Lífeyrisréttindi hafa hækkað um 8,9% umfram hækkun verðlags

15. jún. 2016

Öðru hverju hefur því verið haldið fram að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafi „skert“ lífeyrisréttindi um 10%. Þá er einungis horft til einnar breytingar á réttindunum, þeirrar sem síðast var gerð. Breytingarnar hafa hins vegar verið fleiri, samtals fimm, og heildaráhrif þeirra 8,9% hækkun réttindanna, ekki lækkun.

Öðru hverju hefur því verið haldið fram að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hafi „skert“ lífeyrisréttindi um 10%. Þá er einungis horft til einnar breytingar á réttindunum, þeirrar sem síðast var gerð. Breytingarnar hafa hins vegar verið fleiri, samtals fimm, og heildaráhrif þeirra 8,9% hækkun réttindanna, ekki lækkun.

Eftir að núgildandi lög um lífeyrissjóði tóku gildi 1997 hafa fimm sinnum verið gerðar breytingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. (Sjá neðst í greininni). Breytingarnar eru þessar:

Ár           Breyting               Uppsafnað

1997      + 11,8%                + 11,8%

2005      - 2,7%                   + 8,8%

2006      + 4,0%                  + 13,1%

2007      + 7,0%                  +21,1%

2010      - 10,0%                 + 8,9%

Þetta þýðir að lífeyrisréttindi eru nú tæpum níu prósentum hærri en þau hefðu að óbreyttu verið. Ennfremur er rétt að benda á að lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar í samræmi við vísitölu verðlags. Þessi hækkun réttindanna er því umfram verðlagsbreytingar á undaförnum tveimur áratugum.

Margoft hefur verið fjallað um þessar breytingar hér á vefnum eins og sjá má hér, hér, hér, hér og hér.

Ákvæði laga um réttindabreytingar

Í lögum um lífeyrissjóði (lög nr. 129/1997) er í 39. grein mælt fyrir um hvernig skuli stilla lífeyrisréttindi svo að eignir í lífeyrissjóðnum geti með sem mestu öryggi dugað til greiðslu lífeyris. Þar segir í 2. mgr: „Leiði tryggingafræðileg athugun skv. 24. gr. í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga skv. 1. mgr. er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.“