Grunnur lífeyrisréttindanna

20. ágú. 2015

Iðgjöld eru grunnur lífeyrisréttinda hvers og eins sjóðfélaga í lífeyrissjóði. Eðlilegt er þess vegna að sjóðfélagar fylgist vel með að iðgjöldin skili sér. Af sömu ástæðu hvetur Lífeyrissjóður verzlunarmanna sjóðfélaga til árvekni um iðgjöld sín þegar yfirlit um réttindi eru send sjóðfélögum, tvisvar á ári.

Iðgjöld eru grunnur lífeyrisréttinda hvers og eins sjóðfélaga í lífeyrissjóði. Eðlilegt er þess vegna að sjóðfélagar fylgist vel með að iðgjöldin skili sér. Af sömu ástæðu hvetur Lífeyrissjóður verzlunarmanna sjóðfélaga til árvekni um iðgjöld sín þegar yfirlit um réttindi eru send sjóðfélögum, tvisvar á ári.

Mikilvægt að kanna nánar

Fyrir kemur að sjóðfélagar finna ekki upplýsingar um iðgjöld sín og réttindi eða að þá grunar að eitthvað vanti þar upp á. Þá er mikilvægt að kanna málið nánar. Reynslan sýnir að hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru ekki þekkt dæmi um að iðgjaldaupplýsingar hafi glatast og réttindi farið forgörðum af þeim sökum.

Veigamikill þáttur í starfseminni

Einhver mikilvægasti þáttur í starfsemi lífeyrissjóðs er innheimta og skráning iðgjalda ásamt varðveislu upplýsinga þar að lútandi. Þar sem iðgjöld eru grunnur lífeyrisréttindanna er lykilatriði að öll gögn og allar upplýsingar um þau séu jafnan til og hægt að skoða þau til að ganga úr skugga um hver réttindi sjóðfélaganna séu.

Tölvur – nýtt geymsluform á sínum tíma

Þegar tölvur komu til sögunnar var farið að skrá þessar upplýsingar rafrænt, í gagnagrunna tölvukerfanna. Það gerðist annars vegar þannig að iðgjaldaskráning í rauntíma (jafnóðum og iðgjöld berast) varð rafræn, hins vegar voru allar eldri upplýsingar á pappír skráðar í tölvur.

Öll frumgögn eru varðveitt

Mikilvægt er að hafa í huga að við þessa yfirfærslu upplýsinga af pappír í tölvur var engum gögnum hent eða fargað. Öll frumgögn eru varðveitt og hægt að fletta upp í þeim eftir upplýsingum ef þarf. Fjölmörg dæmi eru um að sjóðfélagar hafi óskað eftir upplýsingum varðandi iðgjaldasögu sína. Engin dæmi eru hins vegar í hartnær 60 ára sögu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um að þær upplýsingar hafi ekki fundist eða að farist hafi fyrir af einhverjum orsökum að flytja upplýsingarnar í tölvu.

Lífeyrisgáttin

Nú eru upplýsingar um réttindi sjóðfélaga aðgengilegar á vefsvæðum lífeyrissjóðanna, á lokuðum vefsvæðum þar sem hver og einn sjóðfélagi getur með innskráningu fengið aðgang að þeim upplýsingum sem varða hann og hans réttindi. Þar er aðgengileg Lífeyrisgáttin sem getur dregið saman upplýsingar frá þeim sjóðum, sem sjóðfélaginn á réttindi í. Vegna persónuverndarsjónarmiða, og –laga, er ekki til einn miðlægur gagnagrunnur með þessum upplýsingum, þess í stað er Lífeyrisgáttin, þar sem sjóðfélaginn veitir heimild sína til að sækja upplýsingarnar til annarra sjóða.

Rétt er að árétta að ef upplýsingar um iðgjöld og réttindi blasa ekki við í fyrstu, að leitað sé betur. Gott er að byrja á Lífeyrisgáttinni á sjóðfélagavefnum. Ef ekki tekst að finna upplýsingarnar á vefnum er hægt að snúa sér til lífeyrissjóðsins beint og spyrja.