Góð ávöxtun fyrstu 11 mánuði ársins

16. des. 2020

Afkoma sjóðsins fyrstu 11 mánuði ársins var afar góð. Ávöxtun á tímabilinu var 13% sem jafngildir 9,2% raunávöxtun. Á sama tímabili jukust lífeyrisgreiðslur um 13% og sjóðfélögum á lífeyri fjölgaði um 8%. Þetta kom fram á þriðja fundi fulltrúaráðs sjóðsins, sem haldinn var þriðjudaginn 15. desember 2020.

Fundurinn var rafrænn vegna Covid 19 sóttvarnareglna og var honum streymt frá Hilton Reykjavík Nordica. Á dagskrá var kynning á lykiltölum varðandi afkomu LV og framvindu fjárfestingarstefnu, tryggingastærðfræðingur sjóðsins fór yfir tryggingafræðilega stöðu og leiðir til að mæta lengri ævi sjóðfélaga og loks var kynnt aðferðafræði við ákvörðun vaxta á sjóðfélagalánum.

Guðmundur Þ. Þórhallsson framkvæmdastjóri sjóðsins gerði grein fyrir afkomu sjóðsins fyrstu 11 mánuðina. Fram kom í máli hans að hrein eign til greiðslu lífeyris hefur vaxið úr 850 milljörðum króna í byrjun árs í 975 milljarða í lok nóvember, eða um 125 milljarða. Fjármunatekjur voru 112 milljarðar og iðgjöld 31 milljarður. Greiddur lífeyrir var 17 milljarðar króna. Raunávöxtun sameignardeildar var 9,2% í lok nóvember og langtímaávöxtun mjög góð, árleg meðaltalsraunávöxtun síðustu 20 ára 4,5%.

Hlutfall hlutabréfa í eignasafni sjóðsins hefur hækkað á árinu og er nú 55%. Þá hefur hlutfall erlendra eigna einnig hækkað og er 44%.

Ítarlegri upplýsingar má finna í glærukynningum fundarins.