Íslensku lífeyrissjóðirnir styrkjast

28. ágú. 2015

Íslensku lífeyrissjóðirnir hafa verið að styrkjast undanfarin ár, enda ávöxtun þeirra verið óvenju góð. Þeir þurfa þó nauðsynlega á því að halda að geta dreift betur áhættu fjárfestinga sinna með því að fjárfesta víðar en á Íslandi, þ.e. erlendis. Þetta eru meginniðurstöður ítarlegrar greinar um lífeyrissjóðina í nýjast hefti Vísbendingar, tímarits um efnahagsmál.

Íslensku lífeyrissjóðirnir hafa verið að styrkjast undanfarin ár, enda ávöxtun þeirra verið óvenju góð. Þeir þurfa þó nauðsynlega á því að halda að geta dreift betur áhættu fjárfestinga sinna með því að fjárfesta víðar en á Íslandi, þ.e. erlendis. Þetta eru meginniðurstöður ítarlegrar greinar um lífeyrissjóðina í nýjast hefti Vísbendingar, tímarits um efnahagsmál.

Greinin í Vísbendingu hefst með nokkurs konar umvöndun vegna neikvæðni í garð lífeyrissjóðanna:

„Íslendingar hafa einstakt lag á að vera óánægðir með það sem gengur vel. Nú eru það lífeyrissjóðir landsmanna. Þeir töpuðu í hruninu, en þó var lífeyrissparnaður nánast eina peningalega eign landsmanna sem hélt stórum hluta af verðgildi sínu. Sjóðirnir eru stærstu eigendur að flestum helstu fyrir tækjum landsins og oft er hnýtt í þá þess vegna. Þeim er þó vorkunn því að þeir hafa mikla fjárfestingaþörf og þurfa að reyna að ná sem mestri ávöxtun. Almennt hafa hlutabréf gefið betri ávöxtun en skuldabréf til lengri tíma litið enda áhættusamari og þess vegna er mikilvægt að geta dreift áhættunni sem mest.“

Miklar eignir

Fjallað er um eignir sjóðanna og þróun þeirra undanfarin ár, eins og sýnt er á mynd 1. Þar má sjá heildareignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF).

Eignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af landsframleiðslu 1996-2014


„Nú fara þær nærri því að vera um ein og hálf landsframleiðsla sem eru auðvitað gífurlegir fjármunir. Samt sem áður á þetta hlutfall eftir að hækka á komandi árum og áratugum. Ein mesta hættan við þessa eign er að allt of stór hluti hennar er háður einu landi, það er Íslandi. Sífellt bætast fleiri egg í þessa einu körfu og þó að samkvæmt áætlun stjórnvalda um afléttingu hafta fái lífeyrissjóðirnir að eyða 10 milljörðum króna erlendis skiptir það litlu um heildarmyndina. Tíu milljarðar eru 0,3% af heildareignum sjóðanna sem er auðvitað ekki nema dropi í hafið. Engu að síður er þetta ný byrjun og betra en ekkert.“

Ávöxtun á uppleið

Næst víkur greinarhöfundur að ávöxtun sjóðanna, sem hann segir hafa verið prýðilega undanfarin ár.  „Meðalávöxtun þeirra síðustu fimm ár er rétt um 5% sem er óvenjulega hátt.“

Næst er í grein Vísbendingar vikið að einum algengasta misskilningi, sem uppi er enn í opinberri umræðu um málefni lífeyrissjóðanna hér á landi.  

„Oft er talað um þá ávöxtunarviðmiðun, sem tryggingastærðfræðingar nota þegar skuld bindingar lífeyrissjóða eru teknar út, þ.e. 3,5% raunávöxtun. Í þeirri umræðu ber oft á misskilningi. Talan er ekki ávöxtunarkrafa heldur tala sem talin er líkleg framtíðarávöxtun yfir langan tíma. Alltaf þarf að nota einhverja núvirðingartölu og reynslan bendir til þess að 3,5% sé raunhæf ef litið er á langan tíma þar sem styrjaldir og kreppur skiptast á við góðæri.“

Vísað er til gagna sem ná 112 ár aftur í tímann og birt eru árlega í árbók, sem svissneski bankinn Credit Suisse gefur út í samstarfi við London Business School. Þar komi fram að á árunum 1900 til 2011, eða í 112 ár, hafi reyndin verið að meðaltali 3,6% raunávöxtun á ári.

Á það er síðan bent, að við að breyta þessari tölu, sem höfð er til viðmiðunar við úttekt á sjóðunum, mundu lífeyrisréttindi sjóðfélaganna breytast verulega.

„Engin tæknileg vandkvæði eru á því að nota lægri vexti til viðmiðunar en 3,5%, t.d. 3,0% eða 2,3% svo dæmi séu tekin. Þetta myndi hins vegar auka reiknaða heildarskuldbindingu sjóðanna um 10-15% í fyrra tilvikinu en 25% eða meira í því seinna. Sjóðirnir yrðu því allir að skerða réttindi. Verði raunávöxtun í reyndinni 3,5% hafa þeir lífeyrisþegar sem skerðingu sættu fengið minna í sinn hlut en þeim bar. Prósentan, sem enginn veit eða getur vitað með vissu, er fyrst og fremst hugsuð til þess að greiðslum úr sjóðunum verði jafnað með sanngjörnum hætti.“

Nýtum betri tíð

Greininni í Vísbendingu lýkur með þessum kafla:

„Aldrei verður nægilega ítrekað hve gagnlegt það er fyrir Íslendinga að eiga svo sterkt lífeyriskerfi sem raun ber vitni. Á næstu 15 árum mun því álagið á bæði lífeyriskerfið og almannatryggingakerfið aukast ár frá ári. Langlífi eykur álagið á sjóðina frá ári til árs. Við blasir að vandanum þarf að mæta með því að hækka ellilífeyrisaldur. Heilsa fólks er betri en áður var og þjóðfélagið verður ríkara með því að nýta hæfileika og þekkingu manna sem lengst.

Stærsti vandi lífeyrissjóðanna er ímyndarvandi. Þeir eru sem heild langstærsti fjárfestir á landinu og vinsælt er að hnýta í þá af lýðskrumurum. Sjóðirnir eru skammaðir sem okrarar ef ávöxtun er góð og sem aumingjar ef hún er slæm. Blaðrarar sem stundum hafa sjálfir lítið lagt í lífeyrissparnað skammast yfir lélegum lífeyri og telja sjálfsagt að sjóðirnir taki þátt í alls kyns fjárfestingum sem lítið gefa af sér. Sjóðunum ber hins vegar að ná sem bestri ávöxtun á sama tíma og þeir dreifa áhættunni. Allt framlag þeirra til upplýstrar og yfirvegaðar umræðu um þessi mál er gagnlegt.

Eðlilegt er að stefnt sé að því að samræma lífeyriskjör opinberra starfsmanna og annarra. Fyrsta skrefið í þá átt er að afnema ábyrgð hins opinbera á lífeyrissjóðum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Ekki er líklegt að það gerist án þess að opinberir starfsmenn fái einhverjar bætur. Tvenns konar kerfi veldur tortryggni og torveldar samanburð á milli kerfa. Líklegt er að skref verði stigin í þessa átt á næstu árum.

Jafnframt er mikilvægt að kerfi almannatrygginga verði breytt þannig að jaðarskattar af lífeyrisgreiðslum minnki og þar með refsing fyrir þá fyrirhyggju að hafa lagt fyrir. Nefnd félags- og húsnæðismálaráðherra hefur starfað undanfarin ár og mun á næstunni skila af sér tillögum sem líklegt er að gangi í þessa átt.“

 Staða lífeyrissjóðanna í árslok 2014


Þeir sex sjóðir sem eru neðst á myndinni eru í plús, þeir eru: Lífeyrissjóður verkfræðinga ( Lífsverk), Eftirlaunasjóður FÍA, Lífeyrissj. Tannlæknafélags Ísland, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður starfsm. Búnaðarbanka Ísland. Heimild: Fjármálaeftirlitið

Heimild: Vísbending, vikurit um viðskipti og efnahagsmál, 33. tölublað 2015