Ársuppgjör 2016: Eignir 602 milljarðar, ávöxtun 0,9%

18. feb. 2017

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur vaxið að stærð og styrk undanfarin ár og áratugi og nema eignir nú 602 milljörðum. Ávöxtun sjóðsins í heild nam 0,9% sem jafngildir -1,2% raunávöxtun. Ávöxtun eignaflokka var með nokkuð ólíkum hætti.

Eignir 602 milljarðar – ávöxtun 0,9% - tryggingafræðileg staða jákvæð um 4,2%

Vel dreift eignasafn - eignaflokkar þróast með ólíkum hætti

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur vaxið að stærð og styrk undanfarin ár og áratugi og nema eignir nú 602 milljörðum. Ávöxtun sjóðsins í heild nam 0,9% sem jafngildir -1,2% raunávöxtun. Ávöxtun eignaflokka var með nokkuð ólíkum hætti. Skuldabréfaeign sjóðsins sem nemur rúmum helming af eignum skilaði ágætri ávöxtun eða 6,6% sem svarar til 4,4% raunávöxtunar. Erlend verðbréfaeign, sem byggir á dreifðu safni hlutabréfa og nemur um 26% af eignum sjóðsins, skilaði ágætri ávöxtun í dollar eða um 5,5%. Vegna mikillar styrkingar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum var ávöxtun ársins hins vegar neikvæð um 8% sem svarar til -9,7% raunávöxtunar.  Innlend hlutabréf nema um 22% af eignum. Þessi eignaflokkur hefur gefið mjög góða ávöxtun undanfarin ár og veitt sjóðnum umtalsverðar fjármunatekjur. Ávöxtun innlendra hlutabréfa á liðnu ári var -0,1% sem svarar til um -2% raunávöxtunar.

Eignasafn sjóðsins hefur skilað góðri ávöxtun undanfarin ár sem sést meðal annars á því að fimm ára raunávöxtun nemur 6,4%, tíu ára 1,2% og tuttugu ára raunávöxtun er 4,4% sem er umfram þau vaxtaviðmið sem miðað er við í tryggingafræðilegri úttekt.

Tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg staða sjóðsins er áfram sterk eða sem nemur 4,2% samanborið við 8,7% árið áður. Breytingar á tryggingafræðilegri stöðu skýrast einkum af ávöxtun síðastliðins árs og því að lífaldur sjóðfélaga fer hækkandi. Þessi staða þýðir að sjóðurinn er vel í stakk búinn til að standa við skuldbindingar sínar.

Sjóðfélagar og iðgjöld

Greiðandi sjóðfélagar voru um 50 þúsund á árinu og námu iðgjaldagreiðslur til sjóðsins um 25 milljörðum króna.

Lífeyrisgreiðslur

Lífeyrissjóður verzlunarmanna greiddi um 15 þúsund lífeyrisþegum rúma 12 milljarða króna í lífeyri úr sameignardeild á árinu 2016 og nema mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur því nú rúmum milljarði á mánuði. Þetta eru 10,6% hærri lífeyrisgreiðslur en árið á undan, en lífeyrisþegum fjölgaði um 7,6% á sama tíma.

Sjóðfélagalán

Lánveitingar til sjóðfélaga hafa verið nokkuð í deiglunni á liðnu ári. Síðla árs 2015 samþykkti stjórn breytingar á lánareglum sem fólu í sér hækkað lánshlutfall jafnframt því sem boðið var upp á lán með óverðtryggðum vöxtum. Með þessum breytingum leitaðist sjóðurinn við að mæta óskum sjóðfélaga um að vera betri valkostur við fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Það er stefna sjóðsins að bjóða sjóðfélögum áfram sjóðfélagalán á samkeppnishæfum kjörum.

Sjá auglýsingu um starfsemi sjóðsins hér.