Áratuga samfelld saga sjóðfélagalána

5. nóv. 2015

Mikil og góð viðbrögð hafa orðið við ákvörðun stjórnar sjóðsins í haustbyrjun að bjóða bætt kjör á sjóðfélagalánum og fjölbreytilegri lánamöguleika, eins og óverðtryggð lán. M.a. var talsvert fjallað um breytingarnar í fjölmiðlum, mátti jafnvel skilja á sumum fréttum að þessi lánastarfsemi væri ný af nálinni. Svo er þó aldeilis ekki, fyrstu sjóðfélagalán Lífeyrissjóðs verzlunarmanna voru veitt árið 1957.

Mikil og góð viðbrögð hafa orðið við ákvörðun stjórnar sjóðsins í haustbyrjun að bjóða bætt kjör á sjóðfélagalánum og fjölbreytilegri lánamöguleika, eins og óverðtryggð lán. M.a. var talsvert fjallað um breytingarnar í fjölmiðlum, mátti jafnvel skilja á sumum fréttum að þessi lánastarfsemi væri ný af nálinni. Svo er þó aldeilis ekki, fyrstu sjóðfélagalán Lífeyrissjóðs verzlunarmanna voru veitt árið 1957.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna var stofnaður 1. febrúar 1956. Strax á fyrsta starfsári, í byrjun árs 1957, auglýsti sjóðurinn í fyrsta sinn lánveitingu. Í 30 ára afmælisriti sjóðsins er þannig sagt frá því: „Fimmtíu og sex umsóknir bárust um rúmlega þriggja milljón króna lán. Stjórnin samþykkti að veita 20 sjóðfélögum lán til 10 ára á bilinu 30-75 þúsund hvert, eða alls um eina milljón króna. Ekki skulu höfð um það mörg orð hvernig lánveitingar til sjóðfélaga hafa síðan aukist ár frá ári, heldur aðeins vísað í þær tölur og línurit á bls. 104 og 105 sem sýna þróunina. Þó skal þess getið að á árinu 1985 afgreiddi sjóðurinn 1.260 lán til sjóðfélaga alls að upphæð 267.430.550 krónur, sem áreiðanlega hefur verið stjarnfræðileg tala í hugum þeirra sem stofnuðu sjóðinn 1956.“

Mjór er mikils vísir

Það vakti athygli þegar þessi nýi lánamöguleiki kom fram á sjónarsviðið. Í byrjun áttu vissulega ekki margir kost á að taka lífeyrissjóðslán frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, því upphaflega voru sjóðfélagar aðeins 200 og lánsréttur var takmarkaður við að lántakandi væri greiðandi sjóðfélagi. Þá var það hverjum og einum í sjálfsvald sett að gerast sjóðfélagi eða ekki, skylduaðild að lífeyrissjóðum kom fyrst með lögum 1970. Sjóðfélögum fjölgaði þó ört eins og fram kemur í frétt Alþýðublaðsins frá 29. september 1957 eftir blaðamannafund sem Hjörtur Jónsson, varaformaður sjóðsins hélt til að kynna lánastarfsemina og sjóðinn um leið.

Hraður vöxtur á fyrsta ári

Alþýðublaðið segir svo frá: „Hefur sjóðurinn þegar lánað rúma eina milljón króna til sjóðfélaga, en það var gert í marz mánuði í vor. Þá hefur stjórn sjóðsins ennfremur ákveðið að veitt verði aftur lán úr sjóðnum kringum n.k. áramót.“

Og síðar í sömu frétt: „Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur nú starfað í eitt og hálft ár og hefur hann á þessum tíma farið stöðugt vaxandi, en það er eins með hann og hverja aðra nýjung, að fólk þarf tíma til þess að gera sér grein fyrir því hvert gildi hún hefur.

Upphaflega gerðust rúmlega 200 manns sjóðfélagar, en nú nemur tala sjóðfélaga nálega 700 manns og víst er, enn á mikill fjöldi verzlunarfólks eftir að gerast aðilar að sjóðnum.“

50% meira í annað sinn

Nærri tveimur vikum síðar, föstudaginn 11. október, segir Morgunblaðið frá sama blaðamannafundi, þar segir m.a.: „Varaformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Hjörtur Jónsson kaupmaður, sem starfað hefur í rúmt ár, hefur skýrt blöðunum frá því, að sjóðurinn hafi þegar lánað rúma eina milljón króna til sjóðfélaga, og sjóðsstjórn hafi ákveðið að um næstu áramót verði aftur veitt lán úr sjóðnum.“

Þann 17. desember 1957 birtist svo auglýsing í Morgunblaðinu með þessum texta: „Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefir ákveðið að lána 1,5 millj. króna úr sjóðnum upp úr nk. áramótum. Rétt til lántöku hafa eingöngu sjóðfélagar í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Lánin veitast gegn 1. veðrétti í fasteign.

Umsóknir með upplýsingum um veð, sendist stjórn sjóðsins í pósthólf  nr. 93, fyrir 10. janúar 1958.“

Nærri sex áratuga samfelld saga

Alla tíð frá því þessi fyrstu varfærnu skref voru tekin í lánveitingum til sjóðfélaga hefur Lífeyrissjóður verzlunarmanna staðfastlega stutt við fjármögnun heimila sjóðfélaganna með slíkum lánveitingum. Þær fóru jafnt og þétt vaxandi og náðu hámarki um lok aldarinnar. Nú virðist sem fleiri og fleiri geri sér grein fyrir að sjóðfélagalánin eru áfram góður kostur og fyllilega samkeppnisfær við önnur lán sem í boði eru, jafnvel í mörgum tilvikum hagkvæmasti kosturinn.