Skilmála- og skuldbreyting

Óvænt áföll geta skert tekjur þannig að sjóðfélagar eigi í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum eða fyrirsjáanlega í náinni framtíð. Þá er mikilvægt að hafa samband við sjóðinn og leita lausna.

Ýmis úrræði geta verið til þegar sjóðfélagar lenda í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum. Afar mikilvægt er að þegar slíkt gerist, eða fyrirsjáanlegt er að erfiðleikar séu framundan, hafi sjóðfélagar samband við sjóðinn sem fyrst svo hægt sé að leita hentugra lausna og koma þannig í veg fyrir aukinn kostnað og áhyggjur.

Hér á eftir er yfirlit yfir þau ráð sem sjóðfélögum standa til boða (Ath!: Hægt er að skoða í lánareiknivélinni hvaða áhrif hver og einn þessara möguleika hefur á lánið):

Lánstími lengdur í allt að 40 ár frá útgáfudegi

Lántakendum með lán til skemmri tíma en 40 ára býðst að lengja lánstímann í 40 ár og lækka þannig greiðslubyrðina.

Hafa verður í huga að þessu fylgir sá ókostur að lánið verður dýrara þegar upp er staðið því vextir og eftir atvikum verðbætur reiknast á lánið yfir lengri tíma.

Beiðni um skilmálabreytingu á láni

Láni með jöfnum afborgunum breytt í jafngreiðslulán

Oft er greiðslubyrði lána með jöfnum afborgunum nokkuð þyngri en af jafngreiðslulánum. Ef lán er með föstum vöxtum er hægt að lækka greiðslubyrðina með því að óska eftir breytingu á skilmálum láns með jöfnum afborgunum þannig að afborganir miðist við jafnar greiðslur (annuitet).

Við þessa breytingu þarf að hafa í huga að annuitetslán eru að endingu dýrari, þ.e. heildargreiðsla vaxta og verðbóta verður hærri yfir lánstímann þar sem afborgun af höfuðstól lánsins er lægri til að byrja með.

Beiðni um skilmálabreytingu á láni

Beiðni um skuldbreytingu á láni

Skuldbreyting á við ef um veruleg vanskil er að ræða og ólíklegt er að önnur úrræði leysi greiðsluvandann. Skuldbreyting er yfirleitt ekki gerð oftar en einu sinni fyrir hvert lán og felst hún í því að uppsöfnuðum vanskilum er bætt við eftirstöðvar lánsins. Möguleiki til að skuldbreyta getur einnig takmarkast af veðrými og samþykki síðari veðhafa.

Beiðni um skilmálabreytingu á láni


Nánari upplýsingar um úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda er að finna hjá Umboðsmanni skuldara:  http://www.ums.is/