Bréf Fjármálaeftirlitsins varðandi umboð stjórnarmanna í LV

5. júl. 2019

Eins og kunnugt má vera hefur skipan og umboð stjórnarmanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) verið til umræðu á vettvangi sjóðsins, VR og í fjölmiðlum. 

Í kjölfar þess að VR dró skipan aðal- og varamanna til baka í júní s.l. beindi Fjármálaeftirlitið (FME) fyrirspurn til lífeyrissjóðsins varðandi málið. Í kjölfar svars stjórnar LV til FME barst sjóðnum svar með bréfi þann 3. júlí 2019. Til upplýsingar fyrir sjóðfélaga hefur stjórn ákveðið að birta bréfið í heild opinberlega. Bréfið er hér á eftir orðrétt, einnig er hægt að opna bréfið í pdf skjali.

FME logo

Lífeyrissjóður verzlunarmanna
bt. stjórnarformanns
Kringlunni 7
103 Reykjavík

3. júlí 2019
Tilvísun 2019010123

Efni: Stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Fjármálaeftirlitið vísar til bréfs Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hér eftir lífeyrissjóðurinn, dags. 26. júní sl., annarra samskipta við lífeyrissjóðinn auk frétta vegna málsins m.a. á heimasíðu stéttarfélagsins VR, hér eftir VR.

AfturköIIun á umboði stjórnarmanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og tilnefning nýrra stjórnarmanna
í 5. tölul. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, kemur fram að í samþykktum lífeyrissjóða skuli m.a. kveða á um hvernig vali stjórnarmanna lífeyrissjóðsins og kjörtímabili þeirra skuli háttað. Samkvæmt ákvæði 5.1. í samþykktum lífeyrissjóðsins skal stjórn sjóðsins skipuð átta mönnum. Fjórum tilnefndum af stjórn VR og fjórum tilnefndum af þeim samtökum atvinnurekenda sem að sjóðnum standa. Stjórnarmenn lífeyrissjóðsins eru, skv. ákvæði 5.2 í samþykktum sjóðsins, tilnefndir til þriggja ára í senn og miðast tilnefningin við 1. mars. Á ársfundi sjóðsins skal leggja fram og gera grein fyrir tilnefningum stjórnarmanna og varamanna þeirra.

Af gögnum málsins má ráða að afturköllun á umboði stjórnarmanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sem tilnefndir voru af stjórn VR í mars sl., og tilnefning nýrra stjórnarmanna, stafi frá fulltrúaráði VR en ekki stjórn VR eins og gildandi samþykktir lífeyrissjóðsins kveða á um.

Fjármálaeftirlitið gerir því ekki athugasemdir við það mat lífeyrissjóðsins, er fram kom í bréfi sjóðsins þann 26. júní, er varðar afturköllun umboðs stjórnarmanna og nýja tilnefningu í stjórn sjóðsins af hálfu fulltrúaráðs VR. Er stofnunin sammála því mati stjórnar lífeyrissjóðsins að stjórnarmenn, sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars sl., séu enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins og beri skyldur sem slíkir.

Ekki er í samþykktunum fjallað um heimildir til að afturkalla tilnefningar og því álitamál hvort að í tilnefningarréttinum felist takmarkalaus heimild til afturköllunar. í félagarétti er það þó almennt viðurkennt að heimilt sé þeim aðila er tilnefnt hefur í stjórn að afturkalla slíka tilnefningu, sbr. m.a. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög sem kveður á um að sá sem kjörið hefur eða tilnefnt stjórnarmann getur vikið honum frá störfum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sé horft til laga um hlutafélög má leiða líkur að því að heimild til afturköllunar sé ekki án takmarkana, sbr. síðari málsl. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 2/1995. Hugsanlegt er að afturköllun geti talist ólögmæt og þannig bakað bótaskyldu.

Góðir stjórnarhættir
Góðir stjórnarhættir eru mikilvægir í starfsemi lífeyrissjóða og er víða komið inn á þá t.d. í lögum um lífeyrissjóði, samþykktum, starfsreglum stjórna og stjórnháttaryfirlýsingum.

Með lífeyrissjóði er samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 129/1997 átt við félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum II. og III. kafla laganna. Starfsemi lífeyrissjóðs skal samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sömu laga lúta að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris og er honum samkvæmt 2. mgr. 20. gr. sömu laga óheimilt að hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að ná þeim tilgangi er um ræðir í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 20. gr. laganna.

Stjórn lífeyrissjóðsins ber ábyrgð á að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir sjóðsins að viðlagðri hugsanlegri skaðabóta- eða refsiábyrgð, sbr. 1. mgr. 29. gr. Laga nr. 129/1997. Nánar skal kveðið á um hlutverk stjórnar í samþykktum lífeyrissjóðs en í grein 5.5. í samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna kemur fram að stjórn beri ábyrgð á starfsemi sjóðsins og að hún skuli annast um að skipulag hans og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Þá sé það í höndum stjórnar sjóðsins að taka stefnumarkandi ákvarðanir, er varða hag og starfsemi sjóðsins. í grein 5.8. kemur ennfremur fram að stjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd sjóðsins, mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, fyrirtækjum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna umfram aðra aðila eða á kostnað sjóðsins.

í starfsreglum stjórnar sjóðsins er áréttað lögbundið hlutverk hans og sérstaklega fjallað um umboðsskyldu og stjórnarhætti í starfsreglum stjórnarinnar. Um umboðsskylduna segir m.a. að stjórnarmaður skuli taka ákvörðun í samræmi við sannfæringu sína, gildandi lög og reglur, með þeim hætti að hagsmunum sjóðfélaga sé sem best gætt og að ákvörðunin styðji við tilgang og starfsemi sjóðsins. Ennfremur er kveðið á um að stjórnarmenn megi ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru til þess fallnar að afla ákveðnum sjóðfélögum, félögum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuni umfram aðra aðila eða á kostnað sjóðsins. Sérstaklega er kveðið á um það í starfsreglunum að stjórnarmaður er ekki bundinn af fyrirmælum þeirra sem tilnefna hann til setu í stjórn sjóðsins.

í starfsreglum stjórnarinnar er einnig vikið að stjórnarháttum og tiltekið að lífeyrissjóðurinn leggi áherslu á góða stjórnarhætti við stefnumótun og daglega stjórnun sjóðsins og er starfsreglum stjórnar ætlað að styðja við góða stjórnarhætti í rekstri sjóðsins.

Auk þessa gaf sjóðurinn úr stjórnarháttayfirlýsingu 2018, sem staðfest var á fundi stjórnar þann 27. febrúar sl., þar sem ítrekað er hlutverk sjóðsins, umboðsskylda stjórnarmanna og þeir stjórnarhættir er sjóðurinn leggur áherslu á.

Starfsreglur stjórnar setja ramma um störf stjórnar sjóðsins og tiltaka með skýrum hætti að stjórnarmönnum beri að gæta að hagsmunum sjóðfélaga í hvívetna og að stjórnarmenn séu ekki bundnir af fyrirmælum tilnefningaraðila.
í tengslum við framangreint er rétt að geta samþykktar stjórnar VR, dags. 18. júní sl. þar sem fjallað er um ákvörðun um breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána á stjórnarfundi lífeyrissjóðsins þann 24. maí sl. Með vísan til þessarar ákvörðunar er eftirfarandi m.a. tiltekið í samþykktinni:

Stjórn VR telur að ekki sé hægt að líta á þennan gjörning stjórnar lífeyrissjóðsins nema sem algjöran trúnaðarbrest við félagið, stefnu þess og nýgerðan lífskjarasamning og leggur því til að haldinn verði fundur í fulltrúaráði VR hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna þar sem lögð verði fram tillaga að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna og ný stjórn skipuð til bráðabirgða.


Stjórn lífeyrissjóðsins skal ávallt hafa þá hagsmuni í huga sem nefndir eru í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 20. gr. laga nr. 129/1997 við ákvörðunartöku fyrir hönd sjóðsins. Að mati Fjármálaeftirlitsins er stjórn lífeyrissjóðsins óheimilt að hafa aðra hagsmuni í huga við ákvörðunartöku fyrir hönd sjóðsins, þ.á m. við ákvörðun vaxta fasteignaveðtryggðra lána til sjóðfélaga.

Sé horft til ákvæða laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, samþykkta, starfsreglna stjórnar og stjórnarháttayfirlýsingu lífeyrissjóðsins verður, í ljósi orðalags samþykktar stjórnar VR, að líta svo á að um tilraun til beinnar íhlutunar í stjórn lífeyrissjóðsins hafi verið að ræða, sem með óbeinum hætti var ætlað að færa ákvörðunarvald frá stjórn lífeyrissjóðsins. Það vegur að sjálfstæði stjórnar og góðum stjórnarháttum.

Niðurstaða
Að öllu framangreindu virtu gerir Fjármálaeftirlitið ekki athugasemd við það mat lífeyrissjóðsins, er fram kom í bréfi sjóðsins þann 26. júní, er varðar afturköllun umboðs stjórnarmanna og nýja tilnefningu í stjórn sjóðsins af hálfu fulltrúaráðs VR. Er stofnunin sammála því mati stjórnar lífeyrissjóðsins að stjórnarmenn, sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars sl., séu enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins og beri skyldur sem slíkir.

Fjármálaeftirlitið ítrekar að stjórn lífeyrissjóðsins skal ávallt hafa þá hagsmuni í huga sem nefndir eru í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 20. gr. Laga nr. 129/1997 við ákvörðunartöku fyrir hönd sjóðsins. Að mati Fjármálaeftirlitsins er stjórn lífeyrissjóðsins óheimilt að hafa aðra hagsmuni í huga við ákvörðunartöku fyrir hönd sjóðsins, þ.á m. við töku um ákvörðun vaxta fasteignaveðtryggðra lána til sjóðfélaga.

Af framangreindu má draga þær ályktanir að ef ákvörðun um afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna lífeyrissjóðsins og skipun nýrra aðila af hálfu VR byggð á framangreindum sjónarmiðum VR frá 18. Júní sl., nær fram að ganga megi líta svo á að um tilraun til beinnar íhlutunar í stjórn lífeyrissjóðsins sé um að ræða, sem með óbeinum hætti er ætlað að færa ákvörðunarvald frá stjórn lífeyrissjóðsins. Það vegur að sjálfstæði stjórnar og góðum stjórnarháttum.

Fjármálaeftirlitið vill, með hliðsjón af þeirri óvissu sem einkennir málið, beina því til stjórnar lífeyrissjóðsins að taka samþykktir sjóðsins til skoðunar varðandi hvort og þá við hvaða aðstæður tilnefningaraðilar geti afturkallað umboð stjórnarmanna, m.a. til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna gagnvart hagsmunum tilnefningaraðila.

Hlekkur á bréfið í heild sinni.