60 ára

1. feb. 2016

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er 60 ára í dag. Sjóðurinn var stofnaður þann 1. febrúar 1956 eftir að undirbúningur hafði staðið í um fjögur ár. Við fögnum þessum tímamótum með margvíslegum hætti á afmælisárinu og byrjum á að rifja upp í örstuttu máli tilurð sjóðsins.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er 60 ára í dag. Sjóðurinn var stofnaður þann 1. febrúar 1956 eftir að undirbúningur hafði staðið í um fjögur ár. Við fögnum þessum tímamótum með margvíslegum hætti á afmælisárinu og byrjum á að rifja upp í örstuttu máli tilurð sjóðsins.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna var stofnaður þann 1. febrúar 1956 og er því 60 ára í dag. Starfsemi sjóðsins byggðist á kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og atvinnurekenda sem gerður var 27. maí 1955. Enn í dag, 60 árum síðar, er starfsemi sjóðsins grundvölluð á kjarasamningi VR og atvinnurekenda auk laga frá Alþingi sem byggja á allsherjarsamkomulagi á vinnumarkaði.

Í aðdraganda stofnunar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, urðu mikil þáttaskil á vettvangi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, en það breyttist árið 1955 úr sameiginlegu félagi verzlunareigenda og starfsmanna í að vera hreint launþegafélag „ ... og tók upp frjálsa samninga við atvinnurekendur,“ eins og segir í 30 ára afmælisriti Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.* Þessir samningar voru grundvöllur lífeyrissjóðsins.

Samhliða undirbúningi stofnunar sjóðsins var undirbúin stofnun Verzlunarsparisjóðsins 4. febrúar 1956, en hann var undanfari Verzlunarbanka Íslands sem stofnaður var á fimm ára afmæli sparisjóðsins 1961, og varð síðar ásamt nokkrum fleiri bönkum hluti af Íslandsbanka.

Hagur batnar og velferð eykst

Í 60 ára sögu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafa orðið miklar breytingar á samfélaginu og kjörum sjóðfélaga.  Miklar sveiflur hafa orðið í hagkerfinu og áföll dunið yfir en vel gengið þess í milli. Hagur landsmanna hefur batnað mjög og velferð aukist þessa áratugi. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur sömuleiðis aukist hvort sem er í fjölda sjóðfélaga eða eignum til greiðslu lífeyris.

Sterk staða sjóðsins

Sérlega góð afkoma sjóðsins undanfarin ár tryggir að staða hans nú er afar sterk og hann stendur vel að vígi til að takast á við krefjandi verkefni komandi ára. Meðaltalsraunávöxtun undanfarin fimm ár er yfir 7%.  Sjóðurinn er nú um 580 milljarðar króna að stærð og má vænta að á afmælisárinu nái hann táknrænni stærð og hrein eign til greiðslu lífeyris fari yfir 600 milljarða markið.

Fjármögnun heimila frá byrjun

Eitt helsta hlutverk sjóðsins strax í byrjun var að koma til móts við þarfir sjóðfélaga við fjármögnun íbúðakaupa og var auglýst eftir umsóknum um fyrstu sjóðfélagalánin strax á fyrsta starfsárinu. Alla tíð hafa lánveitingar til sjóðfélaga verið snar þáttur í starfsemi sjóðsins og áhersla lögð á að bjóða fjármögnun á vel samkeppnishæfum kjörum. Nú síðast á liðnu hausti var stigið stórt skref til að auðvelda sjóðfélögum fjármögnun sína þegar lánskjör voru bætt og þjónusta aukin. Vextir lækkaðir, lántökukostnaður lækkaður, lánshlutfall aukið og bætt við nýjum lánaflokki óverðtryggðra lána. Sterk viðbrögð benda til að með breytingunum hafi sjóðurinn komið til móts við brýna þörf sjóðfélaganna.

Lífeyrisgreiðslur aukast

Lífeyrisgreiðslur hófust úr sjóðnum strax árið 1958 með greiðslu barnalífeyris. Ekki var um aðrar lífeyrisgreiðslur að ræða fyrr en 1967 þegar fyrsti sjóðfélaginn náði ellilífeyrisaldri. Tveir aðrir bættust við það sama ár, en þeir urðu ekki fleiri fyrr en árið 1971 þegar þeim fjölgaði í 11. Örorku- og makalífeyri greiddi sjóðurinn í fyrsta sinn árið 1968.

Alls voru greiddar 36 þúsund krónur í ellilífeyri fyrsta árið til þriggja fyrstu lífeyrisþeganna. Árið 1980 (árið fyrir myntbreytingu þegar nýkróna varð jafngild 100 gömlum krónum) voru greiddar 264.876 krónur í ellilífeyri til 183 lífeyrisþega. Árið 2015 voru greiddar 7.507 milljónir króna í ellilífeyri til 9.192 lífeyrisþega.

Úr 200 í 150 þúsund

Í byrjun var aðild að lífeyrissjóðnum frjáls og gerðust rúmlega 200 manns sjóðfélagar. Sjóðfélögum fjölgaði þó hratt og strax á fyrsta starfsárinu voru þeir orðnir um 700. Nú eiga um 150 þúsund manns meiri eða minni réttindi í sjóðnum og virkir sjóðfélagar eru um 48 þúsund.

Stjórnarskipan hefur breyst

Fyrstu stjórn sjóðsins skipuðu þrír fulltrúar atvinnurekenda: Magnús J. Brynjólfsson, formaður, tilnefndur af Verzlunarráði, Guðmundur Árnason frá Félagi íslenskra stórkaupmanna og Hjörtur Jónsson frá Kaupmannasamtökum Íslands og tveir fulltrúar Verzlunarmannafélags Reykjavíkur: Gunnlaugur J. Briem og Ingvar N. Pálsson.

Nú skipa stjórn sjóðsins jafn margir fulltrúar frá VR og atvinnurekendum, samtals átta. Skipunartími er þrjú ár í senn og skiptast vinnuveitendur og VR á um að skipa formann úr sínum röðum, eitt kjörtímabil í senn.

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna skipa nú Ásta Rut Jónasdóttir, formaður, Helgi Magnússon varaformaður, Anna G. Sverrisdóttir,  Birgir S. Bjarnason, Birgir Már Guðmundsson, Fríður Birna Stefánsdóttir, Margrét Sif Hafsteinsdóttir og Páll Örn Líndal.

Fjöldi viðburða á afmælisárinu

Mikið vatn er til sjávar runnið frá þessum tímum á 6. áratug 20. aldarinnar og verður þess minnst með ýmsum hætti hér á vefnum á afmælisárinu hvernig tímarnir hafa breyst, hver staða sjóðsins og sjóðfélaganna er nú í samanburði við fyrri tíð. Einnig verður litið til framtíðar og efnt til ýmissa viðburða með sjóðfélögum (sem eru nærri helmingur þjóðarinnar að tölu) og verða þeir viðburðir kynntir jafnóðum.


*Lífeyrissjóður verzlunarmanna 1956-1986; Reykjavík 1986, bls. 19.