Skilmála- og skuldbreyting

Óvænt áföll geta skert tekjur þannig að sjóðfélagar eigi í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum eða fyrirsjáanlega í náinni framtíð. Þá er mikilvægt að hafa samband við sjóðinn og leita lausna.

Ýmis úrræði geta verið til þegar sjóðfélagar lenda í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum. Afar mikilvægt er að þegar slíkt gerist, eða fyrirsjáanlegt er að erfiðleikar séu framundan, hafi sjóðfélagar samband við sjóðinn sem fyrst svo hægt sé að leita hentugra lausna og koma þannig í veg fyrir aukinn kostnað og áhyggjur.

Hér á eftir er yfirlit yfir þau ráð sem sjóðfélögum standa til boða (Ath!: Hægt er að skoða í lánareiknivélinni hvaða áhrif hver og einn þessara möguleika hefur á lánið):

Lánstími lengdur í allt að 40 ár frá útgáfudegi

Lántakendum með lán til skemmri tíma en 40 ára býðst að lengja lánstímann í 40 ár og lækka þannig greiðslubyrðina.

Hafa verður í huga að þessu fylgir sá ókostur að lánið verður dýrara þegar upp er staðið því vextir og eftir atvikum verðbætur reiknast á lánið yfir lengri tíma.

Beiðni um skilmálabreytingu á láni

Láni með jöfnum afborgunum breytt í jafngreiðslulán

Oft er greiðslubyrði lána með jöfnum afborgunum nokkuð þyngri en af jafngreiðslulánum. Ef lán er með föstum vöxtum er hægt að lækka greiðslubyrðina með því að óska eftir breytingu á skilmálum láns með jöfnum afborgunum þannig að afborganir miðist við jafnar greiðslur (annuitet).

Við þessa breytingu þarf að hafa í huga að annuitetslán eru að endingu dýrari, þ.e. heildargreiðsla vaxta og verðbóta verður hærri yfir lánstímann þar sem afborgun af höfuðstól lánsins er lægri til að byrja með.

Beiðni um skilmálabreytingu á láni

Greiðsluhlé

Með greiðsluhlé afborgana af sjóðfélagalánum LV er greiðendum veitt svigrúm til að bregðast við tekjusamdrætti sem þeir kunna að verða fyrir vegna þess samdráttar sem nú er í hagkerfinu og rekstri fjölmargra fyrirtækja vegna COVID-19.

Nánari upplýsingar um greiðsluhlé.

Fjölgun gjalddaga

Fyrir þá sem eru með afborganir sjaldnar en á eins mánaða fresti, t.d. með þrjá mánuði milli gjalddaga, getur verið ráðlegt að breyta í mánaðarlegar afborganir.

Reynsla margra er sú að með þeim hætti eru greiðslur vegna lána í betri takti við tekjur heimilisins og því minni hætta á að til vanskila komi.

Beiðni um skilmálabreytingu á láni

Skuldbreyting

Skuldbreyting á við ef um veruleg vanskil er að ræða og ólíklegt er að önnur úrræði leysi greiðsluvandann. Skuldbreyting er yfirleitt ekki gerð oftar en einu sinni fyrir hvert lán og felst hún í því að uppsöfnuðum vanskilum er bætt við eftirstöðvar lánsins. Möguleiki til að skuldbreyta getur einnig takmarkast af veðrými og samþykki síðari veðhafa.

Greiðslujöfnun

Tilgangur greiðslujöfnunar er að létta tímabundið greiðslubyrðina vegna afborgana fasteignaveðlána.

Greiðslujöfnun felst í því að greiðslujöfnunarvísitala er borin saman við vísitölu neysluverðs. Ef afborganir samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu reynast lægri en afborganir samkvæmt vísitölu neysluverðs er þeim hluta af afborgunum lánsins sem nemur mismuninum frestað þar til greiðslujöfnunarvísitalan hækkar á ný umfram vísitölu neysluverðs. Sá hluti afborgana sem frestast er færður á jöfnunarreikning sem bætist við höfuðstól lánsins og sem lántaki greiðir síðar á lánstímanum með vöxtum og verðbótum.

Greiðslujöfnun felur ekki í sér eftirgjöf á skuldum heldur er um að ræða frestun afborgana að hluta og þegar til lengri tíma er litið hefur hún því í för með sér aukinn heildarkostnað vaxta og verðbóta fyrir lántaka. Því er ekki sjálfgefið að velja greiðslujöfnun þótt hún létti greiðslubyrðina tímabundið.

Nánari upplýsingar um greiðslujöfnun.

Umsókn um greiðslujöfnun.

Ítarlegri upplýsingar um greiðslujöfnun má sjá á vef Velferðarráðuneytisins.

Úrsögn úr greiðslujöfnun

Lántakandi getur hvenær sem er fallið frá ákvörðun um að óska eftir greiðslujöfnun. Skilyrði fyrir slíkri breytingu er að lánið sé í fullum skilum (þ.e. engin ógreidd greidd afborgun). Sé skuld á jöfnunarreikningi þegar slík ákvörðun er tekin leggst hún við höfuðstól lánsins og greiðist á eftirstöðvum lánstíma.


Nánari upplýsingar um úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda er að finna hjá Umboðsmanni skuldara:  http://www.ums.is/