. Umræðan einkennist oft af upphrópunum, sem eiga það sameiginlegt að vera hvorki studdar staðreyndum né rökum. Hér verður í stuttu máli gerð grein fyrir hvers eðlis Framtakssjóður Íslands er og um leið hvers vegna Lífeyrissjóður verzlunarmanna tók þátt í stofnun hans.

Öðru hverju hefur þess gætt í opinberri umræðu hér á landi að mönnum sé ekki vel ljóst hver tilgangur Framtakssjóðs Íslands sé, hvaða hugmyndafræði standi að baki honum né heldur hvernig hann starfar. Umræðan einkennist oft af upphrópunum, sem eiga það sameiginlegt að vera hvorki studdar staðreyndum né rökum. Hér verður í stuttu máli gerð grein fyrir hvers eðlis Framtakssjóður Íslands er og um leið hvers vegna Lífeyrissjóður verzlunarmanna tók þátt í stofnun hans.

Hugmyndin sem býr að baki Framtakssjóði Íslands (FSÍ) er ekki ný og hún er ekki íslensk. Fjölmargir lífeyrissjóðir, ekki síst í Bandaríkjunum en einnig í öðrum löndum, beina hluta af fjárfestingarafli sínu í þennan farveg eða svokallaða „Private Equity Funds“. Þeirra á meðal er einn af stærstu lífeyrissjóðum heimsins, Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna í Kaliforníu í Bandaríkjunum, CalPERS (California Public Employees‘ Retirement System), sem hefur rutt brautina á þessu sviði. Sá sjóður var stofnaður með lögum Kaliforníuríkis árið 1932.

Viðreisn skilar hagnaði

CalPERS er um margt áhugaverð fyrirmynd. Sjóðurinn hefur vakið athygli um allan heim, langt út fyrir svið lífeyrissjóða, með starfi sínu og stefnu á sviði góðra stjórnunarhátta fyrirtækja. Þeirri stefnu fylgir hann m.a. eftir í gegn um fjárfestingar sínar. Sú hugmyndafræði byggir meðal annars á því að sjóðurinn er almannastofnun og beri því samfélagslega ábyrgð umfram það hlutverk að sjá sjóðfélögum fyrir lífeyri.

CalPERS hefur lagt fimm milljarða dollara (tæplega 600 milljarða íslenskra króna) í sérstakan sjóð sem vinnur að þessum markmiðum. Gerð er rík arðsemiskrafa til þessarar viðreisnarstarfsemi og arðurinn fæst ekki síst með því að viðreisn fyrirtækjanna eykur verðmæti þeirra þannig að hagnaður skilar sér þegar hlutirnir eru seldir. Undanfarin ár hafa þessar fjárfestingar skilað CalPERS mun meiri arðsemi heldur en áætlanir og kröfur gerðu ráð fyrir.

Auk beins fjárhagslegs ávinnings fyrir lífeyrissjóðinn og sjóðfélaga hans er mikill óbeinn hagnaður falinn í viðreisnarstarfi sjóðsins, það er að atvinnulífið verður heilbrigðara og sterkara á eftir.

Ólíkar aðstæður en svipað hlutverk

Hugmyndafræðinni að baki Framtakssjóði Íslands svipar um margt til hugmyndafræði að baki sjóðum samskonar þeim sem hér var lýst. Hann er hins vegar stofnsettur við all ólíkar aðstæður,  nokkru eftir hrunið eða í desember 2009. Meginhluti íslenskra hlutafélaga var í sárum og beint eða óbeint í höndum banka eða skilanefnda gömlu bankanna. Hlutabréfamarkaðurinn var svipur hjá sjón sem hafði bein áhrif á möguleika lífeyrissjóðanna í landinu til að fjárfesta og dreifa áhættu í fjárfestingum sínum.

Ekki fór á milli mála að gríðarlega mikið starf væri framundan, að endurreisa íslenskan hlutabréfamarkað og að til þess þurfti ekki aðeins fjármuni, heldur einnig og ekki síður mikla endurskipulagningu innan fyrirtækja. Jafnframt mátti gera ráð fyrir því að allmörg fyrirtæki gætu ekki lifað áfram vegna skuldsetningar og eftir atvikum fleiri vandamála í stöðu þeirra og rekstri.

Sameiginlegt átak til endurreisnar

Framtakssjóður Íslands er því myndaður við þessar erfiðu aðstæður af brýnni nauðsyn til að endurreisa íslenskt atvinnulíf, að blása á ný lífi í hlutabréfamarkað í landinu og tryggja heilbrigða stjórnunarhætti í atvinnulífinu. Sextán lífeyrissjóðir sameinuðust um þetta verkefni og leggja upp í raun með sömu eða sambærilegar kröfur um fjárfestinguna eins og finna má í sambærilegum verkefnum hinna erlendu sjóða.

Forsenda fyrir fjárfestingum er meðal annars sú að fyrirtækin, sem fjárfest er í, hafi gengið í gegn um fjárhagslega endurskipulagningu og séu metin rekstrarhæf. Þetta þýðir að kröfuhafar fyrirtækjanna, þ.e. bankar, þurfa að fella niður hluta af skuldum þeirra, nægilega stóra til að skuldabyrðin muni ekki sliga reksturinn. Þetta er ein af grunnforsendunum, enda er ekki lagt í fjárfestingu af þessu tagi til að setja fé í taprekstur, það gengi alfarið gegn hagsmunum eigenda FSÍ, lífeyrissjóðanna og sjóðfélaga þeirra.

Markmiðið að efla og bæta atvinnulífið

FSÍ er virkur fjárfestir í félögunum, þ.e. hefur áhrif á rekstur og stjórnunarhætti og er markmiðið m.a. að efla og bæta atvinnulífið í landinu. Með því stuðlar FSÍ að því  að vinna til baka hluta þess tjóns sem hlaust af hruninu frá 2008.

Fyrirtækin þurfa ekki aðeins að vera rekstrarhæf, heldur þurfa þau einnig að eiga sér rekstrargrundvöll á þeim markaði sem hér er og styðja við eðlilegt og heilbrigt samkeppnisumhverfi.

Þeir fjármunir sem lífeyrissjóðirnir hafa lagt í þetta verkefni, í gegn um FSÍ, eru nýttir til fjárfestinga í hlutafélögum með arðsemi að markmiði, þeir eru ekki til þess að fjármagna taprekstur né greiða niður skuldir. Þær fullyrðingar sem komið hafa fram um slíkt eru einfaldlega rangar. Lífeyrissjóðirnir ætlast síðan til þess, að fjárfestingin skili þeim arði þegar lokið er viðreisn fyrirtækjanna og hlutirnir seldir aftur. Sá arður rennur í lífeyrissjóðina og með því beint til sjóðfélaganna í formi lífeyrisgreiðslna.

Í samræmi við stefnu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er þátttakandi í Framtakssjóði Íslands, en einnig tekur hann beinan þátt í viðreisnarverkefninu með beinum fjárfestingum í einstökum félögum. Það er í góðu samræmi við stefnumótun sjóðsins eins og hún birtist í fjárfestingarstefnu og hluthafastefnu hans. Með þessu freistar Lífeyrissjóður verzlunarmanna þess að ná fram góðri ávöxtun á fé sjóðfélaga og um leið að gegna skyldum sínum sem almannastofnunar um samfélagslega ábyrgð með virkri þátttöku í viðreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs.

Um starfsemi Framtakssjóðs Íslands má fræðast á heimasíðu [ http://framtakssjodur.is/ ] sjóðsins, einnig er gríðarmiklar upplýsingar að finna á vefsíðu CalPERS [http://www.calpers.ca.gov/]  um efnið.