Fréttasafn: 2008

Fyrirsagnalisti

Yfirlýsing í tilefni umfjöllunar Stöðvar 2 í fréttum 28. desember 2008 - 29. des. 2008

Viðmælandi Stöðvar 2 í fréttatíma 28. desember 2008 kaus að blanda fjölskyldum forystumanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á miður smekklegan hátt inn í málflutning sinn gegn stjórnendum og starfsemi lífeyrissjóðsins.

Því er alfarið vísað á bug að fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á fjárfestingar sjóðsins í Kaupþingi en eiginkona mín hóf störf í Búnaðarbanka Íslands árið 1997, þ.e.a.s. þegar bankinn var enn í eigu ríkisins og eiginkona Gunnars Páls var ráðin til almennra starfa í Kaupþingi áður en hann tók sæti í stjórn bankans. Að starf sonar míns sem sérfræðings í fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings hafi áhrif á ákvarðanatökur starfsmanna á eignarstýringarsviði lífeyrissjóðsins varðandi einstakar fjárfestingar er fullkomlega fráleitt.

Þar sem verið er að gera eignarhlut Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í Kaupþingi tortryggilegan vegna fyrrgreindra tengsla ber að árétta að hann var svipaður og annarra stórra lífeyrissjóða. Þannig átti Lífeyrissjóður verzlunarmanna 3,56% í Kaupþingi í apríl 2008 en Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins 3,61% og Gildi lífeyrissjóður 3,22% á sama tíma.

Lesa meira

Áhrif fjármálakreppunnar á eignir LV - 11. des. 2008

Vegna umræðu á netinu viljum við árétta upplýsingar sem birtar voru á heimasíðu lífeyrissjóðsins í byrjun nóvember um áhrif fjármálakreppunnar á séreignardeild sjóðsins en eignir séreignardeildarinnar eru ávaxtaðar með hliðstæðum hætti og aðrar eignir lífeyrissjóðsins. Í fréttinni kom fram að lækkun á eignum sjóðsins vegna fjármálakreppunnar næmi 14,4%. Vegna óhagstæðrar þróunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum nemur lækkun eigna sjóðsins frá áramótum 23,4% í lok október. Jafnframt er greint frá að 5 ára árleg ávöxtun sjóðsins hafi verið 15,8% við síðustu áramót sem er önnur hæsta meðalávöxtun lífeyrissjóðanna á því tímabili.

Lesa meira

Leiðrétting við útreikninga um uppsöfnun og verðmæti iðgjalda - 2. des. 2008

Á netinu hefur gengið tölvupóstur þar sem fjallað er með villandi hætti um uppsöfnun iðgjalda sjóðfélaga til lífeyrissjóða og verðmæti þeirra við 67 ára aldur. Af þessu tilefni vill lífeyrissjóðurinn koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:

Í útreikningum eru notaðir 8% raunvextir en ekki 3,5% raunvextir sem ákveðnir eru í reglugerð og tryggingastærðfræðingum er gert að nota við útreikninga sína.

Ekki er í útreikningunum tekið tillit til forsendna um dánarlíkur, örorkulíkur, hjúskaparlíkur og barneignalíkur. Þannig greiðir lífeyrissjóðurinn ævilangan ellilífeyrir auk þess sem hann veitir ríkulegan rétt til örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris vegna orkutaps sjóðfélaga eða fráfalls.

Það er hlutverk tryggingastærðfræðinga að gera úttektir á fjárhag lífeyrissjóðanna og byggir vinna þeirra eins og áður segir á reglugerð. Starfsmenn eða stjórnarmenn lífeyrissjóða eiga þar enga hlutdeild.

Mismunur þess að reikna með mismunandi ávöxtun sýnir sig best í að 1 króna verður að 3 krónum á 33 ára tímabili sé reiknað með 3,5% raunvöxtum - en að 12 krónum á jafnlöngum tíma sé reiknað með 8% raunvöxtum.

Lesa meira

Greiðslujöfnun fasteignaveðlána - 25. nóv. 2008

Á grundvelli nýrra laga geta lántakendur sjóðfélagalána sótt um greiðslujöfnun í þeim tilgangi að létta greiðslubyrðina tímabundið. Greiðslujöfnun felst í því að á gjalddögum lánsins er greitt samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu en ekki vísitölu neysluverðs. Þó greiðslubyrðin léttist tímabundið mun hún til lengri tíma litið hafa í för með sér aukinn heildarkostnað vaxta og verðbóta fyrir lántaka. Því er ekki sjálfgefið að lántaki kjósi greiðslujöfnun.

Umsóknareyðublað vegna greiðslujöfnunar er aðgengilegt á heimasíðunni og á skrifstofu sjóðsins. Sækja þarf um greiðslujöfnun eigi síðar en ellefu dögum fyrir gjalddaga. Lántakendur eru hvattir til að kynna sér vel upplýsingar um áhrif greiðslujöfnunar sem er að finna á heimasíðu sjóðsins og heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.

Lesa meira

Áætluð staða um áramót - 10. nóv. 2008

Áætlun bendir til óbreyttra lífeyrisréttinda

Þar sem fyrir liggur að yfirstandandi fjármálakreppa hefur leitt til verðfalls á verðbréfasafni lífeyrissjóðsins hefur verið gerð tryggingafræðileg úttekt á stöðu lífeyrissjóðsins miðað við næstu áramót á grundvelli áætlaðra stærða. Niðurstöðurnar sýna áætlaða neikvæða stöðu sjóðsins um 9,6% um næstu áramót. Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða kveða á um að ef munur eignarliða og skuldbindinga fer umfram 10% verði að grípa til ráðstafana. Reynist niðurstaða ársins í samræmi við áætlun tryggingafræðingsins þarf ekki að koma til lækkunar lífeyris og réttinda um næstu áramót. Frá 1997 hafa lífeyrisréttindi verið hækkuð um 21,1% umfram verðlagsbreytingar.

Lesa meira

Iðgjöld séreignardeildar bera verðtryggða 7,6% vexti - 5. nóv. 2008

Til að tryggja sem best hagsmuni sjóðfélaga séreignardeildar við núverandi aðstæður á fjármálamörkuðum verða þau iðgjöld sem berast séreignardeild sjóðsins frá og með 1. október sl. ávöxtuð á innlánsreikningi sem nýtur ríkisábyrgðar. Innlánsreikningurinn ber 7,6% vexti auk verðtryggingar og breytast þeir eftir almennu vaxtastigi í landinu.

Þegar aðstæður á fjármálamörkuðum skýrast verður sjóðfélögum gerð grein fyrir nánari útfærslu á fyrirkomulagi á ávöxtun séreignardeildar.

Lesa meira

Tilkynning til sjóðfélaga í séreignardeild - 4. nóv. 2008

Lífeyrissjóður verzlunarmanna vinnur nú að því að meta áhrif fjármálakreppunnar á séreignardeild sjóðsins. Þau áföll sem dunið hafa á íslenskum og erlendum fyrirtækjum munu, með svipuðum hætti og hjá öðrum lífeyrissjóðum, hafa neikvæð áhrif á ávöxtun eigna sjóðsins. Þar vega þungt afskriftir vegna hlutabréfaeignar í fjármálafyrirtækjum og eins má gera ráð fyrir því að hluti af skuldabréfum fjármálafyrirtækja muni tapast. Þá hefur þröng staða ýmissa innlendra fyrirtækja áhrif sem og lækkanir á erlendum fjármálamörkuðum. Eftir sem áður er stærstur hluti eigna séreignardeildar lífeyrissjóðsins í traustum verðbréfum sem munu halda verðgildi sínu og bera góða ávöxtun til framtíðar. Lesa meira

Vextir á nýjum lánum með föstum vöxtum lækka í 5,60% - 14. okt. 2008

Ákveðið hefur verið að lækka vexti á nýjum lánum með föstum vöxtum úr 5,95% í 5,60%. Lesa meira

Greiðslur í Séreignardeild. - 10. okt. 2008

Í ljósi aðstæðna á verðbréfamörkuðum verður útreikningur í séreignardeild leiðréttur með tilliti til áætlaðrar verðlækkunar á mörkuðum. Þær greiðslur sem sjóðnum berast framvegis munu því ekki rýrna vegna þeirrar lækkunar sem þegar er fram komin.  Lesa meira

Starfsemi á fyrri árshelmingi 2008 - 25. sep. 2008

"Fyrri árshelmingur 2008 einkenndist af verulegum lækkunum á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum. Þannig lækkaði innlent hlutabréfasafn lífeyrissjóðsins um 24,0% á tímabilinu en til samanburðar lækkaði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 30,7%. Á sama tíma lækkuðu erlendir hlutabréfamarkaðir að meðaltali um 12,1%. Þessi þróun leiddi til 1,6% neikvæðrar ávöxtunar á eignum lífeyrissjóðsins á fyrri hluta ársins eða sem svarar 8,9% neikvæðri raunávöxtun á tímabilinu" segir Þorgeir Eyjólfsson forstjóri LV. "Ekki mun koma til lækkunar réttinda um áramót nema hlutabréfamarkaðir lækki verulega frá því sem var um mitt ár" sagði Þorgeir að lokum. Lesa meira

LV varð fyrstur íslenskra stofnanafjárfesta aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um ábyrgar fjárfestingar - 7. mar. 2008

Í reglunum er fjallað um hvernig áhersla á Umhverfisleg og Félagsleg málefni auk góðra Stjórnarhátta fyrirtækja (UFS) getur stuðlað að bættum fjárfestingarárangri verðbréfasafna um leið og hagsmunir fjárfesta og markmið þjóðfélagsins í víðara samhengi geta farið saman. Lesa meira