Úr starfi LV: Meira rafrænt, minni pappír

8. sep. 2011

Markvisst verður dregið úr pappírsnotkun hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna á næstu mánuðum og misserum.

Markvisst verður dregið úr pappírsnotkun hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna á næstu mánuðum og misserum.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna sendir í hverjum mánuði þúsundir greiðsluseðla til þeirra, sem tekið hafa lán hjá sjóðnum. Alls eru um 8 þúsund lántakendur hjá sjóðnum. Um helmingur þeirra hefur nú þegar afþakkað að fá póstsenda til sín greiðsluseðla en sjá greiðslukröfuna í heimabanka sínum. Greiðsluyfirlit eru ennfremur birt á sjóðfélagavef okkar.

Eftir stendur að ríflega 4 þúsund greiðsluseðlar eru póstsendir í hverjum mánuði.

Rafræn skjöl í heimabanka í stað pappírs

Nú hefur verið ákveðið að allir greiðsluseðlar vegna sjóðfélagalána munu birtast sem rafræn skjöl í heimabanka lántakenda, en greiðslur af lánunum eru jafnan greiddar í heimabankanum. Á hinum rafrænu skjölum í heimabankanum munu birtast allar sömu upplýsingar og eru á heimsendu greiðsluseðlunum.

Hafinn er undirbúningur þessarar breytingar með forritunarvinnu í lánakerfi sjóðsins og er áætlað að henni ljúki á haustdögum. Þá fá lántakendur hjá sjóðnum, sent bréf þar sem tilkynnt er um breytinguna og allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi hana.

Áfram verður hægt að fá greiðsluseðla bréflega, óski lántakendur eftir því.

Breytingin hefur hagræði í för með sér, minnkar álag á skrifstofu sjóðsins, lækkar kostnað lántakenda, minnkar póstburð og dregur úr pappírsflóði á heimilunum.

Sparnaður til lántakenda

Hver greiðsluseðill, sem er póstsendur, kostar um 240 krónur, og greiðir lántakandinn þá fjárhæð í seðilgjaldi. Með því að fá greiðsluseðilinn sem rafrænt skjal í heimabankann lækkar kostnaðurinn, sem nemur pappírs-, pökkunar- og sendingarkostnaði, eða um 100 krónur. Sá sparnaður kemur allur sjóðfélaganum til góða, þar sem skuldfærslugjald, 140 krónur, kemur í stað seðilgjaldsins. Árlegur sparnaður lántakandans er því 1.200 krónur.

Áframhaldandi þróun

Þá verða í framhaldinu kannaðir fleiri möguleikar á að senda sjóðfélögum upplýsingar rafrænt, í stað bréfa. Ör þróun vefupplýsinga og –samskipta býður upp á mikla og fjölbreytilega möguleika á þessu sviði. Nú þegar geta sjóðfélagar til dæmis fylgst með stöðu sinni hjá sjóðnum, hvað lífeyrisréttindi snertir, með því að nota sjóðfélagavefinn, valhnappur fyrir hann er hér efst til hægri á síðunni.

Séu sjóðfélagar í vafa um hvernig eigi að nálgast hinar rafrænu upplýsingar, hér á sjóðfélagavefnum eða í heimabankanum þegar þar að kemur, er velkomið að hafa samband í síma 580 4000 eða með tölvupósti skrifstofa@live.is.