Fréttasafn: mars 2009

Fyrirsagnalisti

Yfirlýsing í tilefni umfjöllunar Morgunblaðsins um stöðu lífeyriskerfisins og boðsferðir 29. mars 2009 - 29. mar. 2009

Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu, sunnudaginn 29. mars 2009, er umfjöllun sem lýtur að því að raunveruleg staða lífeyrissjóðanna sé mun veikari en opinberar tölur gefa til kynna. Sú umfjöllun sem þar kemur fram á ekki við um stöðu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.


Því til áréttingar er athygli vakin á því að við áramótauppgjör, sem staðfest hefur verið af endurskoðanda og stjórn sjóðsins, var eign sjóðsins í fyrirtækjaskuldabréfum metin með varfærnum hætti og færð verulega niður eins og tölur í eftirfarandi umfjöllun bera með sér. Hvað eign í erlendum skuldabréfum varðar þá er hún óveruleg í hlutfalli af eignum sjóðsins og alfarið í formi eignar í erlendum skuldabréfasjóði sem fjárfestir í dreifðu safni erlendra ríkisskuldabréfa. Metin áhrif þeirra áfalla sem dunið hafa á síðan um áramót með falli Straums, SPRON og Sparisjóðabankans leiða til þess að áætluð tryggingafræðileg staða versnar um 1,6% sem þýðir að hún færi úr -7,2% í -8,8% sem hefur ekki bein áhrif á réttindi og lífeyri sjóðfélaga.

Lesa meira

Tímabundin útgreiðsla séreignarsparnaðar - 11. mar. 2009

Samkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi geta sjóðfélagar yngri en 60 ára nú sótt um tímabundna útgreiðslu á séreignarsparnaði sínum. Heimildin gildir frá gildistöku laganna í mars 2009 til 1. október 2010. Lesa meira

Yfirlýsing vegna viðtals í Silfri Egils 8. mars 2009 - 8. mar. 2009

Vegna viðtals í Silfrinu í dag vill undirritaður koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

Í Silfri Egils, sunnudaginn  8. mars 2008, kaus viðmælandi Egils að blanda fjölskyldum forystumanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á miður smekklegan hátt inn í málflutning sinn gegn stjórnendum og starfsemi lífeyrissjóðsins. Jafnframt voru settar fram margar fullyrðingar sem eru efnislega rangar og til þess fallnar að draga upp ranga mynd af því sem um var rætt. Því er alfarið vísað á bug að fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á fjárfestingar sjóðsins t.d. í Kaupþingi en eiginkona undirritaðs hóf störf í Búnaðarbanka Íslands árið 1997, þ.e.a.s. þegar bankinn var enn í eigu ríkisins og eiginkona Gunnars Páls, stjórnarformanns lífeyrissjóðsins, var ráðin til almennra starfa í Kaupþingi áður en hann tók sæti í stjórn bankans. Að starf sonar undirritaðs sem sérfræðings í fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings hafi áhrif á ákvarðanatökur starfsmanna á eignarstýringarsviði lífeyrissjóðsins varðandi einstakar fjárfestingar er fullkomlega fráleitt og á ekki við nokkur rök að styðjast.

Lesa meira