Afkoma Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 2021

Eignir jukust um 188 milljarða og réttindi hækkuðu um 10%

26. feb. 2022

Rekstur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) gekk vel á árinu og afkoma eignasafna var góð. Raunávöxtun sameignardeildar nam 11,5% sem svarar til 16,9% nafnávöxtunar. Langtímaávöxtun er einnig góð og er 10 ára meðal raunávöxtun 7,6%.

 

Lífeyrisréttindi sameignardeildar voru hækkuð um 10% á árinu, gilti hækkunin frá og með 1. janúar 2021.

Heildareignir námu 1.201 milljarði króna um áramót og jukust þær um 188 milljarða króna á árinu. Fjárfestingatekjur námu 174 milljörðum. Sameignardeild sjóðsins er vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem fylgja hækkandi lífaldri sjóðfélaga. 

Sjóðfélögum á lífeyri fjölgaði áfram á árinu og voru um 22 þúsund í lok árs samanborið við 20 þúsund árið áður. Lífeyrisgreiðslur sameignardeildar hækkuðu einnig og námu 22 milljörðum á árinu samanborið við 18 milljarða árið 2020.

Á ársfundi LV 29.mars n.k. verða kynntar og lagðar fram til samþykktar tillögur stjórnar til breytingar á samþykktum sjóðsins. Þær fela m.a. í sér breytingar á réttindum í sameignardeild sem lúta að því að auka svigrúm til upphafs ellilífeyris og bæta nokkuð tryggingavernd vegna maka- og örorkulífeyris. Þá eru lagðar til umtalsverðar breytingar á réttindakerfi sameignardeildar sem lúta að því að mæta nýjum viðmiðum um hækkandi lífaldur sjóðfélaga þar sem byggt er á spá um hækkandi lífaldur í stað þess að miða við sögulegar forsendur. Þær gera ráð fyrir nokkuð breyttum viðmiðum varðandi öflun lífeyrisréttinda til framtíðar og breytingar á áunnum réttindum. 

Helstu tölur fyrir árið 2021:

 

  • Ávöxtun eigna sameignadeildar 2021 nam 16,9% sem samsvarar 11,5% hreinni raunávöxtun. Fjárfestingatekjur á árinu voru 174 milljarðar 


Arleg_medal_raunavoxtun-copy

  • Langtímaávöxtun sameignardeildar sjóðsins er áfram góð, fimm ára árleg meðalávöxtun er 8,8%, tíu ára meðalávöxtun 7,6% og 20 ára meðalávöxtun er 5,2%   
  • Lífeyrisréttindi sameignardeildar voru hækkuð um 10% á árinu, gilti hækkunin frá og með 1. janúar  
  • Heildareignir voru 1.201 milljarður króna í lok árs 2021, eða sem nemur 188 milljörðum meiri en árið áður

 

Heildareignir-copy

 

  • Lífeyrisgreiðslur jukust um 22,4% og voru alls 22 milljarðar króna úr sameignardeild til 22 þúsund lífeyrisþega, eða 6,2% fleiri en árið áður

Greidslur_ur_sereign_sameign-copy

 

  • 48 þúsund sjóðfélagar greiddu til sjóðsins
  • Tryggingafræðileg staða sameignardeildar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er jákvæð sem nemur 3,5%. 

 Tryggingafraedileg_stada-copy

 

  • Eignir í séreignardeildum voru alls 26,5 milljarðar króna í lok árs 2021 samanborið við 21,7 milljarða 2020, jukust um 4,8 milljarða eða 22,1%