Fréttasafn: 2009

Fyrirsagnalisti

Aukin heimild til úttektar á séreignarsparnaði - 30. des. 2009

Sérstök heimild sjóðfélaga til að taka út séreignarsparnað sinn hefur verið aukin úr einni milljón króna í 2,5 milljónir króna, með heimild í lögum frá Alþingi sem samþykkt voru 21. desember s.l. Heimildin miðast við inneign eins og hún er við gildistöku laganna 1. janúar 2010.

Lesa meira

Aukin upplýsingagjöf og nýjar siða- og samskiptareglur - 17. des. 2009

Lífeyrissjóður verzlunarmanna leggur áherslu á aukna upplýsingagjöf og þjónustu við sjóðfélaga. Liður í þeirri stefnu er opnun nýs vefsvæðis á vef sjóðsins með upplýsingum um LV sem fjárfesti. Einnig samþykkti stjórn sjóðsins nýverið siða- og samskiptareglur fyrir stjórn og starfsmenn sjóðsins. Lesa meira

Sjálfkrafa greiðslujöfnun fasteignalána og þak á lengingu lána - 4. nóv. 2009

Lánþegum sem eru með sjóðfélagalán hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna verður sent bréf í næstu viku með upplýsingum um greiðslujöfnun, áhrif hennar á greiðslu af láni þeirra og með hvaða hætti sé hægt að segja sig frá greiðslujöfnuninni sé þess óskað.

Boðið verður upp á að segja sig frá greiðslujöfnun með því að skrá úrsögn á vef sjóðsins eða með því að senda úrsögn í pósti eða með símbréfi.

Beiðni um úrsögn úr greiðslujöfnun

Nánari upplýsingar um greiðslujöfnun

Lesa meira

Áhrif nýrra laga um greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignaveðlána - 26. okt. 2009

Með nýsamþykktum lögum frá Alþingi hafa verið gerðar breytingar á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga nr. 63/1985. Breytingarnar hafa m.a. áhrif á afborgun verðtryggðra lána, sem mikilvægt er að greiðendur slíkra lána kynni sér vel.

Lesa meira

Í tilefni af fréttum RÚV 20. september s.l. - 21. sep. 2009

Sagt var frá því í kvöldfréttum ríkisútvarpsins og ríkissjónvarpsins, sunnudaginn 20. september, að tveir stjórnarmenn í VR stéttarfélagi hyggist leggja fram kæru á hendur stjórn og stjórnendum Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) til Fjármálaeftirlitsins vegna brota á samþykktum sjóðsins og lögum um lífeyrissjóði. Í fréttinni kemur á engan hátt fram hvaða ákvæði samþykkta eða laga kunni að hafa verið brotin og er engin tilraun gerð af hálfu fréttamanns til að komast að því. Í fréttinni er aðeins vísað almennt til fjárfestinga í skráðum félögum, þ.e. Kaupþingi banka hf. og Exista hf. og ætluð áhrif venslatengsla á þau viðskipti. Þá er einnig vísað til lánveitinga til Bakkavarar hf. eftir fall bankakerfisins sem og að annarleg sjónarmið hafi legið að baki gjaldmiðlavörnum sjóðsins.


Stjórnendur LV harma þær fjölmörgu rangfærslur sem fram komu í fréttinni og vísa alfarið á bug fullyrðingum um brot á lögum og samþykktum sjóðsins sem og að fjárfestingar sjóðsins hafi byggst á öðru en viðskiptalegum forsendum.

Lesa meira

Vextir á nýjum lánum með föstum vöxtum lækka í 5,40% - 3. júl. 2009

Ákveðið hefur verið að lækka vexti á nýjum lánum með föstum vöxtum úr 5,60% í 5,40%.

Yfirlýsing vegna viðtals í Kastljósi miðvikudaginn 24. júní s.l. - 25. jún. 2009

Í viðtali Sigmars B. Guðmundssonar við Jón F. Thoroddsen í Kastljósi, miðvikudaginn 24. júní s.l., víkur Jón m.a. að samskiptum sínum við Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Hann kvaðst hafa það eftir starfsmanni í eignastýringu sjóðsins, með vísan til samtals frá miðjum september 2008, að ekki stæði til að selja hlutabréf sjóðsins í bönkunum, sem hann telur ámælisvert í ljósi óvissu sem þá var um framtíð bankanna.


Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

 

Lífeyrissjóður verzlunarmanna seldi hlutabréf umfram kaup á árinu 2008 fyrir sem nemur sex milljörðum króna og fór sú sala að verulegu leyti fram þegar dró að falli bankanna í október. Sjóðurinn seldi einnig hlutabréf umfram kaup á árinu 2007 eins og fram kemur í ársskýrslu sjóðsins sem eru Jóni og öllum almenningi aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Í þessum viðskiptum innleysti Lífeyrissjóður verzlunarmanna hagnað af þessum eignaflokki, þótt vissulega hafi sjóðurinn tapað á fjárfestingunum við fall bankanna. Þau hlutabréf sem voru seld voru að stærstum hluta bréf í viðskiptabönkunum enda voru þeir stærsti hluti hlutabréfavísitölunnar og þar með hlutfallslega stærstir í eignasafni lífeyrissjóðsins.

Lesa meira

Nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og ráðning framkvæmdastjóra - 23. jún. 2009

Nýr stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur. Stjórnina skipa fjórir fulltrúar frá VR og fjórir fulltrúar frá þeim samtökum atvinnurekanda sem að sjóðnum standa.


Nýlega tóku sæti þrír nýir fulltrúar VR í stjórn sjóðsins, þau Ragnar Önundarson, Ásta Rut Jónasdóttir og Stefanía Magnúsdóttir auk þess er Benedikt Vilhjálmsson fulltrúi VR.  Fyrir voru þau Helgi Magnússon varaformaður tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, Benedikt Kristjánsson tilnefndur af Kaupmannasamtökum Íslands, Bogi Þ. Siguroddsson tilnefndur af Félag íslenskra stórkaupmanna og Hrund Rudolfsdóttir tilnefnd af  Samtökum atvinnulífsins. 

 
Í kjölfar þess að framkvæmdastjórastaða lífeyrissjóðsins var auglýst laus til umsóknar fyrir skemmstu hefur stjórn sjóðsins ráðið Guðmund Þ. Þórhallsson framkvæmdastjóra sjóðsins. Guðmundur hefur starfað hjá sjóðnum sem forstöðumaður eignastýringar undanfarin ár.  Hann er 45 ára með viðskiptafræðipróf frá Háskóla Íslands og kvæntur Guðrúnu Hannesdóttur MA í uppeldis- og menntunarfræðum og eiga þau tvo syni.

Lesa meira

Ítarleg úttekt Capacent staðfestir traustan rekstur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna - 25. maí 2009

Vegna góðrar ávöxtunar undanfarin ár þarf ekki að skerða lífeyrisgreiðslur frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV) þrátt fyrir neikvæða afkomu árið 2008 og varúðarafskrift skuldabréfa innlendra fyrirtækja. Meginhluti eigna sjóðsins er bundinn í traustum eignum sem ætla má að gefi góða ávöxtun þegar til lengri tíma er litið.

Verkefni lífeyrissjóða er að umbreyta iðgjöldum í lífeyri á sem skilvirkastan hátt, meðal annars með því að halda kostnaði í lágmarki. Vinnubrögð stjórnenda LV standast fyllilega þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og rekstrarkostnaðurinn er lægri en almennt gerist hjá sambærilegum sjóðum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í úttekt sem stjórn sjóðsins fól Capacent ráðgjöf að vinna og kynnt var á ársfundi sjóðsins á Grand Hotel í dag, mánudaginn 25. maí 2009.

Lesa meira

Staða forstjóra LV auglýst - 17. maí 2009

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið að auglýsa stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins fljótlega en Þorgeir Eyjólfsson lét á föstudag af störfum framkvæmdastjóra að eigin ósk.

Í tilkynningu frá Gunnari Páli Pálssyni, stjórnarformanni sjóðsins segir, að samkvæmt skipuriti hafi Guðmundur Þ. Þórhallsson verið staðgengill framkvæmdastjóra og muni hann sinna þeim störfum tímabundið þar til að ráðið hefur verið í stöðuna.

Lesa meira

Ný ávöxtunarleið fyrir séreignarsparnað - 7. apr. 2009

Sjóðfélögum standa nú til boða tvær ávöxtunarleiðir fyrir lífeyrissparnað sinn hjá LV.
- Innlánsleið sem er ný ávöxtunarleið þar sem sparnaður er ávaxtaður í innlánum banka og sparisjóða og
- Verðbréfaleið sem hefur verið í boði frá 1999.

Lesa meira

Yfirlýsing í tilefni umfjöllunar Morgunblaðsins um stöðu lífeyriskerfisins og boðsferðir 29. mars 2009 - 29. mar. 2009

Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu, sunnudaginn 29. mars 2009, er umfjöllun sem lýtur að því að raunveruleg staða lífeyrissjóðanna sé mun veikari en opinberar tölur gefa til kynna. Sú umfjöllun sem þar kemur fram á ekki við um stöðu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.


Því til áréttingar er athygli vakin á því að við áramótauppgjör, sem staðfest hefur verið af endurskoðanda og stjórn sjóðsins, var eign sjóðsins í fyrirtækjaskuldabréfum metin með varfærnum hætti og færð verulega niður eins og tölur í eftirfarandi umfjöllun bera með sér. Hvað eign í erlendum skuldabréfum varðar þá er hún óveruleg í hlutfalli af eignum sjóðsins og alfarið í formi eignar í erlendum skuldabréfasjóði sem fjárfestir í dreifðu safni erlendra ríkisskuldabréfa. Metin áhrif þeirra áfalla sem dunið hafa á síðan um áramót með falli Straums, SPRON og Sparisjóðabankans leiða til þess að áætluð tryggingafræðileg staða versnar um 1,6% sem þýðir að hún færi úr -7,2% í -8,8% sem hefur ekki bein áhrif á réttindi og lífeyri sjóðfélaga.

Lesa meira

Tímabundin útgreiðsla séreignarsparnaðar - 11. mar. 2009

Samkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi geta sjóðfélagar yngri en 60 ára nú sótt um tímabundna útgreiðslu á séreignarsparnaði sínum. Heimildin gildir frá gildistöku laganna í mars 2009 til 1. október 2010. Lesa meira

Yfirlýsing vegna viðtals í Silfri Egils 8. mars 2009 - 8. mar. 2009

Vegna viðtals í Silfrinu í dag vill undirritaður koma eftirfarandi ábendingum á framfæri:

Í Silfri Egils, sunnudaginn  8. mars 2008, kaus viðmælandi Egils að blanda fjölskyldum forystumanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á miður smekklegan hátt inn í málflutning sinn gegn stjórnendum og starfsemi lífeyrissjóðsins. Jafnframt voru settar fram margar fullyrðingar sem eru efnislega rangar og til þess fallnar að draga upp ranga mynd af því sem um var rætt. Því er alfarið vísað á bug að fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á fjárfestingar sjóðsins t.d. í Kaupþingi en eiginkona undirritaðs hóf störf í Búnaðarbanka Íslands árið 1997, þ.e.a.s. þegar bankinn var enn í eigu ríkisins og eiginkona Gunnars Páls, stjórnarformanns lífeyrissjóðsins, var ráðin til almennra starfa í Kaupþingi áður en hann tók sæti í stjórn bankans. Að starf sonar undirritaðs sem sérfræðings í fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings hafi áhrif á ákvarðanatökur starfsmanna á eignarstýringarsviði lífeyrissjóðsins varðandi einstakar fjárfestingar er fullkomlega fráleitt og á ekki við nokkur rök að styðjast.

Lesa meira

LÍFEYRISRÉTTINDI ÓBREYTT - 21. feb. 2009

Árið 2008 var ár áfalla á fjármálamörkuðum innanlands og erlendis. Þrátt fyrir fall viðskiptabankanna og verðfall á eignum hefur þó náðst að verja meginhluta af eignasafni sjóðsins. Þannig námu eignir 249 milljörðum í árslok 2008 samanborið við 269 milljarða árið áður. Ávöxtun á árinu 2008 var neikvæð um 11,8%. Hins vegar er hrein raunávöxtun til lengri tíma jákvæð hvort sem litið er til fimm eða tíu ára tímabils.


„Vegna sterkrar stöðu lífeyrissjóðsins fyrir kreppuna og virkrar dreifingar eigna munu lífeyrisgreiðslur og réttindi haldast óbreyttar frá síðustu áramótum. Þetta eru góðar fréttir, ekki síst í ljósi þess að frá 1997 hafa lífeyrisréttindi sjóðfélaga verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar. Tryggingafræðileg staða sjóðsins um sl. áramót var neikvæð um 7,2% sem er innan þeirra marka sem lög mæla fyrir um. Þróun lífeyrisgreiðslna mun ráðast af ástandi á fjármálamörkuðum og áhrifum þess á eignir sjóðsins“ sagði Þorgeir Eyjólfsson forstjóri. Alls fengu 8.662 lífeyrisþegar greiddan lífeyri frá sjóðnum á síðasta ári að fjárhæð 5 milljarðar króna.

Lesa meira

Leiðrétting vegna fréttar Í Morgunblaðinu 10. febrúar 2009 - 10. feb. 2009

Í Morgunblaðinu, í dag 10. febrúar, er fullyrt að skerða þurfi lífeyrisréttindi sjóðfélaga LV um 10%.

Af þessu tilefni vill Lífeyrissjóður verzlunarmanna árétta að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum bendir ekkert til að skerða þurfi lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Sjóðfélögum er bent á frétt á heimasíðu sjóðsins frá 12. nóvember sl. þar sem fram kemur að gerð hafi verið tryggingafræðileg úttekt á stöðu lífeyrissjóðsins á grundvelli áætlaðra stærða. Niðurstöðurnar sýna áætlaða neikvæða stöðu sjóðsins um 9,6% um áramót sem er innan þeirra marka sem lög mæla fyrir um.

Frá 1997 hafa lífeyrisréttindi verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar.

Fréttina frá 12. nóvember má nálgast hér.

Lesa meira

Um breytingar á lögum um lífeyrissjóði - 23. jan. 2009

Í desember sl. samþykkti Alþingi nokkrar breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Meðal breytinga sem varða sjóðfélaga beint er að reglur um útgreiðslu lífeyrissparnaðar hafa verið rýmkaðar og er nú hægt að taka sparnaðinn út í eingreiðslu frá 60 ára aldri í stað sjö ára áður. Þá er nú einnig heimilt að greiða sparnaðinn í eingreiðslu við fráfall sjóðfélaga.

Lesa meira

Upplýsingar v/fréttar Stöðvar 2 15. jan s.l. - 16. jan. 2009

Vegna fréttar Stöðvar 2 þar sem greint var frá að tap lífeyrissjóða væri meira en áður hafi komið fram þar sem fjárfestingar hafi verið afskrifaðar í séreignasjóðum en ekki samtryggingarsjóðum skal áréttað:


  • Eignir séreignardeildar LV eru ávaxtaðar samhliða eignum samtryggingardeildar. Því er afkoma deildanna hin sama og vísast til upplýsinga um afkomu sjóðsins á fyrstu 10 mánuðum ársins í fréttum hér á síðunni frá 11.12.08 og 4.11.08. Inni í þeim útreikningum var búið að gera ráð fyrir afskriftum vegna skuldabréfa fyrirtækja.
  • Í fréttunum á heimasíðu sjóðsins kom fram að lækkun á eignum sjóðsins vegna falls bankanna og fjármálakreppunnar í október næmi 14,4%. Vegna óhagstæðrar þróunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum á fyrstu 10 mánuðum ársins nemur lækkun eigna sjóðsins frá áramótum 23,4%.
  • Skuldabréf fyrirtækja námu 6% af eignum sjóðsins. Gert er ráð fyrir við niðurskriftir að u.þ.b. helmingur þeirra sé tapaður. Eins og fyrr greinir er tekið að fullu tillit til þess við afkomuútreikningana.
  • Sjóðurinn var ekki eigandi að óveðtryggðum skuldabréfum/víxlum nokkurra fyrirtækja sem verið hafa í fréttum vegna rekstrarvandræða; Stoða, Landic Property, Nýsis, Milestone, Baugs, Mosaic Fashions og Atorku.
  • Skuldabréf eftirtaldra útgefenda voru til varúðar færð niður að hluta og/eða öllu leyti; Bakkavör, Exista, Fl Group, Samson og Eimskip.
  • Ekki var talin ástæða til að færa varúðarafskriftir vegna skuldabréfa eftirtalinna útgefenda; Skipti (Síminn), Tryggingamiðstöðin, Landsvirkjun, RARIK, Alfesca, Orkuveita Reykjavíkur, Íslenskir aðalverktakar og HB Grandi.

Af ofangreindu má ljóst vera að frétt Stöðvar 2 um að stórar fjárhæðir vegna fyrirtækjaskuldabréfa eigi eftir að afskrifast á ekki við í tilviki Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Lesa meira