Lækkun greiðslubyrði eða greiðsluhlé

Sjóðfélagar geta sótt um greiðsluhlé eða lækkun afborgana í sex mánuði, ef lánin eru í skilum.

Sótt er um á sjóðfélagavefnum

Greiðsluhlé afborgana

Greiðsluhlé er í raun skilmálabreyting á skuldabréfi. Hún felur það í sér að afborganir í næstu sex mánuði falla niður, þ.e. ekki er greitt af láninu þann tíma sem greiðsluhlé varir. Á sama tíma eru hins vegar áfram reiknaðir samningsvextir og verðbætur samkvæmt skilmálum skuldabréfsins. Uppsafnaðir vextir og verðbætur bætast þannig við skuldina vegna skuldabréfsins eins og hún stendur í dag. Það leiðir til nokkurrar hækkunar á mánaðarlegum greiðslum þegar greiðsluhlé lýkur. Að greiðsluhlé liðnu er skuldara sendur greiðsluseðill með almennum hætti.

Lækkuð greiðslubyrði afborgana

Með tímabundinni lækkun á afborgunum af sjóðfélagalánum LV er greiðendum í greiðsluerfiðleikum gefinn kostur á að greiða lækkaðar afborganir af lánum tímabundið í stað þess að greiða reglulegar afborganir. Greiðslurnar geta verið allt frá 20% af reglulegri afborgun, en þó aldrei lægri en kr. 20.000.- á mánuði.

Lækkaðar greiðslur afborgana eru í raun skilmálabreyting á skuldabréfi sem felur í sér að skuldari greiðir tiltekna umsamda fjárhæð í stað reglulegra afborgana.

Að loknu umsömdu tímabili þar sem greiðslubyrði er lækkuð greiðir skuldari vexti og afborganir í samræmi við skilmála skuldabréfsins. Á þeim tíma sem afborganir eru lækkaðar safnast upp og leggjast við höfuðstól lánsins vextir og verðbætur samkvæmt skilmálum skuldabréfsins, að því marki sem þær hafa ekki greiðst með lækkuðum afborgunum. Það leiðir til nokkurrar hækkunar á mánaðarlegum greiðslum að loknu því tímabili sem greiðslubyrði lánsins er lækkuð.

Umsókn um greiðsluhlé eða lækkun afborgana

  • Sótt er um rafrænt á sjóðfélagavefnum. Skuldari undirritar skjal, skilmálabreytingu, sem þinglýst er sem viðauka við viðkomandi skuldabréf. Einnig þarf samþykki samskuldara og maka eftir því sem við á.
  • Greiðsluhlé felur það í sér að afborganir næstu sex mánuði frestast, þ.e. ekki er greitt af láninu þann tíma sem greiðsluhlé varir. Hægt er að stytta greiðsluhlé með því að senda beiðni um það til sjóðsins.

  • Það er skilyrði fyrir tímabundnu greiðsluhléi eða lækkun afborgana að fyrir liggi samþykki þinglýstra eigenda hinnar veðsettu eignar, einnig samþykki samskuldara og maka eftir því sem við á. Ef um lánsveð er að ræða þarf samþykki þinglýsts eiganda (þinglýstra eigenda ef fleiri en einn) hinnar veðsettu eignar.

  • Skilyrði fyrir samþykki umsóknar er að lán sé í skilum. Ekki er gerð krafa um tiltekið veðrými.

  • Með umsókn þarf að fylgja staðgreiðsluskrá vegna síðustu sex mánaða sem nálgast má inn á skattur.is. Ef lán frá öðrum lánastofnunum eru áhvílandi á eign, þá þurfa að fylgja síðustu greiðsluseðlar þar sem fram kemur uppreiknuð staða lána. Greiðsluseðla má yfirleitt finna í heimabanka.

  • Kostnaður:
       Þinglýsingargjald í ríkissjóð kr. 2.500.-
       Veðbandayfirlit kr. 1.200.-