LV setur 138 fyrirtæki á útilokunarlista

12. okt. 2021

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) hefur sett alls 138 fyrirtæki á útilokunarlista. Þegar hafa verið seldar eignir að virði rúmlega þriggja milljarða króna úr eignasöfnum LV vegna útilokunarinnar. Ástæðan er að starfsemi fyrirtækjanna uppfyllir ekki skilyrði um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar samkvæmt nýrri heildarstefnu stjórnar LV um ábyrgar fjárfestingar.

Stefna um útilokun eigna úr eignasöfnum LV

Stefnan nær til allra eignasafna sjóðsins. Hún lýsir aðferðarfræði LV við útilokun tiltekinna fyrirtækja og er meðal annars litið til fyrirmynda frá leiðandi lífeyrissjóðum á Norðurlöndum.

Stefna um útilokun er leiðarljós við stýringu eignasafna LV. Útilokunin varðar fyrirtæki sem framleiða tilteknar vörur eða teljast brotleg við tiltekin alþjóðleg viðmið um mannréttindi og viðskiptasiðferði.

Á grundvelli stefnunnar hefur LV þegar sett 138 fyrirtæki á útilokunarlista; 88 fyrirtæki sem vinna kol, olíusand og olíuleir, 13 fyrirtæki í tóbaksframleiðslu, 22 fyrirtæki sem framleiða umdeild vopn (e. controversial weapons) og 15 fyrirtæki sem teljast brjóta gegn „UN Global Compact“. Þegar hafa verið seldar eignir fyrir ríflega 3 milljarða kr. úr eignasöfnum LV byggt á stefnunni. Útilokunarlistinn er aðgengilegur hér.

Innleiðing stefnunnar tekur tíma og því verður enn um sinn að finna fyrirtæki í eignasöfnum LV sem eru á útilokunarlista. Ástæðan er að enn sem komið er hefur LV takmarkaða möguleika til að tjá skoðanir um útilokun þegar sjóðurinn fjárfestir í erlendum eignum s.s. hlutabréfasjóðum.

Ný stefna um ábyrgar fjárfestingar

Framangreind útilokun er hluti af víðtækri stefnumótun stjórnar sjóðsins varðandi ábyrgar fjárfestingar. Afraksturinn er meðal annars tvær nýjar stefnur sem styðja við ábyrga langtímaávöxtun eigna, sjálfbærni og aðgerðir í loftslagsmálum.

Í nýrri heildarstefnu LV um ábyrgar fjárfestingar er gerð grein fyrir útfærslu LV á aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga sem endurspeglar auknar áherslur sjóðsins í þessum málaflokki. Þar er meðal annars vikið að markmiðum stefnunnar, þýðingu sjálfbærni við eignastýringu, samþættingu aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við hefðbundna eignastýringu og framkvæmd eigendahlutverks, upplýsingagjöf um framkvæmd stefnunnar og innleiðingu. Jafnfram er lögð áhersla á að þau fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfestir í eigi ábyrg samskipti við haghafa sína og fylgi betur áherslum LV varðandi góða stjórnarhætti.

Langur aðdragandi

Vegferð LV í ábyrgum fjárfestingum hófst árið 2006 þegar sjóðurinn gerðist aðili að UN PRI (e. United Nations Principles for Responsible Investments). Sjóðurinn er einnig stofnaðili IcelandSIF og aðili að FESTU – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Hin nýja stefna tekur meðal annars mið af innlendri og erlendri þróun, PRI (Principles for Responsible Investments), ákvæðum laga og þróun Evrópuréttar.

Útgáfa stefnunnar er mikilvæg varða á leið til sjálfbærari eignasafna LV. Hún varðar eignasöfn sem nema ríflega 1.100 milljörðum og eru grundvöllur réttinda rúmlega 175 þúsunda sjóðfélaga LV