Greiðslur í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð hefjast

1. sep. 2011

Lögboðnar greiðslur iðgjalds í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð hefjast í þessum mánuði. Lífeyrissjóðunum er falið að innheimta gjaldið og ráðstafa því síðan til VIRK.

Alþingi samþykkti á vordögum lög um greiðsluskyldu í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð, eins og greint var frá hér. Með lögunum er öllum launagreiðendum gert skylt frá og með 1. september nk. að inna af hendi iðgjald, 0,13% af heildarlaunum, sem rennur til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. Fram til þessa hefur einungis verið kveðið á um greiðsluskyldu í kjarasamningum en nú nær greiðsluskylda einnig til þeirra sem ekki eiga aðild að kjarasamningum. Gjaldið leggst nú á í fyrsta sinn vegna launa þessa mánaðar, september 2011.

Lífeyrissjóðir hafa milligöngu

Samkvæmt lögunum ber launagreiðanda að standa skil á iðgjaldinu til þess lífeyrissjóðs sem hann greiðir lífeyrisiðgjald til. Lífeyrissjóðnum ber þannig að hafa milligöngu um innheimtu gjaldsins og ráðstafar því svo til VIRK  Starfsendurhæfingarsjóðs. 

Markmiðið er aukin lífsgæði

Markmið VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs er að bæta líf fólks, sem hefur átt fáa eða enga kosti aðra en vera óvirkir á vinnumarkaði. Langvarandi veikindi hafa ennfremur afar neikvæð áhrif á getu fólks til að komast aftur inn á vinnumarkaðinn, eins og niðurstöður fjölmargra rannsókna sýna. Sömu rannsóknir sýna að virkni á vinnumarkaði, það að byrja aftur að vinna, flýtir fyrir bata og bætir þannig líf fólks.

Starfsendurhæfingarsjóður styður fólk til að taka á ný þátt í samfélaginu og markmiðið er að í framtíðinni verði til öflugar leiðir fyrir fólk sem þarf að skipta um starfsvettvang eftir veikindi og þarfnast aðstoðar við að finna starf við hæfi.

Nánari upplýsingar má finna á vef Alþingis, lög nr. 73/2011, 12 gr.: www.althingi.is/vefur/lagasafn.html.
Einnig á vef VIRK:  www.virk.is