Framsækinn sjóður í 60 ár

16. des. 2016

Viðtal við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, birtist í sérblaði Fréttablaðsins 16. desember. Við birtum viðtalið með góðfúslegu leyfi Fréttablaðsins.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti lífeyrissjóður landsins. Um síðustu áramót var hrein eign hans til greiðslu lífeyris um 584 milljarðar króna og hafði þá aukist um tæp 15% frá árinu áður. Sjóðurinn er án ábyrgðar launagreiðenda, þ.e. eignir sjóðsins eru trygging fyrir lífeyrisloforðum en ekki eins og sjóðir opinberra starfsmanna þar sem hið opinbera ábyrgist lífeyrisgreiðslurnar. Þetta setur miklar kröfur á hendur stjórna og stjórnenda sjóðsins um að skila góðri ávöxtun til að tryggja sjóðfélögum sem bestan lífeyri.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti lífeyrissjóður landsins. Um síðustu áramót var hrein eign hans til greiðslu lífeyris um 584 milljarðar króna og hafði þá aukist um tæp 15% frá árinu áður. Sjóðurinn er án ábyrgðar launagreiðenda, þ.e. eignir sjóðsins eru trygging fyrir lífeyrisloforðum en ekki eins og sjóðir opinberra starfsmanna þar sem hið opinbera ábyrgist lífeyrisgreiðslurnar. Þetta setur miklar kröfur á hendur stjórna og stjórnenda sjóðsins um að skila góðri ávöxtun til að tryggja sjóðfélögum sem bestan lífeyri.

Áræðni og öryggi í fjárfestingum

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, er vel meðvituð um þessa ábyrgð og þær kröfur sem henni fylgja um árangur.

 „Já, sannarlega,“ segir Guðrún. „Og það er bara jákvætt en um leið engin nýlunda hjá þessum lífeyrissjóði sem varð 60 ára á árinu. Allt frá upphafi hefur starfsemi sjóðsins einkennst af metnaði og framsækni. Bæði stjórn og starfsmenn hafa lagt sig fram um að fjármunir sjóðfélaganna nái sem bestri ávöxtun. Lífeyrissjóðir starfa eftir strangri löggjöf enda er tilgangur þeirra að ávaxta á sem öruggastan hátt iðgjöld sjóðfélaganna til þess að geta síðan greitt þeim góðan lífeyri. Til þess þarf að finna hina vandrötuðu leið fjárfestinga sem tekur mið af öllu samtímis: áræðni, öryggi, áhættudreifingu og framsækni.

Sjóðurinn var meðal þeirra sem riðu á vaðið þegar hlutabréfakaup lífeyrissjóða voru heimiluð á sínum tíma. Það hefur skilað afar góðum árangri, frá upphafi hefur raunávöxtun innlendrar hlutabréfaeignar sjóðsins að meðaltali verið 9,7% á ári, þá er allt meðtalið, líka það tjón sem sjóðurinn varð fyrir í hruninu 2008. Sjóðurinn hefur sömuleiðis nýtt sér möguleika erlendrar fjárfestingar og þegar flest stærstu fyrirtæki landsins gengu í gegnum mikla endurskipulagningu í kjölfar hrunsins tók Lífeyrissjóður verzlunarmanna af krafti þátt í að endurreisa þau.“

Sjóðfélagalánin

Guðrún segir að sjóðfélagalán, sem venjulega kallast einfaldlega lífeyrissjóðslán, hafi alla tíð verið mikilvægur þáttur í starfsemi sjóðsins.

„Strax á fyrsta starfsári voru boðin sjóðfélagalán og frá byrjun hefur stefnan verið að bjóða lánin á samkeppnishæfum kjörum. Þessi lán eru þjónusta við sjóðfélaga sem með þeim geta fjármagnað þarfir heimilisins. Þau eru um leið kjölfesta í rekstri sjóðsins. Alla tíð, þessi 60 ár, hafa sjóðfélagalánin verið snar þáttur í starfseminni, umfangið var mest í lok síðustu aldar, síðan í lágmarki 2015 en er nú að aukast verulega á ný.“

Góð langtímaávöxtun

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur náð afar góðri ávöxtun undanfarin ár.

„Hrein raunávöxtun 2015 var 10,2%, fimm ára meðalávöxtun 7,3%. 20 ára meðaltals raunávöxtun á ári var í lok árs 2015 4,9%,“ segir Guðrún. „Þetta er mjög góð langtímaávöxtun og sýnir að þó að einstök ár geti verið rýrari en önnur, þá getum við þrátt fyrir það vænst góðrar afkomu yfir lengri tíma.

Nú er staðan þannig að langvarandi hátt gengi krónunnar rýrir afkomuna. Niðurstaða ársins er reyndar ekki komin enn, verður ljós við uppgjör í árslok, en horfur eru á að 2016 verði talsvert rýrara en næstu ár á undan hvað afkomuna varðar. Þetta háa gengi krónunnar hefur neikvæð áhrif á afkomu margra innlendra hlutafélaga, úrvalsvísitalan hefur lækkað á árinu og þó að erlend hlutabréf hafi hækkað í dollurum talið hefur gengishækkun krónunnar leitt til þess að ávöxtun erlendra verðbréfa er neikvæð mæld í íslenskum krónum.  

Til lengri tíma litið eru hins vegar horfur góðar. Sjóðurinn býr að miklum styrk 60 ára arfleifðar, rekstrarkostnaður er lágur sem byggist meðal annars á stærðarhagkvæmni. Vð höfum okkar eigin eignastýringardeild sem sparar mikinn kostnað, eigin tölvudeild og lögfræðideild sem eykur hagkvæmni verulega. Þá er ótalinn annar mannauður sem sjóðurinn býr að, ekki síst í reynslu, þekkingu og metnaði starfsmanna.

Mest krefjandi verkefni næstu ára

Eftir góð undanfarin ár stendur Lífeyrissjóður verzlunarmanna vel að vígi til að takast á við hærri lífaldur þjóðarinnar. Nú þarf lífeyrissjóður að standa undir að greiða lífeyri að meðaltali í 15-17 ár, en sá tími var innan við tíu ár við upphaf lífeyriskerfisins. Að takast á við þetta verður mest krefjandi verkefni okkar á næstu árum. Um leið hefur jöfnun lífeyrisréttinda á opinbera og almenna vinnumarkaðnum í för með sér að framundan er m.a. hækkun iðgjalda, þ.e. mótframlags launagreiðenda, alls 3,5% sem gert er ráð fyrir að sjóðfélagar geti valið um hvort fari í samtryggingu eða séreign. 0,5% hækkun er nú þegar komin, 1,5% næsta sumar og loks 1,5% sumarið 2018.“