Lífeyrissjóður verzlunarmanna eignast hlut í HS Orku

1. jún. 2011

Jarðvarmi, samlagshlutafélag í eigu 14 lífeyrissjóða, hefur eignast fjórðungshlut í orkufyrirtækinu HS Orku. Seljandi er dótturfélag Alterra Power, áður Magma Energy. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er eigandi um fimmtungshlutar í Jarðvarma og þar með um 5% í HS Orku. Lífeyrissjóðirnir njóta við kaupin ávinnings Magma af að greiða fyrir HS Orku að hluta með aflandskrónum.

Jarðvarmi, samlagshlutafélag í eigu 14 lífeyrissjóða, hefur eignast fjórðungshlut í orkufyrirtækinu HS Orku. Seljandi er dótturfélag Alterra Power, áður Magma Energy. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er eigandi um fimmtungshlutar í Jarðvarma og þar með um 5% í HS Orku. Lífeyrissjóðirnir njóta við kaupin ávinnings Magma af að greiða fyrir HS Orku að hluta með aflandskrónum.

Viðræður um þessi viðskipti hafa staðið yfir um allnokkurt skeið og lauk þeim með því að kaupin voru fullgerð miðvikudaginn 1. júní. Ítarleg skoðun fór fram á forsendum verðlagningar félagsins og öðrum skilmálum, sem og á áreiðanleika fjárfestingarinnar. Við þá skoðun nutu lífeyrissjóðirnir aðstoðar Arctica Finance, sem hafði yfirumsjón með kaupferlinu. LEX hafði umsjón með lögfræðilegri áreiðanleikakönnun, PwC sá um fjárhagslega og skattalega áreiðanleikakönnun og Reykjavík Geothermal sá um jarðfræðilega, tæknilega og rekstrarlega áreiðanleikakönnun.

Sjóðfélagar njóta ávinnings af upphaflegum  viðskiptakjörum

Jarðvarmi kaupir nú 25% hlutafjár í HS Orku á genginu 4,63 krónur á hlut. Kaupverðið nemur því um 8,1 milljarði króna. Þetta verð endurspeglar meðal annars þann ávinning sem Magma (nú Alterra Power) hafði haft af því að greiða hluta sinnar fjárfestingar í HS Orku með svonefndum aflandskrónum og njóta lífeyrissjóðirnir þeirra kjara sem Magma naut af aflandskrónuviðskiptunum. Þannig skilar sá ávinningur sér til sjóðfélaga þessara lífeyrissjóða, sem eru bróður partur fólks á vinnumarkaði og lífeyrisþega. 

Jarðvarmi fær jafnframt kauprétt að nýjum hlutum í HS Orku á 5,35 krónur á hlut. Verði hann nýttur að fullu verður eignarhlutur Jarðvarma í HS Orku 33,4%. Þá er gert ráð fyrir að Jarðvarmi eigi rétt á að auka hlut sinn síðar upp í allt að helming hlutafjár í HS Orku með kaupum á nýjum hlutum sem kunna að verða gefnir út í framtíðinni.

Lífeyrissjóðirnir skipa tvo stjórnarmenn af fimm

Jarðvarmi mun tilnefna tvo af fimm stjórnarmönnum HS Orku. Rík minnihlutavernd, virk þátttaka í stjórn félagsins og formleg aðkoma að öllum meiriháttar ákvörðunum á vegum félagsins eru meðal forsendna viðskiptanna og helst það fyrirkomulag ótímabundið, enda nemi eignarhlutur Jarðvarma í HS Orku meira en 22,5 prósentum heildarhlutafjár.

Með kaupum sínum á þessum fjórðungshlut í HS Orku taka lífeyrissjóðirnir virkan þátt í að styrkja og efla atvinnuuppbyggingu í landinu um leið og góð ávöxtun fjár sjóðfélaga er svo vel tryggð sem kostur er. HS Orka er öflugt fyrirtæki, bæði í almannaþjónustu með raforkusölu til almennings og stofnana sem og í heildsöluviðskiptum við stærri kaupendur. Ítarlegar og faglegar áreiðanleikakannanir og verðmat sýna að fjárfestingin er traust, framtíðarmöguleikar eru miklir og góðir og góðar líkur á auknu virði fyrirtækisins á næstu árum.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er eigandi 19,9% hlutafjár í Jarðvarma slhf. (samlagshlutafélagi). Aðrir lífeyrissjóðir sem eiga hluti í Jarðvarma eru Almenni lífeyrissjóðurinn, Eftirlaunasjóður FÍA, Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður bænda, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins – A deild, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Stafir lífeyrissjóður, Stapi lífeyrissjóður og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.