Fréttasafn: júní 2009

Fyrirsagnalisti

Yfirlýsing vegna viðtals í Kastljósi miðvikudaginn 24. júní s.l. - 25. jún. 2009

Í viðtali Sigmars B. Guðmundssonar við Jón F. Thoroddsen í Kastljósi, miðvikudaginn 24. júní s.l., víkur Jón m.a. að samskiptum sínum við Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Hann kvaðst hafa það eftir starfsmanni í eignastýringu sjóðsins, með vísan til samtals frá miðjum september 2008, að ekki stæði til að selja hlutabréf sjóðsins í bönkunum, sem hann telur ámælisvert í ljósi óvissu sem þá var um framtíð bankanna.


Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

 

Lífeyrissjóður verzlunarmanna seldi hlutabréf umfram kaup á árinu 2008 fyrir sem nemur sex milljörðum króna og fór sú sala að verulegu leyti fram þegar dró að falli bankanna í október. Sjóðurinn seldi einnig hlutabréf umfram kaup á árinu 2007 eins og fram kemur í ársskýrslu sjóðsins sem eru Jóni og öllum almenningi aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Í þessum viðskiptum innleysti Lífeyrissjóður verzlunarmanna hagnað af þessum eignaflokki, þótt vissulega hafi sjóðurinn tapað á fjárfestingunum við fall bankanna. Þau hlutabréf sem voru seld voru að stærstum hluta bréf í viðskiptabönkunum enda voru þeir stærsti hluti hlutabréfavísitölunnar og þar með hlutfallslega stærstir í eignasafni lífeyrissjóðsins.

Lesa meira

Nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og ráðning framkvæmdastjóra - 23. jún. 2009

Nýr stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur. Stjórnina skipa fjórir fulltrúar frá VR og fjórir fulltrúar frá þeim samtökum atvinnurekanda sem að sjóðnum standa.


Nýlega tóku sæti þrír nýir fulltrúar VR í stjórn sjóðsins, þau Ragnar Önundarson, Ásta Rut Jónasdóttir og Stefanía Magnúsdóttir auk þess er Benedikt Vilhjálmsson fulltrúi VR.  Fyrir voru þau Helgi Magnússon varaformaður tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, Benedikt Kristjánsson tilnefndur af Kaupmannasamtökum Íslands, Bogi Þ. Siguroddsson tilnefndur af Félag íslenskra stórkaupmanna og Hrund Rudolfsdóttir tilnefnd af  Samtökum atvinnulífsins. 

 
Í kjölfar þess að framkvæmdastjórastaða lífeyrissjóðsins var auglýst laus til umsóknar fyrir skemmstu hefur stjórn sjóðsins ráðið Guðmund Þ. Þórhallsson framkvæmdastjóra sjóðsins. Guðmundur hefur starfað hjá sjóðnum sem forstöðumaður eignastýringar undanfarin ár.  Hann er 45 ára með viðskiptafræðipróf frá Háskóla Íslands og kvæntur Guðrúnu Hannesdóttur MA í uppeldis- og menntunarfræðum og eiga þau tvo syni.

Lesa meira