Fréttasafn: nóvember 2008

Fyrirsagnalisti

Greiðslujöfnun fasteignaveðlána - 25. nóv. 2008

Á grundvelli nýrra laga geta lántakendur sjóðfélagalána sótt um greiðslujöfnun í þeim tilgangi að létta greiðslubyrðina tímabundið. Greiðslujöfnun felst í því að á gjalddögum lánsins er greitt samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu en ekki vísitölu neysluverðs. Þó greiðslubyrðin léttist tímabundið mun hún til lengri tíma litið hafa í för með sér aukinn heildarkostnað vaxta og verðbóta fyrir lántaka. Því er ekki sjálfgefið að lántaki kjósi greiðslujöfnun.

Umsóknareyðublað vegna greiðslujöfnunar er aðgengilegt á heimasíðunni og á skrifstofu sjóðsins. Sækja þarf um greiðslujöfnun eigi síðar en ellefu dögum fyrir gjalddaga. Lántakendur eru hvattir til að kynna sér vel upplýsingar um áhrif greiðslujöfnunar sem er að finna á heimasíðu sjóðsins og heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.

Lesa meira

Áætluð staða um áramót - 10. nóv. 2008

Áætlun bendir til óbreyttra lífeyrisréttinda

Þar sem fyrir liggur að yfirstandandi fjármálakreppa hefur leitt til verðfalls á verðbréfasafni lífeyrissjóðsins hefur verið gerð tryggingafræðileg úttekt á stöðu lífeyrissjóðsins miðað við næstu áramót á grundvelli áætlaðra stærða. Niðurstöðurnar sýna áætlaða neikvæða stöðu sjóðsins um 9,6% um næstu áramót. Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveða á um að ef munur eignarliða og skuldbindinga fer umfram 10% verði að grípa til ráðstafana. Reynist niðurstaða ársins í samræmi við áætlun tryggingafræðingsins þarf ekki að koma til lækkunar lífeyris og réttinda um næstu áramót. Frá 1997 hafa lífeyrisréttindi verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar.

Lesa meira

Iðgjöld séreignardeildar bera verðtryggða 7,6% vexti - 5. nóv. 2008

Til að tryggja sem best hagsmuni sjóðfélaga séreignardeildar við núverandi aðstæður á fjármálamörkuðum verða þau iðgjöld sem berast séreignardeild sjóðsins frá og með 1. október sl. ávöxtuð á innlánsreikningi sem nýtur ríkisábyrgðar. Innlánsreikningurinn ber 7,6% vexti auk verðtryggingar og breytast þeir eftir almennu vaxtastigi í landinu.

Þegar aðstæður á fjármálamörkuðum skýrast verður sjóðfélögum gerð grein fyrir nánari útfærslu á fyrirkomulagi á ávöxtun séreignardeildar.

Lesa meira

Tilkynning til sjóðfélaga í séreignardeild - 4. nóv. 2008

Lífeyrissjóður verzlunarmanna vinnur nú að því að meta áhrif fjármálakreppunnar á séreignardeild sjóðsins. Þau áföll sem dunið hafa á íslenskum og erlendum fyrirtækjum munu, með svipuðum hætti og hjá öðrum lífeyrissjóðum, hafa neikvæð áhrif á ávöxtun eigna sjóðsins. Þar vega þungt afskriftir vegna hlutabréfaeignar í fjármálafyrirtækjum og eins má gera ráð fyrir því að hluti af skuldabréfum fjármálafyrirtækja muni tapast. Þá hefur þröng staða ýmissa innlendra fyrirtækja áhrif sem og lækkanir á erlendum fjármálamörkuðum. Eftir sem áður er stærstur hluti eigna séreignardeildar lífeyrissjóðsins í traustum verðbréfum sem munu halda verðgildi sínu og bera góða ávöxtun til framtíðar. Lesa meira