Erlent:  AGS hefur áhrif á lífeyrismál í Portúgal

9. maí 2011

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS), Seðlabanki Evrópu, Evrópusambandið og portúgalska ríkisstjórnin eru þessa dagana að ganga frá samningum um efnahagsaðstoð, eða björgunaráætlun, til handa Portúgal. Hluti af aðgerðunum hefur áhrif á lífeyrisréttindi Portúgala.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS), Seðlabanki Evrópu, Evrópusambandið og portúgalska ríkisstjórnin eru þessa dagana að ganga frá samningum um efnahagsaðstoð, eða björgunaráætlun, til handa Portúgal. Hluti af aðgerðunum hefur áhrif á lífeyrisréttindi Portúgala.

Samkvæmt áætlun AGS er gripið til margra sársaukafullra aðgerða til að rétta af efnahag Portúgals, mun harðari aðgerða en forsætisráðherrann Socrates lagði til og portúgalska þingið hafnaði í mars síðastliðnum. Á meðal aðgerðanna er að skerða lífeyrisgreiðslur úr opinberum lífeyrissjóðum. Þó nær skerðing aðeins til hærri greiðslna, en lægstu lífeyrisgreiðslur eiga að hækka. Lífeyrir umfram 1.500 evrur (um 250 þúsund krónur) á mánuði skerðist.

Þessar ráðstafanir eru hluti af þeim aðhalds- og niðurskurðaraðgerðum sem Portúgal þarf að grípa til, samkvæmt áætluninni. Ekki hefur þó komið fram hve stór hluti af niðurskurði ríkisútgjaldanna er skerðing lífeyris.

Ríkisútgjöld vegna lífeyrisgreiðslna í Portúgal eru á meðal þeirra hæstu innan OECD landanna, 10,8% af landsframleiðslu, nærri fjórum prósentustigum hærri en meðaltal OECD, samkvæmt skýrslu OECD í mars. Almennur eftirlaunaaldur í Portúgal er 65 ára, en sumir eiga völ á að fara á eftirlaun 55 ára. Þessu fylgja útgjöld sem AGS krefst að verði lækkuð, sem skilyrði aðstoðarinnar. Hins vegar verður eftirlaunaaldurinn ekki hækkaður og ekki er krafist afnáms ríkistryggingar sjóðanna.

Samkvæmt björgunaráætluninni fyrir Portúgal dregst efnahagskerfið þar saman um tvö prósent á þessu ári, önnur tvö á næsta ári, en síðan á landið að fara að rétta úr kútnum 2013. Heildarfjárhæð aðstoðarinnar, sem er í svipuðu formi og hér á landi (lán og réttur til láns) er sem nemur um 13 þúsund milljörðum íslenskra króna, þar af um þriðjungur frá AGS og tveir þriðju frá Evrópusambandinu. Athygli hefur vakið að Portúgalir þurfa aðeins að greiða 3,25% vexti af láninu frá AGS fyrstu þrjú árin, 4,25% eftir það.

Heimildir: globalpensions.com; bloomberg.com; imf.org