Jafnlaunakerfi LV vottað og viðurkennt

12. maí 2022

Vottunarfyrirtækið iCert sf hefur veitt Lífeyrissjóði verzlunarmanna vottun á að jafnlaunakerfi sjóðsins uppfylli kröfur í jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Í framhaldi af því hefur Jafnréttisstofa veitt sjóðnum heimild til að nota jafnlaunamerkið.

Jafnlaunastefna LV er ekki ný af nálinni. Í ársbyrjun 2014 fékk sjóðurinn, fyrstur íslenskra lífeyrissjóða, jafnlaunavottun VR. Sú vottun var viðurkenning á árangri markvissrar jafnréttis- og jafnlaunastefnu í starfi sjóðsins og staðfesting á því að kynin fengju í störfum sínum hjá sjóðnum sömu laun fyrir jafnverðmæt störf (sjá nánar hér ).

iCert sf er sérhæft fyrirtæki til að votta stjórnunarkerfi samkvæmt kröfum stjórnunarkerfisstaðalsins ISO 9001:2015 og jafnlaunakerfi samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012.

Jafnlaunavottunin nú gildir til aprílmánaðar 2025. Niðurstaða jafnlaunavottunarinnar var móttekin hjá Jafnréttisstofu þann 17. apríl 2022 og gildir heimild til að nota jafnlaunamerkið í jafn langan tíma og vottun, eða til 17. apríl 2025.