Áhættustefna

Markmið með áhættustefnu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er að auka öryggi í rekstri sjóðsins. Í áhættustefnu felst að stjórn, stjórnendur og aðrir starfsmenn meta áhættu og viðeigandi áhættuþætti við ákvarðanatöku eftir því sem eðlilegt er hverju sinni.

Skilgreining áhættu

Áhætta í starfsemi sjóðsins er skilgreind, til samræmis við skilgreiningu í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins, sem öll þau atvik sem auka marktækt líkurnar á því að réttindi sjóðfélaga skerðist til skemmri eða lengri tíma. Nær þessi áhætta bæði til atvika sem lúta að eignum og skuldbindingum sjóðsins sem og rekstrarlegum þáttum.

Samspil áhættustefnu og fjárfestingarstefnu

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðsins gegnir mikilvægu hlutverki við áhættustýringu hans. Þar er m.a. markaður rammi fyrir ráðstöfun fjármuna sjóðsins eftir eignaflokkum og takmarkanir á mótaðilaáhættu. Við mótun áhættustefnu fyrir sjóðinn liggur til grundvallar mat á núverandi stöðu sjóðsins og þróun til framtíðar, til að mynda hvað varðar vænt greiðsluflæði, þróun lífeyrisskuldbindinga og samsetningu sjóðfélaga. Einnig er framkvæmd greining á áhrifum mismunandi eignasamsetningar eftir eignaflokkum á vænta áhættu og ávöxtun, t.a.m. á grundvelli svokallaðrar framfallsgreiningar.

Skipulag áhættustýringar

Hlutverk stjórnar samkvæmt lögum er að hafa eftirlit með starfsemi sjóðsins. Liður í því eftirliti er samþykkt og innleiðing áhættustefnu. Á grundvelli hennar felur stjórn hans framkvæmdastjóra og eftir atvikum öðru starfsfólki sjóðsins umsjón með framkvæmd stefnunnar. Eftirlit stjórnar með framkvæmd stefnunnar byggir m.a. á reglulegri upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar, upplýsingagjöf starfsmanna og yfirmanns áhættustýringar til framkvæmdastjóra og stjórnar, árlegri úttekt innri endurskoðunar og starfi endurskoðunarnefndar sjóðsins. Þá hefur endurskoðunarnefnd, endurskoðandi og innri endurskoðandi sjóðsins mikilvægu hlutverki að gegna við eftirlit með framkvæmd áhættustefnunnar.

Í áhættustefnu kemur fram að áhættustjóri heyrir beint undir framkvæmdastjóra. Hann hefur jafnframt heimild til að veita stjórn og endurskoðunarnefnd beint og milliliðalaust upplýsingar sem lúta að framkvæmd áhættustefnu og áhættustýringar.

Leiðir til að stýra áhættu

Í áhættustefnunni eru skilgreindar fimm leiðir til að stýra og/eða eftir atvikum takmarka áhættu. Þær eru:

1. Forðast áhættu

Í rekstri sjóðsins er leitast við að komast hjá áhættu eftir því sem kostur er. Hér er reynt að útiloka áhættu, t.d. með því að fjárfesta ekki í tilteknum flokki eigna eða tilteknum verðbréfum. Áður en þessi aðferð er valin er æskilegt að lagt sé mat á hvaða tækifærum er hafnað og hvaða áhrif það kann að hafa, bæði á mögulegan ávinning og kostnað. 

2. Draga úr áhættu

Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að útiloka áhættu með öllu í starfsemi lífeyrissjóðs og viss áhættutaka við stýringu eigna getur verið tilgangur í sjálfum sér. Í þeim tilvikum sem ekki er hægt að stýra að fullu eða útiloka áhættu er leitast við að draga úr henni eða stýra með sem hagkvæmustum hætti.

Ein leið til að draga úr áhættu er áhættudreifing eigna, t.d. með að velja saman eignaflokka sem hafa takmarkaða innbyrðis fylgni. Með áhættudreifingu er markmiðið m.a. að minnka líkurnar á tapi og að takmarka það tap sem einstakir atburðir geta valdið.

3. Yfirfæra áhættu

Hér er yfirleitt um varnir eða tryggingar að ræða, þar sem annar aðili tekur að sér áhættuna að hluta eða öllu leyti gegn gjaldi. Yfirleitt fer kostnaðurinn eftir því að hve miklu leyti áhættan er yfirfærð og hverjar líkur eru á tapi. Hér þarf sérstaklega að huga að markmiðum hvors aðila um sig, að sá sem tekur við áhættunni skilji og hafi burði til að takast á við hana og í hvaða samhengi vörnin verður virk.

4. Meðvituð áhættutaka

Hér er átt við áhættu sem er þekkt og ásættanleg eða óhjákvæmileg í rekstri lífeyrissjóðs. Þetta kann að vera nauðsynlegt til að ná markmiðum um ávöxtun eða ef ekki er mögulegt eða hagkvæmt að beita áhættuvörnum. Í þessu sambandi þarf að huga að þeim möguleikum sem eru fyrir hendi, hvort áhættan skuli alltaf vera opin, eða tímabundin

5. Stýra áhættu

Þar sem því verður við komið er áhættu sjóðsins stýrt með beinum aðgerðum sem fara eftir eðli máls hverju sinni.

Flokkar áhættu

Mikilvægur þáttur í áhættustefnu er að tryggja eins vel og kostur er góða yfirsýn yfir þá áhættuþætti sem einkum skipta máli í rekstri sjóðsins. Í því skyni er áhættunni skipt upp í fjóra megin flokka:

  1. Fjárhagslega áhættu (markaðsáhætta)
  2. Mótaðilaáhætta
  3. Lífeyristryggingaáhætta (skuldbindingaáhætta)
  4. Lausafjáráhætta
  5. Rekstraráhætta

Til upplýsingar er hér gerð nánari grein fyrir nokkrum áhættuþáttum.

1. Fjárhagsleg áhætta

Fjárhagslegri áhættu er skipt í sjö undirflokka: 1) vaxta- og endurfjárfestingaráhætta, 2) uppgreiðsluáhætta, 3) markaðsáhætta, 4) gjaldmiðlaáhætta, 5) ósamræmisáhætta, 6) verðbólguáhætta og 7) áhætta vegna eigna og skuldbindinga utan efnahagsreiknings.

Fylgst er með einstökum áhættuþáttum með sérstökum úttektum, skýrsluskilum og mælingum. Til nánari glöggvunar eru hér gerð almenn grein fyrir einstökum undirflokkum fjárhagslegrar áhættu í rekstri sjóðsins.

a) Vaxta og endurfjárfestingaáhætta

Hættan á að breytingar á vöxtum og lögun vaxtaferils leiði til lækkunar á virði skuldabréfa. Ef vextir hækka getur sjóðurinn þurft að innleysa gengistap við sölu á skuldabréfum sem keypt voru á lægri vöxtum. Jafnframt getur lækkandi vaxtaumhverfi leitt til lægri kaupkröfu nýrra skuldabréfa þegar núverandi skuldabréf eru á gjalddaga og þegar fjárfest er fyrir innflæði (endurfjárfestingaáhætta).

b) Uppgreiðsluáhætta

Hluti af skuldabréfaeign sjóðsins er með uppgreiðsluheimild. Það felur í sér uppgreiðsluáhættu sem felst í því að skuldabréf verði greidd upp fyrir lokagjalddaga og lífeyrissjóðurinn þurfi því mögulega að endurfjárfesta á lægri vöxtum

c) Markaðsáhætta

Hætta á lækkun markaðsvirðis verðbréfa með breytilegar tekjur, svo sem hlutabréfa og hlutdeildarskírteina sjóða. VaR (Value at Risk) er notað til að meta líkur á tilteknu tapi miðað við eignasafn sjóðsins og söguleg gögn. Staðalfrávik er notað til að meta flökt/sveiflur eignasafna og með því er unnt að skoða sviðsmyndir til að meta markaðsáhættu.

d) Gjaldmiðlaáhætta

Gjaldmiðlaáhætta sjóðsins felst í hættu á að sveiflur á gengi krónunnar annars vegar og erlendra myntkrossa hins vegar geti haft neikvæð áhrif á eignastöðu sjóðsins. Þessari áhættu er hægt að stýra með framvirkum samningum og valréttum.

e) Ósamræmisáhætta

Ósamræmisáhætta vísar til ósamræmis í breytingum á markaðsverði eigna annars vegar og skuldbindinga hins vegar. Dæmi um áhættuþátt er verðtrygging. Lífeyrisréttindi eru verðtryggðar skuldbindingar, en eignasafn er sjaldnast verðtryggt að fullu. Ýmsar eignir hafa þó eiginleika óbeinnar verðtryggingar. Álagspróf eða næmnipróf eru dæmigerð próf fyrir ósamræmi eigna og skuldbindinga þar sem leitast er við að meta næmni eigna og skuldbindinga fyrir breytingum á vöxtum, verðbólgu og öðrum þáttum sem eru sameiginlegir eignum og skuldbindingum.

f)  Verðbólguáhætta

Verðbólguáhætta er sú hætta að verðbólga valdi hækkun á lífeyrisskuldbindingum umfram raunávöxtun óverðtryggðra eigna. Verðbólguáhætta er viðvarandi í rekstri sjóðsins þar sem skuldbindingar eru að fullu verðtryggðar en eignasafnið er hins vegar að hluta ávaxtað í óverðtryggðum verðbréfum.

g) Áhætta vegna eigna utan efnahagsreiknings

Hætta á breytingum á undirliggjandi eignum eða skuldbindingum utan efnahags. Framvirkir gjaldmiðlasamningar, afleiður og skuldbindandi samningar um greiðslur í framtakssjóði eru dæmi um eignir og skuldbindingar utan efnahagsreiknings.

2. Mótaðilaáhætta

Með greiningu á mótaðilaáhættu er leitast við að meta hættuna á því að gagnaðilar fjármálagernings standi ekki við skuldbindingar sínar. Undir mótaðilaáhættu fellur m.a. útlánaáhætta, sem er sú áhætta að mótaðilar standi ekki skil á greiðslum af fjármálagerningum. Dæmi um slíka fjármálagerninga eru skuldabréf, víxlar, skuldaviðurkenningar og innlán, en dæmi um aðra samninga sem geta falið í sér útlánaígildi eru afleiðusamningar. Útlánaáhætta er metin á grundvelli mats á lánshæfi stærstu útgefenda.

Undir mótaðilaáhættu fellur einnig afhendingar- og uppgjörsáhætta, þ.e. hættan á að mótaðili afhendi ekki verðbréf í samræmi við samning.

3. Lífeyrisáhætta

Lífeyristryggingaáhætta er skilgreind sem hættan á að lífeyrissjóðurinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Með því að framkvæma svokallaðar tölfræðilegar hermanir (e. simulation) á eignum og skuldbindingum sjóðsins miðað við mismunandi forsendur er hægt að meta líkur á að sjóðurinn þurfi að breyta réttindum, sbr. nánari ákvæði laga og samþykkta sjóðsins.

4. Lausafjáráhætta

Lausafjáráhættu er skipt í seljanleikaáhættu annars vegar og útstreymisáhættu hins vegar. Seljanleikahættan lýtur að áhættunni á því að ekki sé unnt að selja tiltekna fjármálagerninga innan tiltekins tíma, skv. þörfum sjóðsins. Útstreymisáhætta vísar hins vegar til hættunnar á því að ekki sé unnt að standa við greiðslur vegna lífeyrisskuldbindinga eða uppgjörs samninga sem lífeyrissjóðurinn hefur undirgengist, t.d. vegna verðbréfaviðskipta.

5. Rekstraráhætta

Undir rekstraráhættu fellur m.a. hættan á tapi sem orsakast getur af ófullnægjandi innri reglum, verkferlum, kerfum eða vegna ytri atburða í rekstrarumhverfi lífeyrissjóðsins sem og starfsmannaáhætta. Skilvirkar leiðir til að takmarka rekstraráhættu eru skýrar innri reglur, starfslýsingar, verkferlar sem skilgreina verklag við helstu verkþætti og skýrt skipurit.

Undir rekstraráhættu flokkast jafnframt pólitísk áhætta, en hún er skilgreind sem áhættan af því að aðgerðir eða aðgerðarleysi stjórnvalda auki lífeyrisbyrði sjóðsins eða skerði eignir hans, auk annarra neikvæðra áhrifa sem óvissa um mögulegar stjórnvaldsaðgerðir kann að skapa. Undir þetta falla t.a.m. breytingar á lögum eða reglum um starfsemina eða túlkun þeirra sem valda verulegum breytingum á starfseminni. Þetta kunna t.d. að vera breytingar á lögum um lífeyrissjóði, uppgjörsreglum, skattalögum, lögum um aðra aðila sem hafa áhrif á starfsemi sjóðsins, eftirliti og eftirlitsreglum og heimildum til fjárfestinga.