Víxlverkun hamin og frítekjumark hækkað

3. maí 2011

Landssamtök lífeyrissjóða og ríkisstjórn Íslands hafa gengið frá samkomulagi um að koma í veg fyrir að hækkun greiðslna úr öðru lífeyriskerfinu skerði greiðslur úr hinu.

Landssamtök lífeyrissjóða og ríkisstjórn Íslands hafa gengið frá samkomulagi um að koma í veg fyrir að hækkun greiðslna úr öðru lífeyriskerfinu skerði greiðslur úr hinu. Nánar tiltekið felur samkomulagið í sér að frá 1. janúar 2011 til ársloka 2013 skuli bætur almannatrygginga ekki lækka eða skerðast þrátt fyrir almennar hækkanir greiðslna frá lífeyrissjóðum svo sem vegna vísitöluhækkunar eða hækkunar á hámarki viðmiðunartekna fyrir orkutap.

Þá felur samkomulagið einnig í sér að á sama tímabili muni lífeyrissjóðir ekki beita tekjuviðmiðun  eftir úrskurð gagnvart nýjum örorkulífeyrisúrskurðum, né lækka lífeyri vegna hækkunar lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.

Þessi ákvæði samkomulagsins gilda um bætur almannatrygginga og greiðslur frá lífeyrissjóðum, en ekki um atvinnutekjur eða aðrar tegundir tekna sem hafa áhrif á fjárhæðir bóta.

Við skilgreiningu á tekjum örorkulífeyrisþega skulu lífeyrissjóðirnir ekki reikna með skattfrjálsum greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Mæðra- og feðralaun (2. gr.), maka- og umönnunarbætur (5. gr.), dánarbætur (6. gr.), uppbætur á lífeyri (9. gr.) og uppbætur vegna bifreiðakostnaðar (10. gr.) samkvæmt lögum um félagslega aðstoð teljast heldur ekki til tekna í þessu skyni.

Þá segir í samkomulaginu að frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega gagnvart útreikningi bóta almannatrygginga skuli hækka í þremur áföngum. Fyrsti áfangi komi til framkvæmda 1. janúar 2013, annar áfangi 1. janúar 2014 og loks þriðji og síðasti áfanginn 1. janúar 2015, en þá skuli frítekjumarkið hafa hækkað til samræmis við frítekjumörk örorkulífeyrisþega gagnvart lífeyrissjóðstekjum.

Á grundvelli þessa samkomulags voru nýverið samþykktar verklagsreglur sem unnið verður eftir við útfærslu samkomulagsins. Markmið samkomulagsins og verklagsreglnanna er, í einföldustu atriðum, auk hækkunar frítekjumarksins að koma í veg fyrir þá víxlverkun sem leitt hefur til þess að hækkun bóta frá lífeyrissjóði leiddi til lækkunar bóta almannatrygginga, og að hækkun almannatryggingabóta leiddi til lækkunar örorkulífeyris frá lífeyrissjóði.

Til þess að lífeyrissjóðirnir geti framfylgt samkomulaginu hnökralaust er hins vegar talið nauðsynlegt að umræddar bætur séu aðgreindar frá öðrum skattskyldum bótum almannatrygginga. Er unnið að lausn þessa máls í samstarfi við embætti ríkisskattstjóra.

Nánari upplýsingar um áhrif þessara reglna í einstökum tilvikum er að fá hjá lífeyrissjóðunum og hjá Tryggingastofnun ríkisins.