Lífeyrissjóður verzlunarmanna eflist

20. feb. 2016

Lífeyrissjóður verzlunarmanna kynnir afar góða afkomu á árinu 2015 um leið og sjóðurinn fagnar þeim merka áfanga að náð 60 ára aldri. Sjóðurinn hefur vaxið mjög að stærð og styrk eins og sjá má af uppgjöri ársins. Þar ber hæst að hrein raunávöxtun eigna var 10,2%. Fjárfestingartekjur voru 64 milljarðar og skiluðu allir eignaflokkar jákvæðri ávöxtun. Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist verulega og er nú með því betra sem gerist meðal lífeyrissjóða.

Eignir 584 milljarðar - raunávöxtun yfir 10%

Lífeyrissjóður verzlunarmanna kynnir afar góða afkomu á árinu 2015 um leið og sjóðurinn fagnar þeim merka áfanga að náð 60 ára aldri. Sjóðurinn hefur vaxið mjög að stærð og styrk eins og sjá má af uppgjöri ársins. Þar ber hæst að hrein raunávöxtun eigna var 10,2%. Fjárfestingartekjur voru 64 milljarðar og skiluðu allir eignaflokkar jákvæðri ávöxtun. Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist verulega og er nú með því betra sem gerist meðal lífeyrissjóða.

Tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist umtalsvert og var hún í lok árs jákvæð um 8,7% samanborið við 5,1% árið áður og 0,9% árið 2013. Tryggingafræðileg staða er mikilvægur mælikvarði á getu sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lífeyrisþegum í framtíðinni.

Sjóðfélagar og iðgjöld

Greiðandi sjóðfélagar voru um 49 þúsund og námu iðgjaldagreiðslur til sjóðsins um 22 milljörðum króna.

Lífeyrisgreiðslur

Lífeyrissjóður verzlunarmanna greiddi um 14 þúsund lífeyrisþegum alls 10,5 milljarða króna í lífeyri úr sameignardeild á árinu 2015. Þetta eru 9% hærri lífeyrisgreiðslur en árið á undan, en lífeyrisþegum fjölgaði um 7,6% á sama tíma.

Sjá einnig auglýsingu um starfsemi ársins 2015.

60 ár – 1956 til 2016

Lífeyrissjóður verzlunarmanna varð 60 ára þann 1. febrúar síðastliðinn, sjóðurinn var stofnaður þann dag árið 1956. Í byrjun voru sjóðfélagar 200 talsins, þeim fjölgaði ört og við lok fyrsta starfsárs voru þeir um 700.

Meðal fyrstu þátta í starfseminni var að lána sjóðfélögum til íbúðakaupa, voru fyrstu lánin veitt í lok fyrsta starfsársins. Enn í dag eru sjóðfélagalán, hin svokölluðu lífeyrissjóðslán, snar þáttur í starfsemi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og eftirspurn góð. Lækkun vaxta og boð um óverðtryggð lán hafa mælst vel fyrir meðal sjóðsfélaga.

Umfang og faglegt starfs sjóðsins hefur vaxið á liðnum sex áratugum í takt við aukna sjóðmyndun sjóðfélaga, fjölbreyttari fjármálamarkaði, auknar kröfur til starfseminnar og fjölgunar lífeyrisþega. Áfram verður unnið að því að efla sjóðinn og bæta þjónustu við sjóðfélaga.

Ársfundur sjóðsins verður haldinn þriðjudaginn 15. mars, kl. 18 á Grand Hótel Reykjavík. Þar verður m.a. ársreikningur sjóðsins kynntur og ársskýrsla lögð fram. Jafnframt flytur tryggingafræðingur sjóðsins erindi um fyrirhugaðar breytingar á tryggingafræðilegri úttekt lífeyrissjóða.