Lög um framlag lífeyrissjóðanna til Starfsendurhæfingarsjóðs

16. jún. 2011

Ný lög sem Alþingi samþykkti í lok vorþings kveða á um að lífeyrissjóðirnir í landinu verði aðilar VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, en fyrir voru aðilar vinnumarkaðarins. Sjóðirnir greiða 0,13% af iðgjaldastofni sínum, um einn milljarð á ári, til Starfsendurhæfingarsjóðs. Ákvæði um sérstaka skattlagningu eigna lífeyrissjóðanna voru felld út við samþykkt laganna.

Ný lög sem Alþingi samþykkti í lok vorþings kveða á um að lífeyrissjóðirnir í landinu verði aðilar VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, en fyrir voru aðilar vinnumarkaðarins. Sjóðirnir greiða 0,13% af iðgjaldastofni sínum, um einn milljarð á ári, til Starfsendurhæfingarsjóðs. Ákvæði um sérstaka skattlagningu eigna lífeyrissjóðanna voru felld út við samþykkt laganna.

Alþingi samþykkti á lokaspretti vorþingsins lagabálk um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallaðan bandorm. Í frumvarpi til laganna var að finna afar umdeild ákvæði um sérstakan skatt á heildareignir lífeyrissjóðanna og hefði fjárhæðin numið um 1.800 milljónum króna á ári, miðað við núverandi eignir sjóðanna.

Lífeyrissjóðirnir höfðu mótmælt þessari skattlagningu og flutti Helgi Magnússon, formaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, tölu um það á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða nú á vordögum. Þá mótmælti Alþýðusamband Íslands og einstök launþegafélög sömuleiðis tillögunum, enda hefði skattlagning sem þessi skert lífeyri sjóðfélaga sem skattinum nemur.

0,13% af iðgjaldastofni

Í bandorminum er ákvæði um að lífeyrissjóðirnir, sem og allir launagreiðendur, greiði gjald í Starfsendurhæfingarsjóð. Gjaldið nemur 0,13% af iðgjaldastofni sjóðanna, sama hlutfall greiði launagreiðendur með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald.

Með þessum greiðslum styrkist Starfsendurhæfingarsjóður verulega. Áætlað er að frá lífeyrissjóðunum komi til hans á næsta ári, þegar greiðslur eiga að hefjast, um einn milljarður króna (1.000 milljónir). Þegar framlög frá atvinnurekendum og ríkinu eru farin að skila sér í Starfsendurhæfingarsjóð að fullu (á árinu 2013) er áætlað að heildarframlög til hans verði um eða yfir þrír milljarðar króna.

Lífeyrissjóðirnir að borðinu

Til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs var stofnað fyrir nokkrum árum í kjarasamningum. Hlutverk sjóðsins er að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna langvarandi veikinda. Það er gert með að skipuleggja ráðgjöf hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga en einnig ýmissa fagaðila þegar þess er þörf. Einnig stendur Starfsendurhæfingarsjóður straum af kostnaði fyrir ýmis úrræði sem ekki eru greidd af almennri heilbrigðisþjónustu.

Lífeyrissjóðirnir hafa ekki verið beinir þátttakendur í VIRK Starfsendurhæfingarsjóði, en hafa þó fylgst með og tekið þátt í undirbúningi og umfjöllun um starfsemina. Nú verður breyting þar á. Lögin gera ráð fyrir að undirbúningshópur starfi fram á haust til þess að móta skýran lagaramma um starfsemi VIRK Endurhæfingarsjóðs og verði tillögur hópsins lagðar til grundvallar nýjum lögum, sem gert er ráð fyrir að verði samþykkt á haustþingi og taki gildi í byrjun næsta árs. Lífeyrissjóðirnir eiga fulltrúa í þessum hópi. Lögin sem samþykkt voru nú á vorþinginu eru því til bráðabirgða, falla úr gildi í lok ársins.

Markmið að bæta líf fólks

Með því að efla starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs er stefnt að því markmiði að bæta líf fólks, sem hefur átt fáa eða enga kosti aðra en vera óvirkir á vinnumarkaði, Langvarandi veikindi hafa ennfremur afar neikvæð áhrif á getu fólks til að komast aftur inn á vinnumarkaðinn, eins og niðurstöður fjölmargra rannsókna sýna. Sömu rannsóknir sýna að virkni á vinnumarkaði, það að byrja aftur að vinna, flýtir fyrir bata og bætir þannig líf fólks.

Starfsendurhæfingarsjóður styður fólk til að þaka á ný þátt í samfélaginu og markmiðið er að í framtíðinni verði til öflugar leiðir til að beina fólki sem þarf að skipta um starfsvettvang eftir veikindi og aðstoða við að finna starf við hæfi.

Nýsamþykkt lög um framlög til Starfsendurhæfingarsjóðs má sjá hér

http://www.althingi.is/altext/139/s/1790.html

Upplýsingar um VIRK Starfsendurhæfingarsjóð er að finna hér

http://virk.is/