Lífeyrissjóðir í endurreisn efnahagskerfisins

30. maí 2011

Lífeyrissjóðir  gegna lykilhlutverki í endurreisn hlutabréfamarkaðar. Þetta var eitt megininntak fyrirlesturs Páls Harðarsonar, forstjóra kauphallarinnar, NASDAQ OMX Iceland, sem hann hélt á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða.

Lífeyrissjóðir  gegna lykilhlutverki í endurreisn hlutabréfamarkaðar. Þetta var eitt megininntak fyrirlesturs Páls Harðarsonar, forstjóra kauphallarinnar, NASDAQ OMX Iceland, sem hann hélt á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða.

Endurreisn og uppbygging hlutabréfamarkaðar er einn þeirra meginþátta, sem þurfa að vera til staðar til að endurreisa efnahagskerfið í landinu, auka hagvöxt og bæta þannig lífskjör. Í máli Páls kom fram að nú séu kjöraðstæður fyrir kröftugan hagvöxt. Raungengi krónunnar sé lágt, það skapi sterka samkeppnisstöðu. Um leið hafi verðþróun verið hagstæð, hvort sem litið sé til orku, áls eða sjávarafurða.

Tækifæri í orku

Í orkuframleiðslunni séu mikil vaxtartækifæri og á ýmsum öðrum sviðum hinar ákjósanlegustu aðstæður til vaxtar, sem meðal annars megi sjá í því að erlendir fjárfestar hafi sýnt mikinn áhuga á að fjárfesta hér, sumir þeirra hafi reyndar þegar fjárfest.

Það sé hins vegar ekki nóg að ytri aðstæður séu góðar. Hér þurfi ýmislegt að færa til betri vegar áður en við getum notið góðs af hagstæðu ytra umhverfi. Páll nefndi þar fyrst afnám gjaldeyrishafta, einnig viðskiptavænna umhverfi sem byggist á almennum leikreglum fremur en sérlausnum. Stærsta ógnin við kröftugan hagvöxt sagði hann einmitt að væri þróun sú sem nú gætti í átt til miðstýringar.

Umbóta þörf

Þá nefndi Páll Harðarson sérstaklega viðfangsefni sem þurfi að ráðast í varðandi uppbyggingu hlutabréfamarkaðar. Þar á meðal að innleiða góða stjórnarhætti í fyrirtækjum, í því felist meðal annars að hluthafar verði betur vakandi yfir réttindum sínum á nýti þau betur, þeir hafi, hér sem víðast hvar annars staðar, verið of þægir. Lífeyrissjóðirnir ættu að taka forystu þar.

Um leið og Páll Harðarson hvatti til aukinnar þátttöku lífeyrissjóðanna í uppbyggingu hlutabréfamarkaðarins beindi hann því til þeirra að vera virkari þátttakendur og til að líta í eigin barm hvað ýmsar umbætur varðar. Lífeyrissjóðirnir ættu t.d. að vinna sjálfstætt hver frá öðrum, í dag hafi þeir í of ríkum mæli þá ímynd að vera sameiginlegur hópur fremur en margir sjálfstæðir fjárfestar.

Lífeyrissjóðirnir auka aðhald og aga

Eins og áður hefur komið fram hefur þrengt mjög að lífeyrissjóðunum varðandi fjárfestingarkosti, þar með möguleikum þeirra til að ávaxta á viðunandi hátt fé sjóðfélaga sinna. Páll Harðarson benti á að það sé því nauðsynlegt fyrir lífeyrissjóðina og þeim í hag að hér byggist upp öflugur hlutabréfamarkaður og virk þátttaka þeirra í uppbyggingu og starfsemi markaðarins geti skapað aukið aðhald og aga á markaðnum. Þannig sé þátttaka lífeyrissjóðanna afar mikilvæg til að reisa við efnahagskerfið og skapa heilbrigðan, virkan viðskiptavettvang fyrir hlutafélög í landinu.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur mótað sér þá stefnu að auka vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni sjóðsins. Mikilvæg forsenda þess að vel takist til er öflugur innlendur hlutabréfamarkaður.