Fréttasafn: febrúar 2009

Fyrirsagnalisti

LÍFEYRISRÉTTINDI ÓBREYTT - 21. feb. 2009

Árið 2008 var ár áfalla á fjármálamörkuðum innanlands og erlendis. Þrátt fyrir fall viðskiptabankanna og verðfall á eignum hefur þó náðst að verja meginhluta af eignasafni sjóðsins. Þannig námu eignir 249 milljörðum í árslok 2008 samanborið við 269 milljarða árið áður. Ávöxtun á árinu 2008 var neikvæð um 11,8%. Hins vegar er hrein raunávöxtun til lengri tíma jákvæð hvort sem litið er til fimm eða tíu ára tímabils.


„Vegna sterkrar stöðu lífeyrissjóðsins fyrir kreppuna og virkrar dreifingar eigna munu lífeyrisgreiðslur og réttindi haldast óbreyttar frá síðustu áramótum. Þetta eru góðar fréttir, ekki síst í ljósi þess að frá 1997 hafa lífeyrisréttindi sjóðfélaga verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar. Tryggingafræðileg staða sjóðsins um sl. áramót var neikvæð um 7,2% sem er innan þeirra marka sem lög mæla fyrir um. Þróun lífeyrisgreiðslna mun ráðast af ástandi á fjármálamörkuðum og áhrifum þess á eignir sjóðsins“ sagði Þorgeir Eyjólfsson forstjóri. Alls fengu 8.662 lífeyrisþegar greiddan lífeyri frá sjóðnum á síðasta ári að fjárhæð 5 milljarðar króna.

Lesa meira

Leiðrétting vegna fréttar Í Morgunblaðinu 10. febrúar 2009 - 10. feb. 2009

Í Morgunblaðinu, í dag 10. febrúar, er fullyrt að skerða þurfi lífeyrisréttindi sjóðfélaga LV um 10%.

Af þessu tilefni vill Lífeyrissjóður verzlunarmanna árétta að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum bendir ekkert til að skerða þurfi lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Sjóðfélögum er bent á frétt á heimasíðu sjóðsins frá 12. nóvember sl. þar sem fram kemur að gerð hafi verið tryggingafræðileg úttekt á stöðu lífeyrissjóðsins á grundvelli áætlaðra stærða. Niðurstöðurnar sýna áætlaða neikvæða stöðu sjóðsins um 9,6% um áramót sem er innan þeirra marka sem lög mæla fyrir um.

Frá 1997 hafa lífeyrisréttindi verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar.

Fréttina frá 12. nóvember má nálgast hér.

Lesa meira