Um siða- og samskiptareglur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

6. apr. 2011

Nýjar siða- og samskiptareglur voru samþykktar  af stjórn og starfsmönnum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna árið 2009. Reglurnar eru  mikilvægur liður í að búa starfsemi sjóðsins traust starfsumhverfi. Þeim er ætlað að styðja við vönduð vinnubrögð, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka öryggi í meðferð fjármuna sjóðsins.

Nýjar siða- og samskiptareglur voru samþykktar  af stjórn og starfsmönnum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna árið 2009. Reglurnar eru  mikilvægur liður í að búa starfsemi sjóðsins traust starfs-umhverfi. Þeim er ætlað að styðja við vönduð vinnubrögð, draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og auka öryggi í meðferð fjármuna sjóðsins. Í reglunum er m. a. fjallað um góða starfshætti, meðferð trúnaðarupplýsinga sem og reglur um gjafir, boðsferðir og starfstengdar ferðir.

Áhersla á mikilvæga þætti í starfi starfsmanna og stjórnarmanna

Hlutverk Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er að greiða sjóðfélögum lífeyri sem þeir ávinna sér með greiðslu iðgjalda og ávöxtun þeirra. Kjarni siða- og samskiptareglna sjóðsins er að stjórnarmenn og starfsmenn skulu leggja rækt við starf sitt og stunda það af kostgæfni og skulu miða að því að vera lífeyrissjóðnum, sjóðfélögum og öðrum sem sjóðurinn veitir þjónustu til framdráttar. Þá er tekið fram að stjórn  lífeyrissjóðsins og starfsmenn skuli vera meðvitaðir um þá ábyrgð sem fylgir því að hafa umsjón með fjármunum sjóðfélaga.

mynd-m-sidafrettUm hæfi til að koma að afgreiðslu mála

Eignir lífeyrissjóðsins nema nú um 310 milljörðum króna og voru greidd iðgjöld á liðnu ári um 16 milljarðar en lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga námu um 6 milljörðum króna. Ávöxtun svo mikilla fjármuna krefst þess að þeim sé komið fyrir á mörgum stöðum til að dreifa áhættu og hámarka ávöxtun. Slíkri starfsemi fylgir mikil ábyrgð. Þannig eru til að mynda reglur um að stjórnarmönnum og starfsmönnum ber að forðast hvers konar hagsmunaárekstra sem upp kunna að koma milli starfa þeirra og annarra athafna eða tengsla við ytri aðila. Þeir mega því ekki taka þátt í meðferð máls ef aðstæður eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni þeirra í efa.

Reglur um gjafir og boðsferðir

Um gjafir og boðsferðir gilda einnig skýrar reglur þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að þiggja gjafir af  þjónustuaðilum og viðskiptavinum lífeyrissjóðsins, að frátöldum almennum hóflegum tækifærisgjöfum. Í þessu efni er lögð áhersla á að gætt sé hófs. Þá er stjórnarmönnum og starfsmönnum einnig óheimilt að þiggja boðsferðir af þjónustuaðilum eða öðrum viðskiptavinum sjóðsins, til að mynda skemmtiferðir hverskonar, svo sem veiðiferðir, golfferðir og kynnisferðir vegna einstakra fyrirtækja eða viðskiptakosta og aðrar sambærilegar ferðir. Kalli starf starfsmanna eða stjórnarmanna á ferðir innanlands eða utan, til að mynda til að skoða fjárfestingarkosti eða afla sér þekkingar í þágu sjóðsins, er mælt fyrir um að kostnaður sé greiddur af sjóðnum, nema í algjörum undantekningartilvikum. Þá skal halda sértaka skrá um þær ferðir sem farnar eru á vegum sjóðsins þar sem gögnum um ferðina, tilgang hennar og árangur til gagns fyrir aðra starfsmenn.

Styður við trausta starfsemi

Það er trú stjórnar og starfsmanna sjóðsins að reglur þessar séu mjög til þess fallnar að skapa starfsmönnum og starfseminni betri starfsskilyrði og styrki starfsmenn í því að vinna að hag sjóðfélaga. Reglurnar eru aðgengilegar á vef sjóðsins og í ársskýrslu hans.