Er hægt að borða kökuna og geyma hana líka?

28. jún. 2019

Eftirfarandi er grein eftir Árna Stefánsson, stjórnarmann í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Styttri útgáfa af þessari grein er birt í Fréttablaðinu í dag, 28. júní 2019.

Á stjórnarfundi í Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV) 24. maí var ákveðið að lækka vexti á verðtryggðum sjóðfélagalánum með föstum vöxtum um 0,2% og hækka vexti á verðtryggðum sjóðfélagalánum með breytilegum vöxtum um 0,2%. Vaxtalækkunin fékk enga athygli en öðru gilti um vaxtahækkunina.

Formaður VR hefur í framhaldi farið mikinn í fjölmiðlum, lýst ákvörðun um breytingu vaxtaviðmiðs sem rakalausri geðþóttaákvörðun, gagnrýnt væntanlega hækkun breytilegra vaxta og ásakað fulltrúa VR í stjórninni um trúnaðarbrest. Í framhaldi var lögð fram tillaga í stjórn VR um að setja fulltrúana af og var hún samþykkt af stjórn og fulltrúaráði VR.

Komið hefur fram að ástæðan fyrir því að vextir lána með breytilegum vöxtum hækka lítillega í ágúst fólst í að breytt var um vaxtaviðmið. Sú ákvörðun átti sér fagleg rök og langan aðdraganda sem formaður VR gefur þó ekkert fyrir.

Sem stjórnarmaður í LV þykir mér í ljósi ofangreinds tilefni til að útskýra fyrir almennum sjóðfélögum og öðrum nokkrar ástæður og rök þess að stjórn lífeyrissjóðsins samþykkti að breyta vaxtaviðmiðinu.

Í fyrsta lagi var ákvörðun um breytingu vaxtaviðmiðs fjarri því rakalaus.  Í fyrra bentu starfsmenn lífeyrissjóðsins á galla við það vaxtaviðmið sem þá var stuðst við og var þeim falið að koma með tillögur að betra og virkara viðmiði. Rökin fyrir þörf á breytingu voru m.a. :

  • Notast hafði verið við ákveðinn flokk húsbréfa að viðbættu álagi. Viðskipti með viðkomandi húsbréf höfðu snarminnkað og farið úr 13,6 milljarða meðalmánaðarveltu árið 2012, niður í 600 milljóna meðalveltu í fyrra.
  • Helsta ástæða minni viðskipta var að Íbúðalánasjóður hefur ekki gefið út viðkomandi skuldabréfaflokk undanfarin ár og lífeyrissjóðir (sem eru langtímafjárfestar) áttu orðið yfir 80% af skuldabréfum í flokknum.
  • Æskilegt er að tíð viðskipti séu með þá fjármálagerninga sem stuðst er við við vaxtaákvarðanir og þeir hafi þannig virka verðmyndun, þannig að lánsvextir endurspegli sem best markaðsvexti. Það skilyrði þótti að mati sjóðsins ekki lengur nægjanlega uppfyllt.
  • Það er meðal annars hlutverk stjórnenda og stjórnar að tryggja að öruggan rekstur og móta áhættu- og fjárfestingastefnu. Eftirlit með eðlilegum vaxtaviðmiðum fellur þar undir.

Umræða um vaxtaviðmið og undirbúningur breytinga hefur því átt sér langan aðdraganda innan LV enda málið forunnið af starfsmönnum lífeyrissjóðsins og hafði verið rætt ítarlega á nokkrum stjórnarfundum, fyrst í maí 2018. Framkvæmdastjóri LV lagði endanlega tillögu fyrir stjórnarfund í maí en henni fylgdi samantekt og rökstuðningur, faglega unnin af áhættustýringu, lánadeild, eignastýringu, lögfræðingi og framkvæmdastjóra. Það er því fjarri sanni ákvörðunin hafa verið rakalaus geðþóttaákvörðun og tillögur að vaxtabreytingum verða sem fyrr unnar samkvæmt skýru verkferli.

Í öðru lagi gangrýndi formaður VR harðlega að vextir viðkomandi skuldabréfa skuli hækka um 0,2% þann 1. ágúst. Samkvæmt nýju vaxtamiði lífeyrissjóðsins skal meðal annars líta til ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa sem og samanburðarhæfra skuldabréfa og vaxtakjara á markaði fyrir sambærileg lán, að teknu tilliti til áhættumats sjóðsins á hverjum tíma.

Þegar fjallað er um vaxtahækkunina verður að horfa til þeirrar staðreyndar að í dag eru breytilegir verðtryggðir vextir LV 2,06% og einfaldlega lægstu verðtryggðu vextir sem í boði eru á almennum markaði fasteignaveðlána. Þetta kemur m.a. fram í minnisblaði sem IFS greining vann nýverið fyrir VR og birt er á heimasíðu VR. Telji formaður VR breytilega vexti LV vera „okurvexti“, eins og hann hefur haldið fram í tengdri umræðu, væri nær að ráðast að öllum þeim aðilum á markaðnum sem bjóða mun hærri vexti. Til dæmis má sjá að sambærilegir vextir lífeyrissjóðsins Lífsverks eru 3,5%, Gildis 2,85%, Festu 2,7% og Stapa 2,42%.

Í sama minnisblaði VR kemur jafnframt fram að breytilegir vextir LV hafa fylgt nokkuð vel þróun þeirra ríkisbréfa sem IFS notar til samanburðar við mat á fylgni vaxtaþróunar. Verðtryggðir breytilegir vextir LV hafa lækkað úr 3,99% í janúar 2015 niður í 2,06% í dag og það vaxtalækkunarferli LV hefur verið veruleg kjarabót til lántakenda, eitthvað sem vert er að tala um!

Formaður VR sá ekki ástæðu til að fagna því heldur brá á það ráð að freista þess að setja fulltrúa VR út úr stjórn LV þar sem sjóðurinn „vogaði sér“ að hækka breytilega vextina um 0,2%.

Rökin fyrir því að breytilegu vextirnir skuli hækka í 2,26% 1. ágúst eru meðal annars:

  • Ávöxtunarkrafa sértryggðra skuldabréfa bankanna var nýverið tæp 2%. Á bakvið slík bréf er fjöldi fasteignalána og eru sértryggð skuldabréf nokkuð áhættuminni heldur en lánveiting til staks sjóðfélaga. Eðlilegt er að sjóðfélagalán beri hærri vexti til samræmis við þá áhættu. Vextir verðtryggðra húsnæðislána viðskiptabankanna með breytilegum vöxtum eru í dag rúmlega 40% hærri en útlánsvextir LV og til viðbótar eru viðskiptabankarnir með 1% uppgreiðslugjöld á slíkum lánum.
  • Seljanleikaáhætta stakra sjóðfélagalána er hærri en skráðra skuldabréfa og sjóðfélagalán LV eru uppgreiðanleg á hverjum tíma án uppgreiðslugjalds. Slíkt felur í sér áhættu þar sem LV veit í raun ekki til hversu langs tíma hann lánar.
  • Þegar litið er til vaxta sambærilegra skuldabréfa má benda á að eitt af sterkustu fyrirtækjum landsins, Orkuveita Reykjavíkur greiðir 2,06% vexti af nýútgefnum skuldabréfum í útboði sem lauk 12. júní. Ólíkt einstaklingi sem tekur húsnæðislán hefur OR milljarða eignir til tryggingar og nánast „skattlagningarvald“ í formi verðlagningar á orku og vatni. Það er eðlilegt að OR njóti nokkuð betri kjara en til dæmis ég sem lántaki. Önnur dæmi um vaxtakjör í nýlegum skuldabréfaútboðum stórra félaga eru fasteignafélagið Reitir með 3,2%, Almenna leigufélagið með 3,25% og Heimavellir með 3,71%.
  • Breytilegir vextir verðtryggðra sjóðfélagalána lífeyrissjóðins þóttu samkvæmt samanburði við sambærileg skuldabréf, áhættumat og vaxtakjör á markaði fyrir sambærileg lán vera of lágir í maí og því samþykkti stjórn sjóðsins þá tillögu sem lá fyrir stjórnarfundi um hóflega hækkun um 0,2% er tæki gildi þann 1. ágúst. Meginástæðan fyrir því að vextir voru orðnir svo lágir var eins og áður kom fram að fyrrnefnt vaxtaviðmið skorti orðið virka verðmyndun.

Þrátt fyrir komandi hækkun verða vextir sjóðsins áfram meðal allra lægstu vaxta sem bjóðast á sambærilegum lánum. Frekari vaxtalækkunum hefur verið spáð nýverið og lækki vextir á markaði enn frekar er allt eins líklegt að lánsvextir kunni að lækka í framtíðinni.

Í þriðja lagi sakaði formaður VR stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna um trúnaðarbrest. Það er vandséð hvaða hagsmunum það þjónar að ráðast gegn fulltrúum félagsins í stjórn LV, öðrum stjórnarmönnum og starfsmönnum sjóðsins. Þetta er fólk sem hefur lagt sig fram um að vinna faglega og stuðla að hag sjóðfélaga. Umboðsskylda stjórnarmanna LV er við sjóðfélaga lífeyrissjóðsins. Svo virðist sem formanni VR mislíki að þeir fulltrúar sem VR skipaði í stjórnina hafi ekki borið einstakar ákvarðanir á sviði stjórnar LV sérstaklega undir hann. Slíkt væri þó ekki í takt við góða stjórnarhætti, lög um lífeyrissjóði og starfsreglur sjóðsins.

Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni 21. júní jánkaði Ragnar Þór því að ástæðan fyrir að setja inn nýja stjórnarmenn væri „að sjálfsögðu“ til að draga til baka ákvörðunina um vaxtabreytingar Lífeyrissjóðsins. Gera má ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið taki þær yfirlýsingar til skoðunar enda gefa þær tilefni til þess að áhyggjur þurfi að hafa af sjálfstæði stjórnarmanna skipaðra af VR eigi þeir sífellt á hættu að vera skipt út taki þeir einhverja þá ákvörðun sem ekki hugnast formanni VR hverju sinni.

Hlutverk lífeyrissjóða er að ávaxta þá fjármuni sjóðfélaga sem lífeyrissjóðir taka á móti til að standa undir lífeyris- og örorkugreiðslum til framtíðar. Gangi vel njóta sjóðfélagar þess í auknum lífeyrisréttindum, gangi hins vegar illa að ávaxta fjármunina til lengri tíma kæmi óhjákvæmilega til réttindaskerðinga. Komið hefur fram að um 3.700 sjóðfélagar hafa verðtryggð lán á breytilegum vöxtum hjá LV en við sjóðfélagar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna erum í heildina um 170.000.

Eigi að breyta hlutverki lífeyrissjóða, víkka út starfsemi og breyta heimildum s.s. til að lána til einstakra sjóðfélaga eða til byggingafélaga á kjörum undir almennum markaðskjörum, eins og formaður VR hefur talað fyrir, þyrfti áður að breyta lögum um lífeyrissjóði og jafnframt fara fram umfangsmikil umræða um það hvort sjóðfélagar styðji almennt slíkar stefnubreytingar. Slíkt kynni að að færa sjóðfélögum ákveðin gæði framan af ævi sem og þeim sem væru að koma sér þaki yfir höfuðið en myndi síðan birtast í lakari lífeyris- eða örorkurétti í framtíðinni.

Þessu til rökstuðnings má vísa til útreikninga sem Bjarni Þórðarson tryggingastærðfræðingur tók saman veturinn 2011-2012, að beiðni fjármálaráðuneytisins, sem sýna hvaða réttindaskerðingu sjóðfélagar í almennum lífeyrissjóðum mættu búast við ef vaxtaviðmið lífeyrissjóða væri lækkað. Þar kom fram að að ef vaxtaviðmið lækkar úr 3,5% í 2,5% myndi nauðsynleg skerðing áunninna lífeyrisréttinda þrítugs sjóðfélaga verða 36%, fertugs 29,5%, fimmtugs 22,5% og sextugs 14,5%. Það er ljóst að margir sjóðfélagar myndu ekki fella sig við slíkar stefnubreytingar og slík ákvörðun myndi valda deilum. Það er margsannað að ekki er hægt að borða kökuna og geyma hana á sama tíma.

Mikilvægt er að umræða sé á málefnalegum grundvelli og popúlismi eða gífuryrði nái ekki yfirhöndinni. Lífeyrissjóðakerfið er ein meginstoða þjóðfélagsins og hagur okkar allra að um þá ríki sátt. Við sem veljumst þar til trúnaðarstarfa eða komum á annan hátt að þurfum að vanda til verka og tryggja að ákvarðanir séu teknar í takt við lög og góða stjórnarhætti, með hagsmuni sjóðfélaga og heildarinnar að leiðarljósi.