Afi átti engan lífeyrissjóð þegar starfsævinni lauk

3. apr. 2017

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna flutti skýrslu stjórnar á ársfundi sjóðsins. Í ræðu sinni rifjaði hún meðal annars upp hvers vegna, hvernig og við hvaða aðstæður íslenska lífeyrissjóðakerfið varð til fyrir um hálfri öld. Við birtum hér þennan kafla úr ræðu Guðrúnar.

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna flutti skýrslu stjórnar á ársfundi sjóðsins. Í ræðu sinni rifjaði hún meðal annars upp hvers vegna, hvernig og við hvaða aðstæður íslenska lífeyrissjóðakerfið varð til fyrir um hálfri öld. Við birtum hér þennan kafla úr ræðu Guðrúnar.

Nú þegar nokkrar háværar gagnrýnisraddir heyrast sem beinast að lífeyrissjóðunum og íslenska lífeyrissjóðakerfinu er rétt að rifja upp tilurð og tilgang lífeyrissjóðanna. Ef við hverfum 50 ár aftur í tímann varð Ísland fyrir gríðarlegu efnahagslegu áfalli þegar síldin hvarf. Við bættist verðfall á mörkuðum og gengisfelling krónunnar. Á sama tíma voru mikil átök á vinnumarkaði sem leiddi meðal annars til þess að margar fjölskyldur misstu allt sitt. Það var síðan 1969 sem samkomulag náðist milli verkalýðshreyfingarinnar, samtaka vinnuveitenda og stjórnvalda um lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn. Með því samkomulagi var komið í veg fyrir að þjóðfélagið væri óstarfhæft vegna átaka. Samkomulagið um lífeyrissjóðina var staðfest í allsherjarkjarasamningi sem síðar varð uppistaðan í lögum frá Alþingi um lífeyrissjóði.

Ég var svo heppin að á mínu æskuheimili ólust þrjár kynslóðir upp saman þar sem afi var einn af fjölskyldumeðlimunum. Ég man þann dag ósköp vel er afi flutti til okkar. Það var 1975 og ég var fimm ára. Pabbi hafði sótt afa og allt hans hafurtask á ísbíl og hann flutti inn í eitt herbergi hjá okkur. Skýringin sem við systkinin fengum var að afi hefði verið orðinn svo einmana eftir að amma dó og þess vegna hefði hann komið til okkar. Það var án efa stór hluti ástæðunnar að hann flutti EN það var ekki fyrr en mörgum árum seinna er maður komst á fullorðinsár sjálfur að maður áttaði sig í raun á af hverju hann kom. Afi hafði verið bóndi alla sína ævi. Hann átti engan lífeyrissjóð þegar hans starfsævi lauk. Ekki krónu. Hann þurfti að lifa af nokkrum krónum sem almannakerfið skaffaði honum og það dugði ekki til.

Fyrir tíma lífeyrissjóðanna hafði meginþorri landsmanna, það er aðrir en opinberir starfsmenn, sjómenn og nokkrir fámennir hópar aðrir, ekki annað til viðurværis eftir að starfsævinni lauk en hinn svokallaða ellistyrk frá ríkinu eða almannatryggingakerfinu. Í maí 1969 þegar samningurinn um lífeyrissjóðina var gerður var ellistyrkurinn 36 krónur á mánuði. Til samanburðar voru meðallaun verkamanns 214 krónur. Ellistyrkurinn var sem sagt rétt innan við 17% af meðallaunum fullvinnandi verkamanns. Það gæti samsvarað tæplega 70 þúsund krónum í nútímanum.

Í þessu allsherjarsamkomulagi fólst að samtök launþega annars vegar og vinnuveitenda hins vegar tóku að sér að koma á fót þessu sjálfstæða almannatryggingakerfi ef svo mætti kalla það. Áskilið var að samtök viðeigandi starfsgreina launþega og vinnuveitenda skipuðu stjórnir sinna sjóða. Ávinningurinn skyldi vera afkomuöryggi fyrir launafólkið, almenning, enda var áskilið að lífeyrissjóðirnir ættu að vera viðbót við almannatryggingarnar frá ríkinu, en ekki að koma í stað þeirra. Fyrir atvinnulífið og ríkisvaldið var ávinningurinn fólginn í að til yrðu öflugir sjóðir sem hefðu mátt til að fjármagna rekstur ríkisins með kaupum á ríkistryggðum skuldabréfum og svo síðar atvinnulífið með kaupum á hlutafé. Allt hefur þetta gengið eftir – og gengið vel.

Það var einnig áskilið, og hefur vafalítið þurft staðfestu til af hálfu aðila vinnumarkaðarins, að halda stjórnmálamönnunum utan við stjórnir lífeyrissjóðanna og girða fyrir það með samningnum, lögunum og samþykktum sjóðanna, að stjórnmálamenn eða aðrir gætu seilst í þessa sjóði almennings til að fjármagna sín áhugamál eða gæluverkefni.

Ég get ekki ímyndað mér að samtök vinnuveitenda né launþega geti samþykkt að þetta góða kerfi, sem kostaði á sínum tíma „blóð, svita og tár“ að koma á fót, verði rifið niður eða gerðar á því eðlisbreytingar til að þjóna lund einstaklinga eða hagsmunaafla.

Ekki má skilja orð mín svo að ég sé að mæla gegn öllum breytingum. Því fer fjarri. En breytingarnar þurfa að vera vel ígrundaðar og um þær þarf að ríkja sátt. Sumar breytingar eru þó þess eðlis að hægt er að gera þær einhliða, ef svo má að orði komast. Þannig var um reglur sem Samtök atvinnulífsins settu í byrjun ársins og varða fulltrúa samtaka í atvinnulífinu í stjórnum lífeyrissjóða. Þeir skyldu ekki jafnframt sitja í stjórnum fyrirtækja í krafti lífeyrissjóðanna. Að vísu fórst fyrir hjá stjórn SA að kynna þessa ákvörðun þangað til nýlega, en þegar tveimur okkar stjórnarmanna hér í sjóðnum varð reglan ljós sögðu þeir sig umsvifalaust úr stjórn sjóðsins.