Lífeyrisgreiðslur nálgast milljarð á mánuði

27. nóv. 2015

Greiðslur lífeyris frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna fyrstu 11 mánuði ársins námu um 9.566 milljónum króna og hafa því aukist um tæplega 840 milljónir króna frá sama tíma í fyrra. Lífeyrisgreiðslurnar eru nú þegar orðnar jafn háar og allt árið í fyrra.

Greiðslur lífeyris frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna fyrstu 11 mánuði ársins námu um 9.566 milljónum króna og hafa því aukist um tæplega 840 milljónir króna frá sama tíma í fyrra. Lífeyrisgreiðslurnar eru nú þegar orðnar jafn háar og allt árið í fyrra.

Mikill meirihluti lífeyrisgreiðslna er ellilífeyrir, eða ævilangur lífeyrir, tæplega 6,9 milljarðar króna, eða um 72% allra lífeyrisgreiðslna. Það er svipað hlutfall og allt árið í fyrra.

Þegar enn er mánuður eftir af árinu, hvað lífeyrisgreiðslur varðar, eru heildargreiðslur nánast orðnar jafn háar og allt árið í fyrra. Fyrstu 11 mánuði ársins eru þær orðnar 9.566 milljónir króna, allt árið í fyrra voru lífeyrisgreiðslurnar 11 milljónum króna hærri.

Verði desember greiðslur eins og reikna má með, miðað við fyrri mánuði ársins og miðað við desember í fyrra má gera ráð fyrir að 915-920 milljónir króna verði greiddar út í lífeyri frá sjóðnum og heildargreiðslur ársins nemi því rétt um 10,5 milljörðum.

Undanfarin ár hafa lífeyrisgreiðslurnar hækkað jafnt og þétt um leið og lífeyrisþegum hefur fjölgað. Greiðslurnar hafa þó hækkað nokkuð meira en sem nemur fjölgun lífeyrisþeganna. Að hluta er skýringin sú að fjárhæð lífeyris er bundin vísitölu neysluverðs og hefur því hækkað nokkuð í takt við vísitöluna. Líklegt er einnig að þessi þróun endurspegli að með hverju árinu fjölgar þeim lífeyrisþegum sem eiga meiri og samfelldari réttindi, eða iðgjaldasögu. Hver og einn lífeyrisþegi getur átt réttindi í fleiri en einum lífeyrissjóði, en í heildina er þróunin sú, að iðgjaldasagan er samfelldari, réttindaávinnslan meiri og lífeyrir því hærri. Gögn Fjármálaeftirlitsins styðja þetta, eins og sjá má við skoðun yfirlits um ársreikninga lífeyrissjóða sem eftirlitið birtir á vef sínum og skoða má hér.

Heildarfjöldi lífeyrisþega er nú rétt liðlega 14 þúsund og eru þá allir taldir með, þeir sem fá ævilangan lífeyri, örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri. Þeir sem fá ævilangan lífeyri eru um 9.200. Rétt er að taka fram að í þessum hópi eru allir, með meiri eða minni réttindi hjá sjóðnum. Það þýðir að í fjölda lífeyrisþega eru líka taldir þeir sem aðeins hafa skamman tíma, jafnvel í hlutastarfi, einhvern tíma á ævinni greitt iðgjöld til sjóðsins og fá því lágar greiðslur með lífeyri frá öðrum sjóðum. Þarna eru einnig aðrir sem eiga full réttindi í sjóðnum eftir langa starfsævi og auðvitað allt þar í milli.

Auðvelt er fyrir sjóðfélaga að athuga hvaða lífeyrisréttindi þeir eiga og hve hárra greiðslna þeir megi vænta með því að fara á sjóðfélagavefinn (efst í hægra horni vefsins okkar) og opna þar Lífeyrisáætlun. Þar er hægt að sjá samanlögð réttindi í öllum sjóðum sem greitt hefur verið iðgjald til. Velkomið er að hafa samband við skrifstofu sjóðsins ef aðstoðar er þörf, síminn er 580 4000.