Mikilsverð afkomutrygging

Eftir Ástu Rut Jónasdóttur, stjórnarformann LV

20. apr. 2015

Sjóðfélagi sem greiðir samfellt iðgjöld í lífeyrissjóð öðlast fyrir þau iðgjöld afar mikilsverð réttindi sem eru honum og fjölskyldu hans afkomutrygging. Auk ævilangs lífeyris ávinnur sjóðfélaginn sér rétt til örorkulífeyris ef starfsorka skerðist vegna slyss eða veikinda, og falli sjóðfélagi frá er réttur eftirlifenda til maka- og barnalífeyris. * Ég vek máls á þessu vegna þess, að stundum gleymist í umræðunni  til hvers lífeyrissjóðir eru og hvaða réttindi fást fyrir iðgjöldin.

Sjóðfélagi sem greiðir samfellt iðgjöld í lífeyrissjóð öðlast fyrir þau iðgjöld afar mikilsverð réttindi sem eru honum og fjölskyldu hans afkomutrygging. Auk ævilangs lífeyris ávinnur sjóðfélaginn sér rétt til örorkulífeyris ef starfsorka skerðist vegna slyss eða veikinda, og falli sjóðfélagi frá er réttur eftirlifenda til maka- og barnalífeyris. * Ég vek máls á þessu vegna þess, að stundum gleymist í umræðunni  til hvers lífeyrissjóðir eru og hvaða réttindi fást fyrir iðgjöldin.

Öðru hverju er því slegið fram að best sé að vera ekki í lífeyrissjóði, hafa enga lífeyrissjóði, fá öll launin strax og hver sjái um sig eftir að störfum lýkur vegna aldurs.

Að vísu er það þannig að lögboðið er að spara til efri áranna með því að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð, en ég ætla að leyfa mér að líta framhjá því hér í þessari grein og einungis skoða hvað það felur í sér að hafa lífeyrissjóðakerfi, eins og er hér og hvað sjóðfélagar fá út úr því.

Minni réttindi í byrjun

Fyrst þarf að muna, að mikill munur er á því, hvort fólk er að fara á lífeyri núna, eða að byrja á vinnumarkaði og fara á lífeyri eftir kannski 35-45 ár. Lífeyriskerfinu var komið á með kjarasamningum 1969 og lögum 1974. Þá voru iðgjöld 10% af dagvinnulaunum. Nú eru iðgjöld á almennum vinnumarkaði (utan opinbera kerfisins) 12% af heildarlaunum.

Í byrjun safnaðist því hægar í sjóðina og að auki var það þannig fyrstu árin, að hægt var að taka út iðgjald sitt (ekki þó mótframlag vinnuveitenda) og mörg dæmi voru um að fólk gerði það, t.d. námsmenn (við það töpuðust þau réttindi sem höfðu áunnist með iðgjöldunum).

Réttindin aukast ár frá ári

Af þessu leiðir að allmargir sem nú nálgast eftirlaunaaldur eða eru komnir á lífeyri, eiga ekki mikil réttindi í lífeyrissjóðum. Þess vegna þurfa margir enn að treysta á framlög frá skattgreiðendum í gegnum Tryggingastofnun ríkisins.

Þetta er hins vegar að breytast. Ár frá ári aukast lífeyrisréttindi. Frá og með 1996 er iðgjald greitt af öllum launum og árin 2005 og 2007 hækkaði mótframlag launagreiðenda, fyrst í  7% og svo í 8%, þannig að nú safnar hver launþegi 12% af öllum launum í lífeyrissjóð, 4% sem hann greiðir sjálfur og 8% sem greidd eru af launagreiðenda. Iðgjaldasaga þess sem er að hefja starfsferil sinn er því samfelld, gagnstætt gloppóttri iðgjaldasögu margra hinna eldri.

Hvað ef maður verður gamall?

Unga fólkið í dag myndar því sterkari lífeyrisréttindi en eldri kynslóðir. Ekki síst eftir að séreignarlífeyrissparnaðurinn kom til sögunnar. Hér á vefnum er hægt að skoða í lífeyrisreiknivél, á einfaldan hátt, hversu mikil  lífeyrisréttindi myndast miðað við tilteknar tekjur og iðgjöld.

Það er alveg rétt að hugsanlega getur einhver safnað sér meiri lífeyri einn og sjálfur, ráðstafað honum að vild, og ef hann deyr ungur fá erfingjarnir sjóðinn. Þá má spyrja: Hvað ef viðkomandi verður gamall? Eldri en meðaltalið segir? T.d. 95 ára? Hvernig á þá að tryggja að eitthvað verði eftir til að lifa á?

Einnig má spyrja hvað ef viðkomandi verður fyrir alvarlegu slysi eða veikindum og vegna örorku kemst ekki aftur út á vinnumarkaðinn. Viðkomandi myndi sjálfsagt nýta það sem hann hefur safnað sjálfur til framfærslu en myndi sá lífeyrir duga ævilangt? Jafnframt er mikilvægt að hafa í huga að réttindi (eign) í lífeyrissjóði eru ekki aðfararhæf þ.e. að ekki er hægt að ganga að þessum réttindum ef einstaklingur verður gjaldþrota.

„Ellistyrkurinn“ var lítill og rýr

Mikilvægt er að minna á að ein helsta ástæða þess að lífeyrissjóðakerfinu var komið á 1969 var einmitt að allur almenningur átti lítið eða ekkert til elliáranna. „Ellistyrkurinn“ svonefndi, frá ríkinu, var lítill og rýr og víðs fjarri því að duga fyrir nauðþurftum. Á vef ASÍ má lesa þetta um ellistyrkinn: „Árið 1969 voru greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega 36 krónur á mánuði til samanburðar við meðal mánaðarlaun fullvinnandi verkamanns sem voru 214 krónur. Það var því útilokað fyrir allt almennt launafólk að sjá sér farborða af lífeyrinum einum saman.“

Það kerfi sem við búum við í dag er svokallað þriggja stoða kerfi. Fyrsta stoðin er almannatryggingarnar (TR) sem er öryggisnet, greitt jafnóðum af sköttum. Önnur stoðin er samtryggingarsjóðir, lífeyrissjóðakerfið, sem byggir á að hver kynslóð safnar í sjóð fyrir sínum lífeyri. Þriðja stoðin er síðan séreignarsparnaðurinn, séreign hvers og eins.

Lífeyriskerfið stenst vel samanburð

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gerið viðamikla rannsókn á samanburði lífeyriskerfa í nokkrum löndum og voru niðurstöður rannsóknarinnar kynntar í vetur. Samkvæmt OECD stenst íslenska þriggja stoða kerfið vel þau stefnumarkandi tilmæli stofnunarinnar um uppbyggingu lífeyriskerfa.

Niðurstöður OECD rannsóknarinnar eru mikilvægur mælikvarði á að Íslendingum hefur tekist vel að búa til kerfi sem stenst samanburð við önnur OECD ríki. Ennfremur að lífeyrissjóðirnir eru í stakk búnir að gegna umfangsmiklu tryggingahlutverki með örorkulífeyri ásamt maka- og barnalífeyri ef áföll dynja yfir. Ef sjóðfélagi fellur frá þá er t.d. hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna að lágmarki greiddur makalífeyrir í þrjú ár, í sumum tilvikum lengur, og þegar við á þar til barn nær 23 ára aldri. *

Sparnaður í ríkisrekstri eða hagur lífeyrisþega?

Það er hreint ekki sjálfgefið að stjórnmálamenn, fyrir hönd skattgreiðenda, séu reiðubúnir að tryggja almenningi svo mikil réttindi. Reyndar sýna nýleg dæmi okkur frá Evrópu að skyndilega geta skipast veður í lofti í stjórnmálunum með þeim afleiðingum að sparnaður í ríkisrekstri er látinn vega þyngra en afkoma lífeyrisþega.

Það er ávallt gott að ræða og velta upp kostum og göllum lífeyriskerfa og lífeyrissparnaðar.  Það er mitt mat að lífeyrissparnaður byggður á sjóðsöfnun þ.e. að hver kynslóð safni í sjóð fyrir sínum lífeyri  sé mun betri kostur en gegnumstreymiskerfi sem notuð eru t.d. í Frakklandi, Spáni og Grikklandi.  

*Nánari reglur um lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna má sjá hér á vef sjóðsins.