Formannsskipti í stjórn sjóðsins

26. ágú. 2021

Guðrún Hafsteinsdóttir lét af formennsku stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á stjórnarfundi miðvikudaginn 25. ágúst 2021. Við formennskunni tók Jón Ólafur Halldórsson. Þau er bæði tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins.

Jón Ólafur hefur starfað hjá Olíuverzlun Íslands (Olís) frá árinu 1995 en lét af störfum nýlega. Hann hefur B.Sc.-gráðu í véltæknifræði frá Copenhagen University College of Engineering, AMP gráðu frá IESE í Barcelona, MBA-gráðu frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og hefur staðist hæfispróf FME til setu í lífeyrissjóðum.

Jón Ólafur var ráðinn forstjóri Olís árið 2014. Hann var áður framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Olís frá 1995, verkefnastjóri hjá Jarðborunum 1994, forstöðumaður hjá Hafnarbakka 1991-1993 og starfaði sem véltæknifræðingur hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna 1988-1990. Jón Ólafur á sæti í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og er jafnframt formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Jón Ólafur hefur setið í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna frá árinu 2020.

Guðrún Hafsteinsdóttir hefur verið formaður og varaformaður stjórnar sjóðsins undanfarin rúm fimm ár. Hún er nú í kosningabaráttu fyrir Alþingiskosningarnar í næsta mánuði.

Guðrún segir í ávarpi til starfsmanna sjóðsins: „Af þessu tilefni vil ég þakka ykkur öllum fyrir einkar ánægjuleg kynni og samstarf.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna býr yfir framúrskarandi mannauði. Það er valinn maður í hverju rúmi og hefur verið minn heiður að vinna með ykkur.

Þið eigið öll þátt í því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna er fremstur á meðal sjóða á Íslandi, framsækinn, skilar góðri afkomu og er vel rekinn.

Ég vænti þess að þið munið öll leggja ykkur fram við að sjóðurinn verði áfram framúrskarandi vinnustaður sem og lífeyrissjóður um alla framtíð.“