Greiðslujöfnun

Með lögum samþykktum frá Alþingi voru gerðar breytingar á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga nr. 63/1985. Breytingarnar hafa m.a. áhrif á afborgun verðtryggðra lána, sem mikilvægt er að greiðendur slíkra lána kynni sér vel.

Greiðslujöfnun felur það í sér að afborgun af verðtryggðum lánum tekur mið af sérstakri greiðslujöfnunarvísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar mánaðarlega. Vísitalan samanstendur af launavísitölu sem vegin er með atvinnustigi.

Það þýðir að fjárhæð afborgunar tekur mið að þróun greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverð til verðtryggingar. Höfuðstóll skuldarinnar er hins vegar áfram verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs sem og sá hluti afborgunar lánsins sem kann að frestast við lækkun afborgana vegna tengingar þeirra við greiðslujöfnunarvísitölu.

Mikilvæg atriði varðandi greiðslujöfnun:

  • Greiðslujöfnun tekur sjálfkrafa gildi frá og með gjalddaga í desember næstkomandi.
  • Sá hluti afborgunar sem er frestað á grundvelli greiðslujöfnunarvísitölu leggst við höfuðstól lánsins ásamt vöxtum og verðbótum.
  • Þak er sett á greiðslujöfnun lána, lenging lánstíma vegna greiðslujöfnunar verður þannig að hámarki 3 ár.
  • Greiðslujöfnun nær ekki til lána í vanskilum. Þeir sem eru með sjóðfélagalán í vanskilum eru hvattir til að hafa samband við sjóðinn til að fara yfir stöðu sinna mála.
  • Ef afborganir lána hafa verið frystar að fullu eða að hluta verður greiðslujöfnun virk þegar því tímabili lýkur.
  • Máli skiptir að hver og einn meti það út frá eigin forsendum hvort greiðslujöfnun lána henti hans aðstæðum.
  • Með almennri greiðslujöfnun íbúðalána verður kostnaður lántakans meiri þar sem höfuðstóll greiðist hægar niður og vaxtakostnaður því meiri. Á móti kann að koma möguleg afskrift eftirstöðva hluta greiðslujöfnunarreiknings.
  • Þeir sem kjósa að nýta sér ekki greiðslujöfnun þurfa að segja sig frá henni með skriflegri umsókn.

Upplýsingar til sjóðfélaga

Lífeyrissjóður verzlunarmanna mun senda þeim sem eru með fasteignalán hjá sjóðnum bréf fyrir 15. nóvember n.k. með nánari upplýsingum um greiðslujöfnunina. Einnig verða birtar nánari upplýsingar á vef sjóðsins eftir því sem tilefni gefst til.

Nánari upplýsingar í þjónustuveri sjóðsins í síma 580 4000.

Hvað felst í greiðslujöfnun

Greiðslujöfnun felur það í sér að afborgun af verðtryggðum lánum tekur mið af sérstakri greiðslujöfnunarvísitölu sem Hagstofa Íslands reiknar mánaðarlega. Vísitalan samanstendur af launavísitölu sem vegin er með atvinnustigi.

Það þýðir að fjárhæð afborgunar tekur mið að þróun greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverð til verðtryggingar. Höfuðstóll skuldarinnar er hins vegar áfram verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs sem og sá hluti afborgunar lánsins sem kann að frestast við lækkun afborgana vegna tengingar þeirra við greiðslujöfnunarvísitölu.

Ástæða þess að boðið er upp á að tengja afborganir við greiðslujöfnunarvísitölu er sú að hún hefur hækkað mun minna en vísitala neysluverðs. Þar sem miðað er við greiðslujöfnunarvísitöluna eins og hún stóð 1. janúar 2008 verður lækkun á afborgun umtalsverð. Það byggir á því að almennt verðlag hefur hækkað mun meira en meðallaun auk þess sem atvinnuleysi hefur farið vaxandi á tímabilinu. Bréf með upplýsingum um áhrif greiðslujöfnunar á lán hvers og eins verður sent sjóðfélögum í nóvember.

Þegar til lengri tíma er litið er hins vegar almennt gert ráð fyrir því að meðallaun (launavísitala) hækki umfram meðalhækkun verðlags (vísitölu neysluverðs). Það má því gera ráð fyrir því að afborgun lána sem miða við greiðslujöfnunarvísitölu hækki umfram hækkun verðlags í framtíðinni, að því gefnu að hagvöxtur taki vel við sér. Því geta mánaðarlegar greiðslur í framtíðinni orðið hærri en með núverandi fyrirkomulagi.

Með almennri greiðslujöfnun íbúðalána verður kostnaður lántakans meiri þar sem höfuðstóll greiðist hægar niður og vaxtakostnaður því meiri. Á móti kann að koma möguleg afskrift eftirstöðva hluta greiðslujöfnunarreiknings. Möguleg afskrift veltur m.a. á lengd lánstíma sem og þróun verðlags, launa og atvinnustigs í framtíðinni.

Lán í vanskilum

Greiðslujöfnun nær ekki til lána í vanskilum. Þeir sem eru með sjóðfélagalán í vanskilum eru hvattir tilað hafa samband við sjóðinn og leita samninga um leiðir til að koma láninu í skil. Þegar lán er komið í skil getur sjóðfélagi fengið greiðslujöfnun á lánið með því að fylla út umsókn.

Lán í frystingu

Þau lán sem eru í frystingu verða sjálfkrafa sett í greiðslujöfnun þegar frystingin rennur út og þarf því ekki að sækja um það sérstaklega.

Að segja sig frá greiðslujöfnun

Þeir sem ekki kjósa greiðslujöfnun þurfa að tilkynna það sjóðnum skriflega með umsókn fyrir 19. nóvember vegna gjalddaga í desember.

Þótt lán sé komið í greiðslujöfnun getur lántaki hvenær sem er sagt sig frá henni með umsókn til sjóðsins sem þarf að berast eigi síðar en 10 dögum fyrir næsta gjalddaga lánsins.

Skilyrði fyrir slíkri breytingu er að lánið sé í fullum skilum. Sé skuld á jöfnunarreikningi þegar slík ákvörðun er tekin leggst hún við höfuðstól lánsins.

Þeir sem hafa sagt sig frá greiðslujöfnun en sjá síðar að þeir kunni að hafa hag af henni, t.d. vegna breyttra aðstæðna geta sótt um að fá greiðslujöfnun.

Hvað hentar hverjum?

Mikilvægt er fyrir hvern og einn að skoða það út frá eigin forsendum hvort greiðslujöfnun henti honum eða ekki.

Nánari upplýsingar á island.is og á vef Félagsmálaráðuneytisins